Það hefur
löngum þótt tilhlýðilegt fyrir gamla sjómenn að halda upp á sjómannadaginn og
svo er einnig með mig. Þó hefi ég oftar en ekki verið fjarverandi á þessum degi
eða þá eftir að ég hætti til sjós, bundin af vaktinni í landi. Reyndar var
sjómannadeginum sýnd svo lítil virðing í mörg ár í útgerðarbænum Reykjavík að
haldið var upp á daginn í Nauthólsvík. Þau árin kom ég ekki nálægt hátíðarhöldum
sjómannadagsins þótt ég væri í Reykjavík og í fríi, enda voru hátíðarhöldin þá
eins og hver önnur niðurlæging. Sem betur fer höfðu menn rænu á að flytja
hátíðarhöldin aftur niður að gömlu höfn og síðan hafa þau bara aukist ár frá
ári og frá því fyrir fimmtán árum orðið að tveggja daga hátið með Hátíð hafsins
á laugardeginum.
Hátíðarhöldin aukast enn þetta árið með því að Landsbjörg „þjófstartar“ með
fjáröflunardagskrá í sjónvarpi og er það vel að tengja hana við hátíðarhöld
sjómannadagsins, en sjálf mun ég byrja á hádegi á föstudag með verkefni á vegum
Slysavarnaskóla sjómanna. Þar sem mikið af þeim verkefnum sem björgunarsveitirnar
munu sinna sjómannadagshelgina voru löngu skipulögð, var ég búin að skrá mig
til vinnu á björgunarskipið Ásgrím S. Björnsson alla helgina eftir því sem
báturinn verður í notkun. Fyrir rúmri viku síðan fékk ég beiðni um vaktstöðu um
borð í Óðni þessa sömu helgi því þá er stöðugur gestagangur um skipið og
Hollvinasamtök Óðins sjá um að sýna gestunum skipið, en því miður. Ég var búin
að lofa mér til vinnu á björgunarskipið þessa helgi og get því einungis
aðstoðað við gæsluna um borð í Óðni að verkefnunum á Ásgrími verði lokið.
Ég var varla búin að gefa kannski-kannski ekki svarið til Sjóminjasafnsins og
Óðins að ég fékk símtal. Það er nefnilega þjóðfundur hinsegin fólks í Ráðhúsinu
í Tjörninni eftir hádegi á laugardag. Síðan þá hefi ég fengið skeyti, bréf og
beiðnir á Facebook um að mæta á þjóðfundinn, en betra er að segja nei en að
segja kannski þegar vitað er að ég kemst ekki. Næsta beiðni kom frá Íslandsdeild
Amnesty International. Það á að vera uppákoma til stuðnings Rómafólki á
Ingólfstorgi eftir hádegi, jú getið hvenær, eftir hádegi laugardaginn 1. júní.
Ég svaraði eins og áður, búin að lofa mér í annað og kemst ekki. Á þriðjudag
kom svo enn ein tilkynningin. Það er flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar í
Reykjavík laugardaginn 1. júní klukkan 10.00 - 16.00. Ofaná allt átti að halda
einhvern samevrópskan símafund, aukaaðalfund Evrópsku transgendersamtakanna
þessa sömu daga, en af einhverri þrjósku hefi ég ekki einu sinni lesið póstana
mína, enda verð ég að sleppa því að taka þátt í gagnrýni á sjálfa mig og aðra
eftir að ég neitaði að undirrita ársreikningana í haust sem leið.
Nú vantar ekkert nema kröfu um að mæta á aukavakt í vinnunni til að fullkomna
dæmið. Ég hafði fengið kröfu um skyldumætingu á vinnustaðarfund á föstudag, en
sökum þess að ég er í sumarleyfi er ég undanþegin kröfunni þótt mælst sé til
þess að ég mæti og sem ég hefði gert annars.
Benda allar þessar óskir til þess að ég sé búin að gefa mig út í alltof mörg
félagsmálastörf eða er ég kannski bara gamalt fífl sem kann ekki að segja nei?
Ég hallast æ meira að þessu síðarnefnda, en það er bara svo gaman að þessu öllu.
miðvikudagur, maí 29, 2013
29. maí 2013 - Fíflið ég og sjómannadagshelgin
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:24
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
Passa sig að ofhlaða sig ekki af verkefnum.
SvaraEyða