Ég var að horfa á auglýsingu sem á að hjálpa fólki að
muna pinnnúmerið sitt. Til sögunnar var maður kallaður sem er fæddur sjöunda
dag mánaðarins, á þrjú börn og kvæntist eiginkonunni árið 98. Allt gott og
blessað. En þetta var bara eitt númer.
En nú vandast málið. Ég er nefnilega ekki með eitt fjögurra stafa númer sem ég
þarf að muna. Ég á þrjú bankakort og öll krefjast þau þess að ég muni sitthvert
fjögurra stafa pinnnúmerið. Svo þarf ég að muna fjögurra stafa pinnnúmer í
hvert sinn sem ég millifæri eða greiði úr heimabankanum. Svo verð ég að muna
pinnið til að komast inn á vinnustaðinn á kvöldin eða nóttunni og ég verð að
kunna einhver pinn til að afvirkja innbrotakerfi á mannlausum dælustöðvum sem
ég þarf að heimsækja öðru hverju.
Málinu er ekki lokið. Ég er nefnilega líka í félagsmálum og þarf að muna pinnnúmer
að reikningum félaga sem ég er í trúnaðarstörfum fyrir. Áður en varir er ég
búin að tæma listann af möguleikum og næst þegar ég þarf að slá inn pinnið
þegar posanum er otað að mér verð ég að reyna að muna hvort ég eigi að nota afmælisdag
systur minnar eða húsnúmerið heima hjá ritaranum.
Já, það er svo auðvelt að leggja pinnið á minnið, eða hvað?
sunnudagur, október 21, 2012
21. október 2012 - Leggðu pinnið á minnið
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 20:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli