laugardagur, ágúst 31, 2013

31. ágúst 2013 - Vangaveltur um risaskip




Um daginn bárust fréttir af nýju gámaskipi sem kom til Evrópu. Mærsk McKinney Möller er stærsta gámaskip í heimi, tæpir 400 metrar á lengd og tæpir 60 metrar á breidd og talið geta borið 18270 gámaeiningar (nærri tvöfaldur heildargámafjöldi allra þeirra áætlunarskipa sem sigla milli Íslands og annarra landa) og heitir eftir nýlega látnum stjórnarformanni Mærsk skipafélagsins í Danmörku. Þetta skip og systurskip þess eru stærstu skip sem nú fljóta á heimshöfunum, reyndar ekki þau stærstu sem smíðuð hafa verið, en stærstu risatankskipunum hefur öllum verið lagt og þau rifin.

Það eru ekki mörg ár síðan gámaskipið Gudrun Mærsk var tekið í notkun, einungis átta ár. Þá var Gudrun Mærsk ásamt fimm systurskipum sínum, stærstu gámaskip í heimi, 367 metrar á lengd og 43 metrar á breidd og í fyrstu talin geta borið 7500 teu´s en reyndust bera þúsund gámum meira. Á þeim tíma hélt ég að gámaskipin yrðu ekki mikið stærri en ég varð fljótlega að éta þá skoðun mína ofan í mig aftur. Á undanförnum árum hafa gámaskipin bara orðið stærri og stærri og er nú svo komið málum að hundrað stærstu gámaskipin í heiminum bera hvert fyrir sig yfir 13000 teu´s. Með nýjum og stærri skipalyftum í Panama verða gömlu takmörkin senn úr sögunni að skip megi ekki vera yfir 32,4 metrum á breidd til að komast þar í gegn, en öll hin nýju risagámaskip eru langt yfir þessum gömlu takmörkunum, nokkur að auki of stór miðað við hin nýju hlið sem er verið að setja upp í Panama. 

Það er ljóst að nýju risaskip Mærsk munu ekki fara í gegnum Panamaskurð vegna stærðar sinnar. Nokkur önnur risaskip komast ekki heldur þarna í gegn, t.d. er talið að Oasis of the Seas og Allure of the Seas séu of há fyrir hina frægu Bridge of Americas .  Mærsk skipin nýtast reyndar ekki að fullu í höfnum sökum stærðar sinnar en sumar áætlunarhafnirnar eru enn vanbúnar að losa gáma sem eru í efstu röðum skipanna, en það stendur til bóta á næstu mánuðum og árum.

Það sem vakti mesta athygli mína var þó hinn mikli hraði á smíði nýju risaskipanna. Samið var um smíði þeirra í febrúar 2011. Fyrsta skipið, Mærsk McKinney Möller var afhent í lok júní og nú tveimur mánuðum síðar er annað skipið í röðinni, Majestic Mærsk á leiðinni til Evrópu og þriðja skipið, Mary Mærsk í reynslusiglingum. Áætlað er að afhenda sex skip fyrir áramót en öll tíu skipin úr fyrstu pöntun fyrir mitt næsta ár.

Til samanburðar má geta þess að nokkrum mánuðum eftir samninginn um smíði risaskipanna samdi Eimskip um smíði tveggja gámaskipa í Kína. Þau munu geta borið 875 gámaeiningar hvort og verða afhent snemma á árinu 2014. Stærstu gámaskip Eimskipafélagsins og jafnframt stærstu skip í eigu Íslendinga eru Goðafoss og Dettifoss sem bæði eru gömul Mærsk skip, en þau geta borið 1457 gámaeiningar.

Um hugann rifjast minningar frá veru minni á fyrsta eiginlega gámaskipi Íslendinga, Bakkafossi sem var 102 metrar á lengd og skráður geta borið 116 gáma. Mig minnti reyndar að þeir hefðu verið 146, en þetta segja bækurnar og hafa skal það sem réttara reynist.

P.s.  Eitt teu er einn tuttugu feta gámur.

fimmtudagur, ágúst 29, 2013

29. ágúst 2013 - Sigurður VE




Sagt er að gamlir sjóhundar eins og ég séum með salt í blóðinu og má það rétt vera. Eftir að hafa verið á sjó á þriðja áratug á sínum tíma er erfitt að losna við bakteríuna úr blóðinu þótt ég sé löngu hætt föstu starfi á sjó og enn sé ég fátt fegurra en skip með fallegar línur.

