sunnudagur, október 07, 2012

7. október 2012 - Maður með sveðju


Aðfaranótt sunnudagsins sáu einhverjir óknyttastrákar ástæðu til að kasta af sér vatni á svefnherbergisglugga manns sem var sofandi fyrir innan. Sá var ekki kátur með athæfið og réðist að piltunum með sveðju í höndunum án þess þó að meiða þá. Ekki ætla ég að mæla athæfi mannsins bót, né heldur vil ég ég hrósa pissudrengjunum, en er ekki ástæða til að skoða málið betur?

Í miðbæ Reykjavíkur eru fjögur almenningssalerni. Þau eru ákaflega virðuleg, heil hús utan um eina salernisskál og að sjálfsögðu kostar að pissa. Einhverjir strákar á kenderíi þurfa að losa þvag, en þá vill svo til að næsta salerni er upptekið. Hvort er þá leitað að næsta salerni eða einfaldlega pissað á næsta vegg eða glugga þar sem geðvondur sveðjueigandi er sofandi fyrir innan? Strákarnir sem pissuðu vissu auðvitað ekki um sveðjuna og það skapast spenna sem leiðir til lögregluafskipta.

Þetta þurfti ekki að fara svona. Borgaryfirvöld höfðu látið byggja fjögur rándýr hús undir salerni sem einungis er hægt að opna með gullpening, en hefðu kannski átt að reisa aðeins ódýrari búnað fyrir drukkna pilta sem var mál að kasta vatni.



Sjálf lagði ég til við suma borgarfulltrúa fyrir nokkrum árum að Reykjavíkurborg notaði hollensku aðferðina til að losna við þennan ófögnuð en hugmyndinni var hafnað án svara. Hún gekk út á að reisa pissustanda á nokkrum stöðum í miðbænum þar sem allt að fjórir strákar geta pissað samtímis og þvagið fer stystu leið í holræsakerfið. Með þessu móti minnkar álagið á lokuðu salernin og stelpurnar geta átt sín salerni fyrir sig, allavega ef einungis þarf að pissa.

Einfalt og ódýrt!


0 ummæli:







Skrifa ummæli