miðvikudagur, apríl 02, 2014

2. apríl 2014 - Tækifæri fyrir Íslendinga!



Seint átti ég von á því að ég þyrfti að standa upp og verja orð Sigmundar Davíðs enda engin ástæða til. Ég ætla mér heldur ekki að gera það, en ég get ekki annað en undrast orð fjölmargra sem mótmæltu orðum hans á þriðjudagskvöldið er hann talaði um skelfilega framtíðarspá í umhverfismálum jarðarinnar sem tækifæri fyrir Íslendinga. Ég er engan veginn sátt við orð Sigmundar, en því miður endurspegla þau gamalt viðhorf íslensku þjóðarinnar til annarra þjóða og gagnvart sjálfri sér.

Íslenska þjóðin var aumust allra þjóða um aldir þar til fyrri heimsstyrjöldin brast á og Íslendingar hófu að græða á tortímingu og neyð Evrópuþjóða. Nokkuð hlé varð á milli styrjalda en svo hófst græðgin fyrir alvöru. Það voru ófáir sem græddu á Bretavinnunni og útgerðarmenn græddu stórfé á að láta togarana sína sigla til hinna stríðshrjáðu Breta  með aflann, oft með sorglegum afleiðingum fyrir aðstandendur sjómannanna og þjóðin komst endanlega út úr moldarkofunum og velti sér uppúr seðlabúntunum á sama tíma og þjóðir Evrópu liðu alvarlegan skort á öllum nauðsynjum. Eftir stríðið tókst stjórnvöldum að klára allan stríðsgróðann á stuttum tíma, fiskiskipaflotinn var endurnýjaður á örfáum árum og ráðist í framkvæmdir innanlands af slíku tagi sem aldrei hafði sést hér áður.

Fljótlega þvarr milljónirnar og hverjir skyldu hafa notið mestrar velvildar af Marshall aðstoðinni ef miðað er við höfðatölu? Jú, jú, það voru Íslendingar sem höfðu stórgrætt á styrjöldinni sem fengu 43 milljónir dollara í styrki eða óafturkræf lán á þávirði frá Bandaríkjunum á árunum 1948-1951. Hér voru reistar áburðarverksmiðja og sementsverksmiðja og frystihúsin endurbætt fyrir bandarískt gjafafé enda bar þjóðin sig illa eftir styrjöldina. Svo hélt íslenska þjóðin áfram að mjólka Bandaríkin, þá fyrst og fremst bandaríska herinn svo lengi sem hann hafði aðstöðu hér á landi, enda var ekki lengur hægt að græða á dönsku þjóðinni.

Eftir alla þessa gjafagjörninga kemur græðgi íslensku þjóðarinnar ekki á óvart. Hún er ekki bara best í betlinu heldur einnig „stórasta“ land í heimi. Íslenska þjóðin er meira að segja of gáfuð og stolt til að taka þátt í samstarfi þjóðanna enda vitum við allt betur en aðrar þjóðir. Það skal haldið áfram að græða, byggja álver í hverjum firði fyrir alla raforkuna sem framleidd er, en jafnframt skal þessi sama raforka flutt til Evrópu á hæsta verði og fáum dettur í hug að hér sé um sömu raforku að ræða og þá sem sér heimilunum og álverunum fyrir orku. Nú á að setja upp gjaldahlið við sérhvern afleggjara frá þjóðvegunum og innheimta gjald svo hægt sé að ná sem mestu af vesalings túristunum áður en þeir snúa heim aftur uppfullir vonbrigða með gestrisni íslensku þjóðarinnar sem svo mjög hafði verið dásömuð fyrir góða móttöku erlendra ferðamanna.

Eigum við nokkuð að tala um útrásina á fyrsta áratug þessarar nýju aldar?

Æ, stundum skammast ég mín fyrir þjóð mína þar til ég átta mig á að ég á mér griðland í Svíþjóð sem er litlu skárri, þó aðeins skárri en þetta auma fólk sem íslenska þjóðin er. Um leið vil ég taka fram að orð mín eiga ekki við um alla þjóðina, en samt alltof stóran hluta hennar.

Í þessu ljósi skoða ég orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra sem hann lét útúr sér þriðjudaginn 1. apríl 2014. Hann endurspeglaði aðeins þjóðarsálina.

5 ummæli:

  1. Jú, Anna. Svíþjóð er mikið skárri. Ef maður reiknar út plúsa og mínusa þá eru plúsarnir mikið fleiri í Svíþjóð, og mínusarnir mikið fleiri á Íslandi í dag. Kanski ekki fyrir 20 árum síðan. Þannig er mín reynsla í dag.

    SvaraEyða
  2. "Um leið vil ég taka fram að orð mín eiga ekki við um alla þjóðina........"
    Einmitt, og þinn ágæti pistill staðfestir það.

    Takk fyrir.
    Haukur Kristinsson, Hellas

    SvaraEyða
  3. Sorglegt en það er rétt hjá Önnu Sigmundur talar fyrir stóran hlut þjóðarinnar

    SvaraEyða
  4. Frábær pistill.
    Sorglegur sannleikur.

    SvaraEyða
  5. Orð í tíma töluð,fáir þora að tala umbúðarlausr út um allt þetta

    SvaraEyða