Eitt af fegurri skipum flotans hélt úr höfn í Vestmannaeyjum miðvikudaginn 28. ágúst áleiðis til Esbjerg í Danmörku þar sem skipið verður rifið. Hér er ég að tala um Sigurð VE-15, sem upphaflega hafði einkennisnúmerið ÍS-33 og síðar RE-4 áður en farið var að gera það frá Vestmannaeyjum.  Þrátt fyrir þetta var skipið alla tíð í eigu sömu fjölskyldunnar, Einars ríka Sigurðssonar og fjölskyldu. Sigurður var ekki einungis eitt af fegurri skipum flotans heldur og eitt þeirra skipa sem hafa komið með mestan afla að landi. Skipið var aflahæsti togari landsins í átta ár áður en því var breytt í nótaskip og var síðan sem slíkt aflahæsta nótaskip flotans um árabil. Nú er orðið of kostnaðarsamt að endurbæta skrokk skipsins og því er það selt í brotajárn.

Ég fór einu sinni jólatúr á skipinu þegar ég var í Vélskólanum. Það var þá enn síðutogari og haldið var úr höfn 20. desember og farið beint á veiðar. Þetta var erfiður brælutúr fyrir hásetana, en ég hafði það huggulegt í vélarúminu undir öruggri handleiðslu yfirvélstjóra ferðarinnar Guðmundar Aronssonar.  Ætlunin var að toga langt tog á aðfangadagskvöld jóla svo mönnum gæfist tækifæri til að melta jólamatinn, en ekki fór það alveg svo því um vaktaskiptin um kvöldið var trollið híft úr festu og reyndist hengilrifið og því ekki um annað að gera fyrir hásetana en að leggjast í netabætingar á meðan fjölskyldur þeirra sátu að veisluborði undir hljómum jólasálmanna.

Við vorum lengi á veiðum, eina sextán daga ef ég man rétt áður en haldið var í siglingu með aflann til Bremerhaven í Þýskalandi, sömu hafnar og skipið hafði verið smíðað 12 árum áður. Mig minnir að salan hafi gengið sæmilega og á heimleiðinni var komið við í Vestmannaeyjum og tekinn ís til næstu ferðar enda minnir mig að verkfall hafi verið í gangi í Reykjavík á þessum tíma. Þetta var örfáum dögum fyrir gos og ég orðin tveimur vikum á eftir áætlun í náminu, en það fór samt vel að venju.

Eftir þennan túr á Sigurði hefur mér ávallt þótt örlítið vænt um þetta fallega skip sem nú siglir sína síðustu ferð og þykir miður að ekki reyndist vilji til að vernda þetta mikla aflaskip.



mánudagur, ágúst 12, 2013

12. ágúst 2013 - Enn um strákana á Borginni


Um og eftir helgina hafa tveir menn verið áberandi í umræðunni um hinsegin fólk og þá sérstaklega samkynhneigða stráka. Nöfn þeirra skipta í sjálfu sér ekki máli. Það vita það allir sem vilja vita og ég sé ekki ástæðu til að básúna út nöfn þeirra ef ske kynni að þeir sæu eftir orðum sínum. Ég fór hinsvegar að velta fyrir mér orðum þeirra og nokkurs hóps fólks sem meðal annars hringdi inn á Bylgjuna eða tjáði sig í vefmiðlum til að lýsa yfir stuðningi við fordóma þessara manna og upp í hugann kom gamall pistill sem ég skrifaði fyrir nokkrum árum og sem ég birti hér lítið breyttan:

Upp kom í hugann minning um strák sem var dæmigerður fyrir strákana á Borginni og sem ég kynntist á árunum eftir 1980. Hann var ungur og hann var með fallegustu strákum sem ég hefi fyrirhitt um dagana. Stelpur voru mikið á eftir honum, en hann hafði engan áhuga. Hann hét Sigurgeir og var stundum kallaður Flissfríður sem sagði heilmikið um karakterinn, enda hafði hann gaman af að leika stelpu og hann var hommi af guðsnáð í samfélagi sem hatar þá.

