miðvikudagur, október 31, 2012

31. október 2012 - Ekki misnota bílflautuna!

Mbl.is sagði frá handalögmálum tveggja ökumanna í umferðinni í Reykjavík á þriðjudag. Það mætti halda að slíkt væri einsdæmi, en svo er ekki þótt slíkt þyki vafalaust einsdæmi á Íslandi.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/10/31/tveir_okumenn_slogust/

Við lestur fréttarinnar rifjaðist upp fyrir mér er einn vinnufélagi minn í Stokkhólmi í Svíþjóð var á ferðinni í eftirmiðdagsumferðinni. Hann ók fram með bílaröð á vinstri akrein og skaust svo inn á milli bíla rétt áður en þrengdist niður í eina akrein á gatnamótum. Sá sem var næstur fyrir aftan hann þeytti flautuna af miklum ákafa og virtist láta öllum illum látum, en ekki skal ég fullyrða hvort vinnufélaginn hafi svarað með fingrinum. Félaginn hélt áfram, en á næstu gatnamótum á eftir var rautt ljós og ökumaðurinn sem taldi svínað á sér enn næstur fyrir aftan. Á ljósinu kom hann út úr bílnum óð að bíl vinnufélaga míns, reif upp hurðina hjá honum og stakk hann í magann með hníf. Síðan hljóp hann aftur inn í bílinn sinn og ók í burtu.


Særður félagi minn sem var nýlega búinn að fá sér fyrsta gemsann sinn elti hinn og hringdi jafnframt í lögregluna sem náði árásarmanninum en félaginn komst undir læknishendur. Sárið var sem betur fer ekki lífshættulegt og komst hann aftur til vinnu einhverjum vikum síðar. Árásarmaðurinn reyndist vera fertugur karl með tandurhreint sakavottorð og hlaut hann eitt ár á bakvið lás og slá.

Hvað skyldi þetta kenna okkur? Jú, maður á ekki að þeyta bílflautuna að óþörfu.

1 ummæli:

  1. Rifjast upp sagan af manninum hvers bifreið bilaði á miðjum vegi. Ökimaður bílsins fyrir aftan hóf að flauta af miklum móð. Okkar maður sté út og að bílnum fyrir aftan og spurði ökumanninn: Gætir þú komið bílnum mínum í gang? Ég skal flauta fyrir þig á meðan.

    SvaraEyða