Facebookvinkona mín að
nafni Vigdís Hauksdóttir var með þarfa áminningu til okkar dauðlegra með því að
birta kröfu frá innheimtufyrirtæki einu í Reykjavík sem sent hafði
innheimtubréf til einstaklings sem hafði verið lýstur gjaldþrota og flúinn
land. Ekki ætla ég að tjá mig mikið um gjaldþrot þessa einstaklings né hvaða
úrræði eru í boði enda brestur mig vit til að tjá mig um slík mál. Hinsvegar
rifjaðist upp fyrir mér atvik frá Svíþjóðarárum mínum.
Ég var einhverju sinni á ferðinni hjá Stockholmsmässan í Älvsjö. Er ég
nálgaðist staðinn á bíl svipaðist ég um eftir einhverju skilti sem segði til um
greiðsluskyldu, en sá ekkert. Ég lagði síðan bílnum á risastóru bílastæðinu,
svipaðist um aftur eftir greiðslukassa en sá engan og hélt að því búnu inn í Stockholmsmässan
og var þar næstu tvo tímana. Þegar ég kom út aftur var kominn sektarmiði á
bílinn, krafa upp á heilar 700 sænskar krónur.
Ég fór í fýlu. Þegar ég fer í fýlu verð ég reið og þá verð ég óstöðvandi. Þegar
ég kom heim skrifaði ég bréf til einkafyrirtækisins sem sá um innheimtu
stöðumælasekta og mótmælti sektinni. Það breytti engu og í svarbréfi ítrekaði
fulltrúi fyrirtækisins að ég yrði bara að greiða sektina, annars færi hún í
innheimtu. Ég fékk svo bréf frá innheimtufyrirtækinu sem ítrekaði kröfuna á
hendur mér, annars færi hún í dóm. Ég mótmælti aftur og málið fór í dóm. Sektin
var felld niður með dómi. Í ljós kom að risastórt skilti sem sagði til um
stöðumælagjald hafði verið fjarlægt einhverjum dögum áður vegna endurnýjunar og
hafði ekki verið sett upp aftur er ég lagði bílnum á bílastæðinu.
Nokkrum dögum eftir að mér barst tilkynning um dóminn fékk ég bréf frá
innheimtufyrirtækinu þar sem mér var tilkynnt að ef ég greiddi ekki sektina mætti
ég búast við frekari innheimtuaðgerðum og jafnvel dómi. Ég tók upp símann og
hringdi í innheimtufyrirtækið. Röddin sem svaraði mér virtist tilheyra
einhverjum ungum uppskafningi sem þegar byrjaði að hóta mér í símanum eftir að
ég hafði borið upp erindið.
Ég svaraði með því að tilkynna uppskafningnum að ef ég heyrði nokkru sinni frá
honum aftur hvort heldur væri munnlega eða bréflega myndi ég kæra hann fyrir
fjárkúgun. Síðan hefi ég ekkert frá honum heyrt.
mánudagur, október 29, 2012
29. október 2012 - Stöðumælasektir
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:25
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli