þriðjudagur, maí 28, 2013

28. maí 2013 - Að bera virðingu fyrir fólki


Síðustu dagana hefur mikill persónulegur áróður verið í gangi gegn Vigdísi Hauksdóttir alþingimanni á Facebook og kannski víðar, nú síðast eftir mjög ljótt orðbragð af hálfu manns sem siglir undir fölsku flaggi á Facebook og fleiri nafngreindir einstaklingar, þar með taldir nokkrir fésbókarvinir mínir,  voru sömuleiðis með leiðindi gegn Vigdísi persónulega á Facebook, reyndar ekki jafnharkaleg og dularfulli „verkfræðingurinn“ sem á tvífara í norskum píanóleikara.

Ég hefi aldrei talist stuðningsmanneskja Vigdísar Hauksdóttur í pólitík. Við erum pólitískir andstæðingar í flestum málum enda erum við í sinnhvorum stjórnmálaflokknum og á sinnhvorum vængnum í íslenskri póltík. Það breytir ekki því að ég tel að sérhver manneskja eigi skilið fulla virðingu sem manneskja og þá ekki síður Vigdís en aðrar manneskjur. Ég hefi vissulega oft brosað að ummælum hennar eða jafnvel hneykslast á þeim, en ég mun samt halda áfram að bera virðingu fyrir Vigdísi eins og öðru fólki. Að auki hefi ég heyrt frá samflokksfólki mínu á Alþingi að Vigdís sé skemmtileg í hópi félaga sinna á Alþingi og mitt samflokksfólk myndi ekki halda slíku fram nema vegna þess að það sé sannleikskorn í slíku.

Ég hefi lært það af rúmlega sex áratugum af fátækt, einelti, fordómum og ofbeldi að persónuleg virðing gagnvart öðru fólki sé hið einasta sem getur leitt til betra ástands í samfélaginu. Barátta samkynhneigðra fyrir mannréttindum á Íslandi  á síðasta fjórðungi síðustu aldar var ekki háð með ofbeldi heldur virðingu fyrir andstæðingunum og ofbeldinu var sömuleiðis svarað með virðingu fyrir þeim persónum sem áttu hlut að máli. Sjálf hefi ég reynt að læra af baráttu og reynslu samkynhneigðra og reyni að forðast persónulegt og nafngreint níð í eigin baráttu fyrir réttlæti, en það hefur ekki alltaf verið auðvelt. Stundum hefi ég misst eitt og annað útúr mér gagnvart hópi manna en sjaldnast gegn einstaklingum nema ég viti á þá skömmina og jafnvel þá hefi ég forðast persónulegt níð.  Ég skal þó játa að ég á það til að bölva hressilega þeim sem koma illa fram gagnvart mér, gagnvart öðru fólki eða gagnvart umhverfi sínu að mínu mati. Þannig fá íbúarnir við Rituhóla gjarnan hiksta þegar ég geng göngustíginn neðan við Rituhólana, en þeir sem kunna ekki á stefnuljósin á bílum sínum eða tala í síma í akstri  fá sömuleiðis bölbænir frá mér, en þær eru venjulega gleymdar daginn eftir, en bölbænir gagnvart íbúum Rituhóla rifjast alltaf upp næst þegar ég geng stíginn milli eyðilagðra trjánna.

Sem andstæðingur núverandi ríkisstjórnar mun ég nota hvert tækifæri til að bölva stjórnarflokkunum og nýjum meirihluta á Alþingi. En það verður að vera málefnalegt og má ekki vera of persónulegt. Mér myndi til dæmis aldrei koma til hugar að gefa Ásmundi Einari á lúðurinn ef ég mætti honum á götu þótt ég fyrirlíti skoðanir hans gegn samvinnu þjóða og Evrópusambandinu. Þvert á móti læri ég af neikvæðni hans hve Vigdís Hauksdóttir er í raun skemmtilegur karakter.

En ég mun aldrei kjósa þau, ekki frekar en fyrri daginn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli