sunnudagur, apríl 06, 2014

6. apríl 2014 - Opnun lækjarins undir Lækjargötu


Ég var að skoða tölvugerða mynd af hugmynd sem komið hefur fram um að opna lækinn sem Lækjargata er kennd við á milli Tjarnarinnar og sjávar, kannski ekki alla leið en hafa hann samt opinn við sjálfa Lækjargötuna og að Lækjartorgi og kannski eitthvað lengra til norðurs. Hugmyndin er falleg þar sem bátar geta siglt um síkið eins og gondólar í Feneyjum, en um leið er hún arfavitlaus, svo vitlaus að breytingin á Kemstvallagötunni (Hofsvallagötu) kemst varla í hálfkvist við þessa hugmynd. Þá er ég ekki einungis að tala um hugsanlega lokun Lækjargötunnar fyrir bílaumferð heldur og önnur atriði sem sannanlega hafa ekki verið hugleidd við gerð þessarar hugmyndar.

Þar sem opin síki eru á norðlægum slóðum eykur slíkt á rakastigið í nágrenninu. Þetta gerir ekki svo mikið til í Stokkhólmi eða víðar við Eystrasaltið sökum þess að hið lága saltstig sjávar og vatna gerir að verkum að vötnin og sjó leggur snemma og eftir að ís hefur náð að myndast fellur rakastigið, andrúmsloftið þornar og minna verður vart við kuldann. Á öðrum stöðum eins og við Englandsstrendur og sérstaklega við hafnir í Hollandi verður erfitt að klæða af sér kuldann sökum rakans í andrúmsloftinu. Ég hefi sjálf sannreynt þetta á þeim árum sem ég var í reglulegum siglingum til Hollands og annarra landa við Norðursjó.

Þegar norðanáhlaup verður í Faxaflóa verður kuldinn bítandi í miðborg Reykjavíkur. Þetta stafar meðal annars og aðallega af því hve stutt er til sjávar sem eykur á rakastigið í miðborginni. Um leið og komið er austar í borgina svo ekki sé talað um Árbæjarhverfi eða Mosfellsbæ verður minna vart við kuldann. Opið síki í Lækjargötunni veldur hærra rakastigi í miðborginni og eykur á kuldatilfinningu fólks og gerir fólki erfiðara um vik að athafna sig í miðborginni, ekki síst fyrir þá sök að í læknum blandast sjór og vatn úr Tjörninni sem koma í veg fyrir að lækinn leggi í frostum þótt Tjörnina leggi iðulega. Þá eykst slysahættan í miðborginni verði síkið ekki rammlega afgirt, ekki síst aðfararnætur laugar- og sunnudaga þegar fólk er að fara yfir brýr á læknum í misjöfnu ásigkomulagi.

Vegna þess sem talið hefur verið upp hér að ofan, leggst ég eindregið gegn því að lækurinn verði opnaður að nýju og mun ekki hika við að mótmæla þessari arfavitlausu hugmynd hvenær sem hana ber á góma!


0 ummæli:







Skrifa ummæli