Á þessum árum voru enn skörp skil á milli kynjahlutverka og Sigurgeir fór ekki varhluta af þessum fordómum samfélagsins. Einhverju sinni var hann í kvenhlutverki og var að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur og gengu lætin út í nokkrar öfgar, svo mjög að lögreglan sá ástæðu til aðgerða. Er lögreglumennirnir (sem voru greinilega ráðnir fyrir daga upplýsingar um mannlegt eðli) uppgötvuðu hvers kyns var, tóku þeir drenginn inn í Svörtu Maríu og tuskuðu til að hætti þess sem valdið hefur. Þetta hefi ég eftir fólki sem var með honum, en sem gat ekki hönd við reist þegar yfirvaldið var annars vegar og engin urðu kærumálin í kjölfarið. Sjálf var ég víðsfjarri, í útlöndum eða á hafi úti og frétti ekki af þessu fyrr en löngu síðar.

Sigurgeir bar sitt barr aldrei eftir þetta. Hann lést innan við ári síðar af öðrum völdum og hans var sárt saknað af vinum sínum, en fátt hægt að gera nema að reyna að bæta skoðanir almennings á öðruvísi viðmiðum á kynhlutverkum og kynhneigð.

Á þessum árum var ég í krísu. Ég hafði gengið í gegnum misheppnað hjónaband og eignast þrjú börn, en hafði ávallt upplifað mig á röngum stað í tilverunni. Ég átti að leika eitthvað sem ég var ekki, eitthvað sem var fjarri eðli mínu. Kynni mín af Sigurgeir, kenndu mér að halda mér á mottunni, að gæta hófsemi og auglýsa ekki eðli mitt. Úr því yfirvöldin beittu þá sem ekki voru jafnöfgakenndir og ég taldist vera á þessum tíma, slíku harðræði sem raun bar vitni, hvernig færu þeir þá að mér? Ég tók enga áhættu og flúði land nokkru síðar, þó ekki af þessum ástæðum sem þó voru ærnar..

Ég vil taka fram að ég hefi löngum átt ágætis samstarf við lögregluna, bæði á Íslandi og í Svíþjóð og veit engan þann starfandi lögreglumann á Norðurlöndum í dag sem vildi feta í fótspor félaga sinna fyrir tveimur áratugum, en hugsið ykkur. Það eru bara 27 ár síðan Sigurgeir var laminn af lögreglunni á Lindargötunni í Reykjavík.

Það er ástæða til að minnast Sigurgeirs í dag. Hann var eitt af fórnarlömbum fordóma gegn samkynhneigðum og hann komst aldrei í gleðigöngu. Hann varð aldrei aðnjótandi mannréttinda sem flestum þykja eðlileg í dag en varð iðulega fyrir barðinu á ofbeldi og fordómum gamalla nöldurseggja af því tagi sem nú sjá ofbeldi í kærleika milli tveggja einstaklinga af sama kyni.

Gleðiganga hinsegin fólks er ekki bara gleðiganga. Hún er til að fagna áföngum sem hafa náðst en um leið hvatning til fólks um að taka okkur í sátt, ekki aðeins í Reykjavík heldur um allan heim. Þar vantar mikið upp á og því er gleðigangan nauðsynleg og því fjölmennari sem hún er, því sterkari skilaboð erum við að senda út til heimsbyggðarinnar. Við þurfum einnig að hvetja alla sem geta að taka þátt í mannréttindastarfi Samtakanna 78 með því að skrá sig sem félaga og sýna þar með gömlu nöldurseggjunum að fordómar þeirra verði ekki liðnir í framtíðinni.
 
Þegar Bubbi Mortens gaf út lag sitt um Strákana á Borginni varð viðhorfsbylting í viðhorfi til samkynhneigðra á Íslandi. Hegðun gömlu nöldurseggjana sýnir að hvergi má slaka á. Baráttunni er ekki lokið.  

laugardagur, ágúst 10, 2013

10. ágúst 2013 - Góð þjónusta hjá Icelandair!


Síðastliðið vor keypti bandarísk vinkona mín sér far til Íslands og langaði til að sjá þetta land þar sem réttindi hinsegin fólks hafa verið talin í hávegum höfð. Þessi kona var á sömu vegferð og ég var fyrir tveimur áratugum. Skömmu eftir að hún hafði keypt sér farmiðann til Íslands með Alaskan Airlines og Icelandair urðu miklar breytingar í lífi hennar. Hún fékk viðurkennda ósk sína um breytingu á nafni og kynferði hjá yfirvöldum vestur í Bandaríkjunum og hún ætlaði að breyta farmiðanum sínum sem hafði verið keyptur á gamla nafninu:

Þá kom babb í bátinn. Umboðsaðili Icelandair neitaði að breyta miðanum þar sem um væri að ræða miða þar sem ekki væri hægt að breyta tilhögun ferðar.

