Loksins, loksins, loksins.
Í málgagni Ísfélags Vestmannaeyja (Morgunblaðinu) í dag er forsíðufyrirsögn þess efnis að nú
standi til að vinna varma úr „hlýjum“ sjó til notkunar í Vestmannaeyjabæ, en í
blaðinu er tekið fram að varmadælur séu álitlegur kostur í nokkrum bæjum við
sjávarsíðuna. Mikið var að Íslendinga
fyndu loksins upp varmadælur til þess að halda áfram að vera fremstir og bestir
og uppfinningasamastir í heimi í tækniframförum.
Ekki man ég hversu mörg blogg ég hefi skrifað um varmadælur og ætlaðan hagnað
af þeim í þeim byggðarlögum á Íslandi sem ekki búa við hitaveitu, en síðast
nefndi ég þetta í október 2012 þegar mér ofbauð betlihjalið í
sveitastjórnarmönnum á köldum svæðum á landinu.
http://velstyran.blogspot.com/2012/10/6-oktober-2012-fara-kold-svi-halloka.html
Sjálf var ég að vinna í nokkur ár í orkuveri í Stokkhólmi þar sem við höfðum aðgang að tveimur
varmadælum sem voru upphaflega í eigu Järfälla Energi og gáfu af sér 24 MW í
varma hvor en tóku aðeins 9 MW hvor í rafmagni. Þess má geta að á hlýjum
sumardögum dugðu varmadælurnar einar fyrir þessa 200.000 íbúa sem voru tengdir
inn á vestra fjarvarmanetið í Stokkhólmi, Järfälla og Sollentuna, en auk þess
vorum við með rafskautakatla til notkunar á sumrin auk stærri katla sem brenndu
olíu trjákurli og fleiru sem voru notaðir á veturna.
Umræddar varmadælur eru staðsettar í Slammertorp í Järfälla, talsvert undir
yfirborði jarðar og neðanvið mjólkurverksmiðju Arla. Varminn er sóttur í
stöðuvatnið Mälaren og er hægt að dæla vatninu inn á eimarana frá tveimur
mismunandi dýptum, af fjögurra metra dýpi þar sem hitastig vatnsins getur verið
frá frostmarki og upp í 20°C hita eða frá um 20 metra dýpi, en á svo miklu dýpi
er hitastigið ávallt nærri 4°C. Þess má
geta að varmadælurnar hafa verið í notkun frá því 1985.
Það er ekki eftir neinu að bíða og alls ekki þar sem fjarvarmakerfi er þegar
fyrir hendi eins og í Vestmannaeyjum.
Það þarf einungis að ákveða stærð varmadælanna, fyrirkomulag á eimurum
og eimsvölum, fjölda þeirra til að tryggja sem hagkvæmastan rekstur og byrja
svo að vinna!
þriðjudagur, desember 02, 2014
2. desember 2014 - Varmadælur
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 17:51
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli