sunnudagur, nóvember 09, 2014

9. nóvember 2014 - Megrun!


Þegar fólk kvartar yfir því að það sé orðið of feitt hlæjum við flest. Hvaða rugl er nú hlaupið hana Önnu eða Matthildi. Sérhver manneskja á að vera eins og henni líður best og mér leið best eins og ég var.  Það gekk reyndar ýmislegt á, pilsið sem ég var í á sextugsafmælinu mínu var löngu orðið of lítið og ég átti erfitt með að reima skóna sökum yfirþyngdar en reyndi að hugga mig við að þetta væri allt eðlilegt með tilliti til aldurs og fyrri starfa.

Svo prófaði ég að panta föt frá Kína. Ég fékk pils sent með pósti og þrátt fyrir að stærðin væri merkt sem XXL komst það engan veginn utan um mig og sömu sögu var að segja um kjól sem ég pantaði á sama tíma. Ég fór að lesa stærðarlýsingarnar og þær stóðust mælingar mínar, en hvað var þá að?

Ég var einfaldlega orðin of feit.

Nokkrir góðir félagar mínir höfðu nýlega farið í gegnum stranga megrunaráætlun þar sem þeir tóku út hörðu kolvetnin og allir orðnir grindhoraðir, arkítektinn, vélfræðingurinn og bílaskoðunarmaðurinn.  Úr því þeir gátu þetta gat ég þetta líka og ég hóf megrun, tók út brauðið sem samkvæmt gömlum ráðum átti að eta af sex til átta brauðsneiðar á dag, kartöflur, hrísgrjón og öl. 

Ha öl, nei kemur ekki til mála!

Jæja, ég sló odd af oflæti mínu og fór í ölbindindi auk þess sem ég hætti í samsölubrauðinu, kartöflunum og hrísgrjónunum.  Nokkrum dögum síðar hitti ég góða vinkonu mína sem ég hafði ekki hitt lengi og hún gerði athugasemdir við vaxtarlag mitt, ég yrði að læra að draga inn magann.

Heyrðu góða mín, ég er búin að vera í megrun í heila viku!

Í dag eru komnar tíu vikur frá því ég hóf megrunarkúrinn. Árangurinn er frábær. Það eru farin tíu kíló. Ég kemst í pilsið sem ég pantaði frá Kína og beltið á buxunum þar sem ég var komin í gat númer 2 er nú komið í gat númer 6 af 7 mögulegum og ég sé bara fram á betri daga.

Ég viðurkenni að megrun mín er ekki án fórna. Um daginn var boðið upp á vöfflur með rjóma eftir deildarfund og ég slefaði af löngun, en lét vöfflurnar ekki eftir mér. Fljótlega verður boðið uppá jólahlaðborð og miðað við græðgi mína undanfarin ár hefi ég tekið þá ákvörðun að hvíla mig frá jólahlaðborði þetta árið. Ég ætla mér að vera búin að taka af mér fleiri kíló áður en jólin verða hringd inn.

Pilsið sem ég var í á sextugsafmælinu er að verða of vítt á mig.  Ég held að ég komist í kjólinn um jólin.
 
Næsta sumar verð ég 75 kíló.


0 ummæli:







Skrifa ummæli