föstudagur, ágúst 09, 2013

9. ágúst 2013 - Jón Gnarr



Fyrir nokkrum árum síðan hafði ég takmarkað álit á Jóni Gnarr.  Mér leiddust ævintýri hans með Tvíhöfða og ýmislegt var það sem mér fannst ómerkilegt í fari hans. Á móti komu frábærar auglýsingar með honum á borð við Lýð Oddsson lottóvinningshafa og Símaauglýsingin þar sem hann lék Júdas, hvorutveggja hrein snilld. Svo bauð hann sig fram til borgarstjórnar og þótt ég hefði takmarkað álit á honum í pólitík vann hann stórsigur og náði takmarki sínu, varð borgarstjóri.

Framanaf hélt ég manninn vera tækifærissinna með vafasama athyglissýki, en samt, hann var að gera hluti sem aðrir mættu alveg taka sér til fyrirmyndar og hann sló í gegn á Hinsegindögum 2010 og ávallt eftir það. Brúnin á mér tók að lyftast gagnvart honum.

Tengdafaðir Jóns var kollegi minn og góður vinur hjá Eimskip og þótt við hefðum aldrei siglt saman hittumst við oft í landi og merkilegt nokk, þegar við áttum í deilum við yfirvélstjórann, tók Jói Gísla okkar málstað og ræddi rækilega við hann undir fjögur augu og deilurnar urðu að engu. Kannski lærði Jón Gnarr heilmikið af tengdaföðurnum sem varð bráðkvaddur þegar tengdasonurinn var í miðri kosningabaráttu.


Sjálf hitti ég Jón Gnarr í eigin persónu í fyrsta sinn er Íslandsdeild Amnesty International og Reykjavíkurborg gerðu Laugaveginn að Mannréttindagötu um skeið sumarið 2011. Hitti hann svo aftur þegar ég fékk mannréttindaviðurkenningu Samtakanna 78 í ágúst 2012. Frá þeim tíma lét Jón Gnarr svo sannarlega í sér heyra, var sem Pussy Riot í gleðigöngunni og síðar hélt hann fræga ræðu í Antwerpen í tilefni af Hinsegin leikunum 2013 þar sem hann talaði fyrir hönd hinsegin fólks  með eftirminnilegum hætti.


Á opnunarhátíð Hinsegin daganna í Reykjavík árið 2013 fékk Jón Gnarr viðurkenningu Samtakanna 78 sem einstaklingur utan félags sem hefur unnið baráttu hinsegin fólks brautargengi og er það vel. Auk hans fengu Hrafnhildur Gunnarsdóttir fyrrverandi formaður Samtakanna 78 viðurkenninguna sem einstaklingur innan félags, en Bandaríska sendiráðið fékk viðurkenninguna sem stofnun, hvorutveggja fyrir gott starf fyrir hinsegin fólk.


Takk Jón Gnarr, ég vona að þú verðir áfram borgarstjóri eftir kosningar. Þú ert búinn að sanna þig í embætti.  



0 ummæli:







Skrifa ummæli