Á þriðjudag
mætti ég fyrir framan Stjórnarráð Íslands til að lýsa yfir samstöðu með þeim
sem tóku þátt í hófsamri aðgerð þar sem fáránlegum ummælum hins nýja
forsætisráðherra um mótmæli gegn virkjanaframkvæmdum var mótmælt. Fólk kann að
furða sig yfir mætingu minni á þennan fund, en þarna var ég af öllu mínu
hjarta. Ég gætti þess þó vandlega að afþakka boð um að halda á lofti hinum
græna fána Lýbíu frá dögum Gaddafis og klappaði hóflega fyrir góðu ræðufólki.
Þar stóð sig betur lítil tík í eigu dýralæknis kattanna minna, en hún gelti
ákaflega í hvert sinn sem fólk klappaði og eingöngu þá. Hún kunni sig betur en
ég.
Það er alveg rétt. Ég hefi löngum verið stimpluð álverssinni og virkjanasinni
og hefi unnið vel fyrir því orðspori. Ég hefi aldrei tekið til baka þau orð mín
um að ál er hið besta mál, umhverfisvænn málmur sem gerir okkur kleyft að
ferðast ódýrt og er einn af mörgum undirstöðum undir velferðarsamfélag
nútímans. Ég ætla heldur ekki að taka
til baka þau orð mín núna. Ég var stuðningsaðili Fljótdalsvirkjunar og
framkvæmda við Kárahnúka rétt eins og meginþorri Austfirðinga vina minna. Ég
hefi heldur ekki bakkað frá þeirri skoðun minni, en viðurkenni jafnframt að í
blindni minni gerði ég mér ekki grein fyrir afleiðingunum á lífríki
Lagarfljótsins þótt mér hefði átt að vera ljóst að mikið magn af jökulárleir
færi ekki vel í bergvatnsána Lagarfljót.
En það er mín heimska.
Um leið er ég ekki reiðubúin að bakka með þá skoðun mína að hækkun
Þingvallavatns um hálfan metra á árunum fyrir 1960 hafi ekki verið umhverfisslys.
Dæling á óhemjumagni af skordýraeitri á bakka Þingvallavatns árin eftir 1960 að
kröfu sumarbústaðaeigenda voru hinsvegar umhverfisslys og hafa frekar en allt
annað útrýmt stórurriðanum að mestu. Þá vil ég meina að virkjun Blöndu hafi
einungis verið af hinu góða þar sem með Blönduvirkjun tókst að koma böndum á
Blöndu og gera áraurana í Langadalnum byggilega. Ég er einnig sammála þeim
rökum að án virkjunar Elliðaánna væru árnar stjórnlausar og hættulegar.
Núverandi ástand gerir árnar lífvænlegar og á hverju sumri sé ég gnótt fiskjar
í ánum sem annars væru í mjög sveiflukenndu ástandi.
Á sama hátt reyni ég að meta afstöðu mína útfrá þekkingu íbúa viðkomandi
landssvæðis. Ég fylltist hrifningu af baráttu Þingeyinga er þeir sprengdu
stífluna í Laxá 1970, en ég fylltist einnig hrifningu yfir baráttu Austfirðinga
fyrir sinni virkjun. Ég mun einnig halda áfram að styðja baráttu heimamanna
fyrir sínum málstað í framtíðinni þótt deila megi um málstaðinn. Þeir þekkja
best sitt land.
Og þá er komið að stóra vandamálinu. Hengilssvæðinu. Reykjavíkurborg keypti landssvæði
og vatnsréttindi á Hengilssvæðinu fyrir löngu. Það var ljóst að sú orka sem
fékkst frá borholum í Reykjavík og Mosfellsbæ nægði engan veginn til framtíðar
til tryggingar hitaveitukerfi Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga og það
þurfti að grípa til róttækra aðgerða til að tryggja hitaveituna til
framtíðar. Nesjavallavirkjun komst í
gagnið 1990 og það var unaðslegt að skoða í töflum og tölum hve virkjunin létti
á heitavatnsforðabúum Reykjavíkur og
Mosfellsbæjar. Eftir of mikla dælingu á heitu vatni nægði heita vatnið frá
Nesjavöllum til að fá heitu svæðin í Reykjavík og Mosfellsbæ til að jafna sig á
skömmum tíma og ná fyrri styrk og í dag tökum við ekki meiri orku úr þessum
forðabúum en krefst til að viðhalda náttúrulegu jafnvægi. Rafmagnsframleiðsla á
Nesjavöllum breytti heldur ekki miklu er hún hófst haustið 1998. Þarna var
verið að nýta toppinn af gufuþrýstingnum til rafmagnsframleiðslu en eftir var
samt nægileg orka til heitavatnsframleiðslu og sama gilti er þriðja túrbínan
bættist við.
Síðan þá hefur mikið breyst. Með fjórðu túrbínunni á Nesjavöllum og síðan Hellisheiðarvirkjun
kom nýtt viðmót, gróðasjónarmiðið. Allt í einu
hætti heitavatnsframleiðslan fyrir höfuðborgarsvæðið að vera aðalatriðið
og rafmagnið og gróðasjónarmiðið tóku við og í Hellisheiðarvirkjun bættust við 300
MW sem kostuðu óhemjumikla orku sem var puðrað út í andrúmsloftið eftir
rafmagnsframleiðsluna með hæfilegum skammti af brennisteinsvetni, en með
sáralítilli heitavatnsframleiðslu til hagsbóta fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins.
Ég var hlynnt þessum framkvæmdum, en ekki lengur. Sem betur fer er búið að
stoppa af brjálæðið um sinn. En hversu lengi?
Orkuveita Reykjavíkur tók þátt í brjálseminni og var nánast gjaldþrota á
eftir, eftir að hafa selt rafmagn í heildsölu á útsöluverði. Eigum við að þurfa að horfa á áframhaldandi
virkjanaframkvæmdir þar sem meirihluta orkunnar er veitt beint út í
andrúmsloftið til skaða fyrir alla eða verður skynseminni beitt þar sem ekki
er virkjað meira en nægir til að nýta affallið til heitavatnsframleiðslu, öllum
til hagsbóta? Hvað tekur við eftir nokkur ár ef raforkuframleiðslan verður til
að forðabú Hengilssvæðisins tæmist á næstu tuttugu árum? Það væri gott fyrir
fólk að lesa ævisögu Jóhannesar heitins Zoëga, hitaveitustjóra Reykjavíkur
1962-1988 og velta fyrir sér þeim vandamálum sem geta blasað við ef við göngum
of nærri þeim möguleikum sem finnast á Hengilssvæðinu.
Ég reyni ekki að véfengja þá skoðun fólks á mér að ég sé virkjanasinni og umhverfissóði.
En um leið veit ég hvað mér finnst um
frekari virkjanaframkvæmdir á Hellisheiði. Því segi ég stopp við frekari framkvæmdum
við rafmagnsframleiðslu á Hellisheiði!
miðvikudagur, maí 29, 2013
29. maí 2013 - Ég er virkjanasinni og umhverfissóði
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 02:12
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
Takk fyrir einlægan og virðingarsaman pistil Anna. Ég tek undir hvert einasta orð.
SvaraEyða