föstudagur, desember 30, 2011

30. desember 2011 - Tímamót

Að ná sextugu hefur alls ekki verið öllum gefið. Flest formæðra minna og forfeðra náðu aldrei þessum aldri, sum náðu ekki einu sinni fertugu. Tvær langömmur mínar gerðu þó betur, langamma mín í beinan kvenlegg varð mörgum kerlingum eldri, lifði þrjú af fjórum börnum sínum og varð 96 ára gömul og bjó í yfir 70 ár að Vallá á Kjalarnesi. Hún skilur eftir sig stóran ættboga sem í dag skiptir hundruðum niðja því þótt öll börnin og flest barnabörnin séu löngu látin þá hefur frjósemin haldist meðal niðjanna sem enn dunda sér við að uppfylla jörðina. Önnur langamman varð 84 ára gömul sem þykir kraftaverk því hún var aldrei sú eðalmanneskja í augum samtíðarmanna sinna sem Gunnhildur á Vallá varð. Sesselja Jónsdóttir fæddist í fátækt, ólst upp meðal vandalausra, lesblind og talin misheppnuð af samtíðarmönnum, þvældist á milli bæja sem vinnukona en varð ólétt af ekkjumanni sem hafði hætt búskap og eftir það var ekki komist hjá ábyrgðinni. Fimm árum eftir að einkadóttirin lést ung að aldri lést þessi langamma mín og virtist þá flestum gleymd. Þrjú þessara barna sem dóttirin ól reyndust þó öllu frjósamari en amman og má segja að með þeim sé minning um bláfátæka vinnukonuna orðin raunveruleg þótt komin séu 84 ár frá andláti hennar.

Af foreldrum foreldranna náði aðeins einn fimmtugu, móðurafi minn sem dó um borð í Heklunni 73 ára gamall árið 1965, en foreldrar föður míns dóu bæði ung, hann 37 ára og hún 34 ára.

Ég veit ekki hvað átti að verða af mér sem barni. Þrátt fyrir ást foreldra minna á börnum sínum varð alkóhólisminn ástinni yfirsterkari og því ekki við miklu að búast. Kannski má segja að tugirnir í ævi einnar manneskju endurómi ævi hennar.

Ég fæddist í fátækt að Höfðaborg 65 í Reykjavík, nokkurnveginn þar sem Sparisjóður vélstjóra var síðar, hið yngsta af sjö fæddum börnum foreldra minna.
Tíu ára afmælinu eyddi ég á barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellsdal, fjarri foreldrum mínum en í góðri umsjá starfsfólksins á barnaheimilinu sem og alúð nágranna okkar í Mosfellsdalnum.
Tvítugsafmælinu var eytt á sjó, höfðum lestað síld í tunnum í höfnum á Nýfundnalandi og vorum á leið með farminn til Finnlands og Sovétríkjanna (Ventspils í Lettlandi).
Haldið var uppá þrítugsafmælið í faðmi fjölskyldunnar og eiginkonan ólétt af þriðja barninu og ekki var stóri vinningurinn í getraunum til að spilla gleðinni.
Fertugsafmælinu var varið í ókunnu landi, vinafá og einmana í Jakobsberg nærri Stokkhólmi. Kveðjurnar voru fáar og afmælisgjafirnar enn færri ef ég man rétt, einungis ein sem var frá vinnufélögum mínum við Hässelbyverket í Stokkhólmi.
Fimmtug var ég löngu komin til Íslands, enn fyrirlitin af mörgum og af sumum talin með illum öflum á Íslandi, búsett í  lítilli íbúðarkytru í efra Breiðholti. Er ég fór á kráarrölt um kvöldið fann einhver kráargestur þörf til þess að tjá sig um líf mitt með því að hella yfir mig úr fullu glasi af öli þar sem ég sat í makindum við borð og talaði við fólk. Það var reyndar hvorki í fyrsta sinn né síðasta sem einhver fann ástæðu til að sýna mér fyrirlitningu sína á þann eða svipaðan hátt.
Nú er komið að sextugsafmælinu. Ég held að ég sé vel liðin af flestum, alls ekki öllum. Enn er til fólk sem hatar mig og fyrirlítur, en meirihlutinn hefur tekið mig í sátt. Börnin eru löngu orðin fullorðin og ég bý ein í lítilli íbúð ásamt tveimur kisum í Árbæjarhverfi. En samt, ég fæ á tilfinninguna að ég hafi sigrað, ef ekki almenningsálitið, þá sjálfa mig og þröngsýni mína.

Það verður fróðlegt að vita hvernig staðan verður við starfslok sem verða ekki seinna en daginn eftir sjötugsafmælið, kannski miklu fyrr. 


0 ummæli:







Skrifa ummæli