Það er rétt komið framyfir miðjan október. Samt hafa
jólaauglýsingarnar dunið yfir okkur að undanförnu með tilheyrandi jólastefum,
Jólagestir Björgvins, jólatónleikar
Frostrósa, Jólin allsstaðar og Baggalútur með jólalög. Jólin eru komin í IKEA
og seríurnar eru komnar í Garðheima. Ofan á allt saman keypti ég jólaóróa
ársins í byrjun september.
Það veitir kannski ekki af að byrja nógu snemma að undirbúa jólin. Nógu dýrir
eru miðarnir á alla þessa tónleika þótt vafalaust sé hægt að fá þá á innan við
sjö þúsund stykkið ef setið er aftast á efstu svölum og erfitt að sjá að
venjulegt fólk hafi efni á þeim nokkrum dögum fyrir jól til viðbótar við
jólahlaðborðin, jólaglögg og skötuna á Þorlák.
Þegar fólk er svo búið að steypa sér í skuldafen mepð jólatónleikum,
jólahlaðborði, jólagjöfum og jólaskreytingum koma loks blessuð jólin. Um leið
þagnar jólatónlistin sem hefur verið á fullu frá því um miðjan nóvember og
flugeldar keyptir fyrir síðustu möguleikana á VISA kortinu. Þegar síðustu
blysin hafa farið í loftið verður hamast við að rífa jólaskrautið niður því
ekki má neitt minna á jólin þegar kemur að þorranum. Reikningurinn fyrir
herlegheitin kemur svo í febrúar.
Ég veit ekki hvað ég geri í ár. Ég fer ekki á jólatónleika Baggalúts né á Frostrósir
eða Björgvin. Gæti reyndar átt það til að kíkja við ef Borgardætur halda sína
tónleika fyrir örfáar krónur á Rosenberg. Jólaskrautið fer upp í lok nóvember
og verður tekið niður aftur fyrir þorrann. Jólakortunum fer fækkandi og ég bæti
engum nýjum kortavinum við þetta árið. Til að fyrirbyggja gleymsku er kannski
vissara að ljúka kveðjunum af og óska þessum örfáu blogglesöndum mínum
gleðilegra jóla
sunnudagur, október 21, 2012
21. október 2012 - Bráðum koma blessuð jólin
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 13:44
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli