laugardagur, október 06, 2012

6. október 2012 - Fara köld svæði halloka?

Í Morgunblaðinu á laugardag kvörtuðu nokkrir sveitastjórnarmenn sáran yfir sinnuleysi Steingríms J. Sigfússonar vegna kaldra þéttbýlissvæða á landsbyggðinni. Það hafði verið skipuð nefnd sem var búin að skila af sér og ekkert frumvarp komið fram um hvernig hægt væri að styðja við þessi köldu svæði úti á landi, þá væntanlega með peningum úr tómum ríkiskassa.

Mér finnst þessi umræða merkileg, ekki einungis vegna þess að fulltrúar landsbyggðarinnar hafa hvað eftir annað kvartað yfir því að ekkert gott komi að sunnan, en einnig vegna þess að besta ráðið til að drepa góðar hugmyndir er að setja þær í nefnd.

Sjálf er ég ekki reiðubúin að viðurkenna að um vandamál sé að ræða. Hin svokölluðu köldu svæði hafa nefnilega ýmsa möguleika til að lækka húshitunarkostnað án þess að fara með betlistaf á fund ríkisstjórnarinnar. Einfaldasta leiðin er sú að gera eins og öll hin sveitafélögin sem hafa komið sér upp hitaveitu og það er að leggja hitaveitu í öll hús í þorpinu.

„Helvítis klikkhaus ertu Anna“, kann einhver að segja, „það vantar jarðhitann!“

Svar mitt er einfalt, það vantar engan jarðhita! Öll þessi sveitafélög sem stóðu að kvörtunargrein í Morgunblaðinu eiga land að sjó og þar er nóg til af varma sem þarf einfaldlega að færa úr sjónum og inn í húsin með varmadælum (öfugum kælikerfum) og fá þannig helmingslækkun á húshitunarkostnaði. Ef þeim finnst varmadælurnar og lagnir að þeim of dýrar er hægt að bjóða þeim rafskautakatla sem koma þá í stað borholanna og hita vatn á nóttunni þegar minnst þörf er fyrir rafmagn og rafmagnið þar af leiðandi ódýrast og dæla heita vatninu í hús allan sólarhringinn. Ég viðurkenni alveg að kostnaðurinn verður áfram nokkuð hærri en í Reykjavík þar sem fólk býr ofan á jarðhitageymi, en þetta verður samt verulega ódýrara en að kynda hvert hús fyrir sig með olíu eða rafmagni og tilheyrandi styrkbeiðnum til ríkisins.   

Sjálf var ég að vinna í varmaorkuveri í Stokkhólmi en við höfðum aðgang að tveimur varmadælum sem framleiddu samtals 50 MW af varma, en kostuðum til þess einungis 18 MW af rafmagni. Auk þess vorum við með nokkra rafskautakatla sem við notuðum þegar verðið var lágt á rafmagni.

Kæru sveitastjórnarmenn. Farið að framkvæma í stað þess að væla utan í ríkinu. Þá mun ykkur vel farnast auk þess sem það er í anda þeirrar stefnu sem þið þykist fylgja, þ.e stefnu litlu gulu hænunnar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli