laugardagur, nóvember 15, 2014

15. nóvember 2014 - Öskur!




Síðastliðið haust byrjaði einhver auglýsingaherferð á Rás 2 og kannski víðar með því að hópur einstaklinga hóf að öskra. Það var hræðilegt að heyra óhljóðin í vesalings fólkinu og því flýtti ég mér alltaf að lækka í útvarpinu um leið og öskrin byrjuðu. Loksins þögnuðu öskrin og mér skildist að þau hefðu verið fyrirboði einhverrar skelfilegrar kvikmyndahátíðar sem fór alveg framhjá mér enda vart mikils virði ef þarf að öskra til að vekja athygli á hörmunginni.

Nú er ný öskurherferð byrjuð aftur á Rás 2.  Núna er það ekki hópur sem öskrar, heldur einhver vitfirringur sem öskrar á náunga að nafni Gylfi Þór Sigurðsson sem mér skilst að sé í sérlega miklum metum hjá íþróttafréttamönnum. Ekki veit ég af hverju þessi vitfirringur er að öskra á Gylfa sinn enda flýti ég mér alltaf að lækka í útvarpinu í hvert sinn sem hann byrjar og mig langar ekkert til að vita það.  Það getur varla verið mikils virði úr því hann þarf að öskra svona.

Síðast í kvöld er ég hafði stillt á uppáhaldsþáttinn minn á Rás 2, Næturvakt Guðna Más Henningssonar til njóta gamallar og góðrar tónlistar sem hann spilar, gerði hann hlé fyrir auglýsingar og ég þurfti að flýta mér að lækka í viðtækinu til að losna við öskrandi vitfirringinn ákalla Gylfa sinn.

Svei mér þá, ég held ég vilji heldur hlusta á þáttinn hans Péturs á Útvarpi Sögu en þessi öskur á Rás 2! 


0 ummæli:







Skrifa ummæli