Ég tjáði mig á Facebook um að ungur myndarlegur maður og konan hans
hefði gefið mér að éta á jóladag. Þegar
urðu miklar vangaveltur yfir sögninni „að éta“. Á þessu átti ég von því ég er
ekki vön að tala um að fólk éti og finnst jafnvel óþægilegt að tala um að
kettirnir mínir éti þótt mér hafi verið kennt í barnaskóla að menn borða en dýr
éta.
Ástæður þessa orðalags míns á Facebook eiga sér stað í nærri hálfrar aldar skólaminningu
frá þeim tíma er ég settist í landsprófsbekk í þeim fræga gagnfræðaskóla Gaggó
Vest, þ.e. Gagnfræðaskóla Vesturbæjar sem þá var við Vonarstræti í
Reykjavík. Ekki veit ég hvort ákvörðun
mín um að fara í landspróf hafi verið mjög ígrunduð, en allavega var ljóst að
ég mætti mótlæti frá fyrsta degi. Reyndar var það ekki frá nemendum sem urðu
margir ágætir kunningjar mínir á þessum tíma þótt flestir séu mér gleymdir í
dag, fremur frá skólayfirvöldum og kannski var ég verst sjálfri mér.
Það byrjaði strax fyrsta skóladaginn. Við sátum og biðum eftir kennaranum og
Björn Þorsteinsson sagnfræðingur geystist inn í kennslustofuna með sitt
glæsilega, eldrauða og þrútna nef. Það varð skellihlátur í bekknum en fæst
okkar höfðum séð manninn áður og ekki gert okkur í hugarlund hvernig hann leit
út. Ég reyndi að hemja mig þar sem ég sat framarlega í skólastofunni en missti
samt út úr mér eitthvert fliss, enda leit nef mannsins út eins og gervinef.
Þrátt fyrir þetta var ég ein send til skólastjórans fyrir að gera grín að
kennaranum. Ég var ekki sátt við þetta því ég hafði þó reynt að halda aftur af
mér, öfugt við marga aðra nemendur. Skólastjórinn var Óskar Magnússon frá
Tungunesi í Svínavatnshreppi, nokkuð
strangur sem gætti þess að halda nemendunum í hæfilegri fjarlægð og fékk ég
þarna lexíu um hvernig ég ætti ekki að hegða mér í siðaðra manna samfélagi eða
bjó ég kannski í vitlausu hverfi?
Höfðaborgin var enginn draumastaður fyrir verðandi menntafólk. Ég kynntist Birni Þorsteinssyni aðeins síðar í
sambandi við Samtök herstöðvaandstæðinga og urðu það hin ágætustu kynni.
Það liðu ekki margir dagar uns ég lenti aftur hjá skólastjóra.
Náttúrufræðikennarinn hélt heilmikla tölu um hvernig menn éta hitt og þetta.
Orð náttúrufræðikennarans voru í hrópandi ósamræmi við það sem mér hafði verið
kennt í barnaskóla að Brúarlandi og ég missti úr mér að mér hefði verið kennt
að menn borða en dýr éta. Ég var umsvifalaust send til skólastjóra þar sem mér
var gerð grein fyrir því að kennarinn hefur ávallt rétt fyrir sér. Þá kom fyrir
eitt atvik í enskutíma þar sem enskukennarinn lét mig lesa upphátt úr
kennslubókinni texta um dálæti mitt á kjólum. Ég var ekki alveg reiðubúin að
tjá mig neitt um slíkt, var í harðri varnarbaráttu við sjálfa mig og
tilfinningar mínar og byrjaði að roðna og svitna um leið og ég byrjaði að
stauta mig fram úr textanum um það hvað mér þætti gaman að vera í fallegum
kjólum. Að lokum gafst ég upp, neitaði að lesa lengra og var umsvifalaust send
til skólastjóra sem veitti mér ærlegt tiltal.
Ég viðurkenni alveg að ég var ekki alltaf saklaus af prettunum. Jóhann Briem listmálari kenndi okkur
myndlist. Þetta voru tveir samliggjandi tímar í viku sem hófust að þessu sinni
með því að hann teiknaði skemmtilega mynd af ínúíta fyrir framan snjóhús og við
hlið ínúítans teiknaði hann lítinn hund, allt mjög fallegt eins og honum einum
var lagið. Í frímínútunum á milli tímanna notaði ég tækifærið, þurrkaði út
hundinn og teiknaði leikfangabíl í staðinn og band frá honum upp í hendi
ínúítans. Það kostaði ferð til skólastjóra.
Þegar kom að miðsvetrarprófum var ég löngu búin að fá nóg af skólasetunni,
kennurum og skólastjóra og langaði mest til að koma mér í burtu, sem allra
lengst frá þessum skóla. Þetta kom ágætlega fram í einkunnum á prófunum sem
báru það með sér að ekki hefði mikið verið lesið fyrir prófin. Ég mætti þó í
skólann eftir nýár ákveðin í að standa mig betur.
Fáeinum dögum eftir að skólinn hófst að nýju eftir jólafríið vorum við að
þvælast fyrir utan skólann í frímínútum þegar Volkswagen bifreið af þeirri gerð
sem var með eitthvað sem líktist handföngum upp úr stuðurum bílsins kom akandi
Vonarstrætið og upp á gangstéttina við Iðnó, en bílstjórinn fór inn í
leikhúsið. Gullið tækifæri til að gera at í bílstjóranum blasti við og nokkrir
stórir og stæðilegir strákar í fjórða bekk drösluðu bílnum til svo að
framendinn nam við húsið en afturendi bílsins við steinkant fyrir aftan hann.
Sjálf horfði ég á aðfarirnar án þess að aðhafast neitt í málinu, en þótti þetta
spaugilegt. Bíllinn stóð þarna frameftir degi, enda ekki á eins manns færi að
færa hann í burtu, en hann var farinn morguninn eftir þegar ég mætti í skólann.
Eigandi bílsins hafði að auki kvartað yfir þessu til skólastjórans og sá vissi
alveg hver væri sökudólgurinn. Það var því ekki liðið langt á morguninn er ég var
kölluð til skólastjóra og mér hótað öllu illu fyrir skemmdarverkin.
Það er mér enn ráðgáta hvernig skólastjórinn gat fundið það út ég ætti sök á
þessu atviki, jafnlítil og pervisin og ég hafði ávallt verið, hvað þá að ég
gæti alein flutt heilan bíl þversum nærri tvo metra. Ég gafst upp og það leið
ekki á löngu uns ég var komin út á togara.
föstudagur, desember 26, 2014
26. desember 2014 - Um sögnina að éta
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 17:26
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli