Senn kemur að valdegi og
nú á að kjósa um hugmyndir að nýrri stjórnarskrá. Sumum finnst sem þessar
einföldu spurningar séu skelfilega flóknar. Ekki mér. Ég bauð mig fram til
stjórnlagaþings á sínum tíma og þótt ég hafi ekki komist inn þar sem ég endaði
í 43. sæti, var ég með hugmyndir um hvernig ný stjórnarskrá ætti að vera þótt
ég hafi ekki verið með allar hugmyndir fastmótaðar.
En lítum á spurningarnar sem lagðar verða fram fyrir þjóðina á laugardag.
1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að
nýrri stjórnarskrá?
Ég er ekki sammála allri vinnu stjórnlagaráðs. Ég hefði viljað sjá mun
róttækari tillögur í mannréttindamálum, t.d. viljað sjá ákvæðið um kynvitund í
mannréttindakaflanum, ákvæði um friðarmál og hlutleysi og mun ákveðnari reglur
um samskipti kóngsa, afsakið forsetans við valdastofnanir ríkisins, Alþingis,
ríkisstjórnar og dómstóla. Það breytir ekki því að ég óttast hvað muni verða ef
þessar tilögur verða felldar því þar með verður komið grænt ljós á áframhald
gömlu stjórnarskrárinnar sem er upphaflega frá 1849 og er í raun ekki annað en
samkomulag um verksvið á milli konungs annars vegar og þings og ríkisstjórnar
hinsvegar og þar með yrðu allar breytingar mun erfiðari eftir þessar kosningar
en áður var.
Því segi ég JÁ við tillögu
stjórnlagaráðs.
2. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í
einkaeign lýstar þjóðareign?
Ég hefði viljað ganga enn lengra en tillagan ber með sér og lýsa ákveðnar
tegundir náttúruauðlinda sem þjóðareign, þar með talinn fiskinn innan fiskveiðilögsögunnar
og vatnið í ánum. Það þarf ekki annað en að horfa á spillinguna í kringum
framsalið á kvótanum sem og einkavæðingu vatnsins í sumum ríkjum til að vilja
ganga mun lengra. Eitt skref í einu er í rétta átt fremur en að ganga enn
frekar í áttina að einkavæðingu þjóðarauðlindanna.
Ég segi JÁ við þessari spurningu.
3. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?
Frá því Ísland byggðist hafa þrjár tegundir trúarbragða verið ríkjandi á
Íslandi, fyrst Ásatrú frá upphafi Íslandsbyggðar til ársins 1000, síðan kaþólsk
kirkja næstu 550 ár og loks hin evangelíska lútherska kirkja síðustu 462 árin.
Baráttan um trúna var um leið barátta um völd, ekki um trúfrelsi eða um trú
fólksins í landinu.
Ég er ekki trúuð, en ég bý við mína barnatrú og er í þjóðkirkjunni. Um leið er
ég mannréttindasinni og þar stangast skoðanir mínar á því þrátt fyrir að hér
ríki trúfrelsi í orði er það takmarkað með ákvæðinu um þjóðkirkju í
stjórnarskránni.
Því segi ég NEI við ákvæðinu um þjóðkirkju í stjórnarskránni.
4. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör til Alþingis heimilað í
meira mæli en nú er?
Núverandi kosningafyrirkomulag er fremur óheppilegt. Við þurfum í reynd að
kjósa tvisvar, fyrst veljum við fólk á lista í prófkjörum eða í flokksvali og
síðan aftur í sjálfum kosningunum. Ég tel því heppilegra að velja fólk á lista
um leið og kosið er.
Ég segi JÁ.
5. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls
staðar af landinu vegi jafnt?
Þær tillögur sem ég hefi séð frá Stjórnlagaráði finnast mér óþarflega flóknar.
Ég vil einfaldar reglur í litlu landi þar sem íbúarnir eru lítið fleiri en í
Malmö í Svíþjóð. Ef það á að deila fólkinu á milli landshluta er eðlilegra að
gera slíkt með hlutfallsskiptingu frambjóðenda á milli gömlu kjördæmanna og þá
í þessu eina Nógu erfitt verður samt að
fylgja kynjajafnrétti svo ekki sé einnig búið til flókið kosningakerfi í
ofanálag. Engu að síður er spurningin einföld.
Ég segi JÁ.
6. Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall
kosningabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?
Ég tel að stórt hlutfall kjósenda eigi að hafa þennan rétt fremur en einhver einn
einstaklingur sem situr á stól forseta. Það er auðvelt að framkvæma slíka
undirskriftasöfnun á þann hátt að líkindi séu á því að réttir aðilar hafi
skrifað undir slíka beiðni og með slíkum
reglum er auðvelt að koma í veg fyrir vafasamar undirskriftasafnanir.
Enn og aftur segi ég JÁ.
Með þessu er ljóst að mín svör verða
JÁ-JÁ-NEI-JÁ-JÁ-JÁ
fimmtudagur, október 18, 2012
18. október 2012 - Mín svör í stjórnlagakosningunum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 19:08
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli