Um daginn bárust fréttir af nýju gámaskipi sem kom til Evrópu. Mærsk McKinney Möller er stærsta gámaskip í heimi, tæpir 400 metrar á lengd og tæpir 60 metrar á breidd og talið geta borið 18270 gámaeiningar (nærri tvöfaldur heildargámafjöldi allra þeirra áætlunarskipa sem sigla milli Íslands og annarra landa) og heitir eftir nýlega látnum stjórnarformanni Mærsk skipafélagsins í Danmörku. Þetta skip og systurskip þess eru stærstu skip sem nú fljóta á heimshöfunum, reyndar ekki þau stærstu sem smíðuð hafa verið, en stærstu risatankskipunum hefur öllum verið lagt og þau rifin.
Það eru ekki mörg ár síðan gámaskipið Gudrun Mærsk var tekið í notkun, einungis átta ár. Þá var Gudrun Mærsk ásamt fimm systurskipum sínum, stærstu gámaskip í heimi, 367 metrar á lengd og 43 metrar á breidd og í fyrstu talin geta borið 7500 teu´s en reyndust bera þúsund gámum meira. Á þeim tíma hélt ég að gámaskipin yrðu ekki mikið stærri en ég varð fljótlega að éta þá skoðun mína ofan í mig aftur. Á undanförnum árum hafa gámaskipin bara orðið stærri og stærri og er nú svo komið málum að hundrað stærstu gámaskipin í heiminum bera hvert fyrir sig yfir 13000 teu´s. Með nýjum og stærri skipalyftum í Panama verða gömlu takmörkin senn úr sögunni að skip megi ekki vera yfir 32,4 metrum á breidd til að komast þar í gegn, en öll hin nýju risagámaskip eru langt yfir þessum gömlu takmörkunum, nokkur að auki of stór miðað við hin nýju hlið sem er verið að setja upp í Panama.
Það er ljóst að nýju risaskip Mærsk munu ekki fara í gegnum Panamaskurð vegna stærðar sinnar. Nokkur önnur risaskip komast ekki heldur þarna í gegn, t.d. er talið að Oasis of the Seas og Allure of the Seas séu of há fyrir hina frægu Bridge of Americas . Mærsk skipin nýtast reyndar ekki að fullu í höfnum sökum stærðar sinnar en sumar áætlunarhafnirnar eru enn vanbúnar að losa gáma sem eru í efstu röðum skipanna, en það stendur til bóta á næstu mánuðum og árum.
Það sem vakti mesta athygli mína var þó hinn mikli hraði á smíði nýju risaskipanna. Samið var um smíði þeirra í febrúar 2011. Fyrsta skipið, Mærsk McKinney Möller var afhent í lok júní og nú tveimur mánuðum síðar er annað skipið í röðinni, Majestic Mærsk á leiðinni til Evrópu og þriðja skipið, Mary Mærsk í reynslusiglingum. Áætlað er að afhenda sex skip fyrir áramót en öll tíu skipin úr fyrstu pöntun fyrir mitt næsta ár.
Til samanburðar má geta þess að nokkrum mánuðum eftir samninginn um smíði risaskipanna samdi Eimskip um smíði tveggja gámaskipa í Kína. Þau munu geta borið 875 gámaeiningar hvort og verða afhent snemma á árinu 2014. Stærstu gámaskip Eimskipafélagsins og jafnframt stærstu skip í eigu Íslendinga eru Goðafoss og Dettifoss sem bæði eru gömul Mærsk skip, en þau geta borið 1457 gámaeiningar.
Um hugann rifjast minningar frá veru minni á fyrsta eiginlega gámaskipi Íslendinga, Bakkafossi sem var 102 metrar á lengd og skráður geta borið 116 gáma. Mig minnti reyndar að þeir hefðu verið 146, en þetta segja bækurnar og hafa skal það sem réttara reynist.
P.s. Eitt teu er einn tuttugu feta gámur.