þriðjudagur, október 16, 2012

16. október 2012 - Landsleikur

Það er landsleikur í gangi, sennilega í fótbolta. Á Facebook logar allt af spennu:

„Áfram Ísland nú ætlum við sko að vinna...............Koma svo !!!!!!!!!!!!!“   „Koma svo Ísland,reyna að standa í maskinunni frá Sviss“ „Sigur væri sko flott hjá ykkur..Áfram Ísland..“  „En hvað það er gott að fótboltaleikur er í vændum. ÁFRAM ÍSLAND! og hana nú :)


Ef ég væri með hljóð á Facebook væri ég sennilega löngu búin að slökkva á því og farin út í göngu.

Ég skal viðurkenna að ég hefi takmarkaðan áhuga fyrir fótbolta, mætti síðast á fótboltaleik í Stokkhólmi fyrir rúmum tveimur áratugum uppfull þjóðrembu þegar eitthvert fótboltalið frá Íslandi hafði unnið Djurgården með tveimur eða þremur mörkum í plús á Íslandi og því ljóst að mikið þyrfti til að Djurgården kæmist áfram í einhverri Evrópukeppni og ég mætti á völlinn ásamt að ég held næstum öllum Íslendingum í Stokkhólmi til að fagna íslenska liðinu halda áfram. Um þúsund manns mættu á Råsunda til að horfa á leikinn, en völlurinn sá átti að geta tekið á móti hátt í 40.000 áhorfendum enda voru Íslendingarnir eins og krækiber í helvíti á vellinum. Svíarnir sátu heima.
Þegar ég mætti á völlinn var rúta með íslensku leikmönnunum að renna í hlað. Ekki man ég eftir neinum þeirra en þarna sá ég Alfreð Þorsteinsson í fyrsta sinn, en hann átti ekki að spila.

Mig minnir að leikurinn hafi farið jafntefli og þar með komst Fram áfram í næstu umferð þar sem þeir töpuðu stórt að ég held. Ég fylgdist ekkert með þeim leikjum enda bjó ég í Stokkhólmi og þar hélt lífið áfram og þjóðremban gleymdist að sinni.

Svo liðu árin og Íslendingar héldu áfram að tapa í fótboltaleikjum og féllu hraðar niður árangurslistann hjá FIFA en Felix Baumgartner þegar hann féll úr geimnum því þótt þeir sigruðu einn og einn leik héldu vonbrigðin áfram og hið einasta sem bjargaði þjóðrembunni var jaðaríþróttin handbolti.

Leikurinn hófst og ég fór út í göngu. Þegar heim var komið stefndi í hefðbundið tap íslenska landsliðsins sem er sennilega ríkisstjórninni að kenna. Raddirnar smálækkuðu á Facebook og í huganum hljómar setningin góða sem Ómar nokkur söng fyrir fáeinum árum:

„Þórólfur, upp með sokkana!!!!“


0 ummæli:







Skrifa ummæli