Erindið barst mér og þótt tengdasonur minn  sé náfrændi forstjórans, taldi ég það vera of langt gengið í dramatíkinni að byrja á honum og vildi frekar eiga hann uppi í bakhöndinni.  Ég talaði því við skólasystur mína og vinkonu sem benti mér á hvaða fólk væri best að tala við hjá Icelandair. Ég hafði síðan samband við viðkomandi framkvæmdastjóra með tölvuskeyti  í gær (föstudag) og benti honum á breytta stöðu konunnar í samfélaginu og þörf hennar fyrir að ferðast undir réttu   nafni.

Það liðu ekki margir klukkutímar uns hann svaraði mér með tölvuskeyti og tilkynnti mér að hann hefði virkjað markaðsdeildina í málinu. Einungis örfáum klukkustundum síðar fékk bandarísk vinkona mín símtal frá Icelandair þar sem hún var beðin afsökunar á vandræðum sínum og málið leyst á farsællegasta hátt fyrir alla aðila.

Á sama tíma var ég í Gleðigöngu hinsegin daga í Reykjavík og fagnaði því tvöfalt eftir að ég kom heim. Með þessum frábæru viðbrögðum Icelandair eru þau enn og aftur að sanna hið gamla orðspor sitt frá sjöunda áratug síðustu aldar þegar Loftleiðir gengu undir gælunafninu Hippie Air vegna lágra fargjalda og góðrar þjónustu. Nú er Icelandair eiginlega Queer Air með jákvæðum og fordómalausum viðbrögðum sínum gagnvart hinsegin fólki.

Takk Icelandair!

föstudagur, ágúst 09, 2013

9. ágúst 2013 - Jón Gnarr



Fyrir nokkrum árum síðan hafði ég takmarkað álit á Jóni Gnarr.  Mér leiddust ævintýri hans með Tvíhöfða og ýmislegt var það sem mér fannst ómerkilegt í fari hans. Á móti komu frábærar auglýsingar með honum á borð við Lýð Oddsson lottóvinningshafa og Símaauglýsingin þar sem hann lék Júdas, hvorutveggja hrein snilld. Svo bauð hann sig fram til borgarstjórnar og þótt ég hefði takmarkað álit á honum í pólitík vann hann stórsigur og náði takmarki sínu, varð borgarstjóri.

Framanaf hélt ég manninn vera tækifærissinna með vafasama athyglissýki, en samt, hann var að gera hluti sem aðrir mættu alveg taka sér til fyrirmyndar og hann sló í gegn á Hinsegindögum 2010 og ávallt eftir það. Brúnin á mér tók að lyftast gagnvart honum.

Tengdafaðir Jóns var kollegi minn og góður vinur hjá Eimskip og þótt við hefðum aldrei siglt saman hittumst við oft í landi og merkilegt nokk, þegar við áttum í deilum við yfirvélstjórann, tók Jói Gísla okkar málstað og ræddi rækilega við hann undir fjögur augu og deilurnar urðu að engu. Kannski lærði Jón Gnarr heilmikið af tengdaföðurnum sem varð bráðkvaddur þegar tengdasonurinn var í miðri kosningabaráttu.


Sjálf hitti ég Jón Gnarr í eigin persónu í fyrsta sinn er Íslandsdeild Amnesty International og Reykjavíkurborg gerðu Laugaveginn að Mannréttindagötu um skeið sumarið 2011. Hitti hann svo aftur þegar ég fékk mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 í ágúst 2012. Frá þeim tíma lét Jón Gnarr svo sannarlega í sér heyra, var sem Pussy Riot í gleðigöngunni og síðar hélt hann fræga ræðu í Antwerpen í tilefni af Hinsegin leikunum 2013 þar sem hann talaði fyrir hönd hinsegin fólks  með eftirminnilegum hætti.


Á opnunarhátíð Hinsegin daganna í Reykjavík árið 2013 fékk Jón Gnarr viðurkenningu Samtakanna 78 sem einstaklingur utan félags sem hefur unnið baráttu hinsegin fólks brautargengi og er það vel. Auk hans fengu Hrafnhildur Gunnarsdóttir fyrrverandi formaður Samtakanna 78 viðurkenninguna sem einstaklingur innan félags, en Bandaríska sendiráðið fékk viðurkenninguna sem stofnun, hvorutveggja fyrir gott starf fyrir hinsegin fólk.


Takk Jón Gnarr, ég vona að þú verðir áfram borgarstjóri eftir kosningar. Þú ert búinn að sanna þig í embætti.