sunnudagur, mars 22, 2015

22. mars 2015 - Af landsfundi Samfylkingar.



Mér finnst kominn tími til að byrja að blogga aftur eftir þriggja mánaða hlé.

Ég þarf að skoða stöðu mína innan Samfylkingarinnar.  Ég hefi verið starfandi þar síðan 2006, lengstum léttvæg fundin á sviði stjórnmálanna þótt einhverjir haldi annað og löngum gert lítið, þó að undanskildum árunum frá 2009 til 2011 þegar ég sat í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík.  Þá var það ekki beinlínis hvatning um áframhaldandi starf er nýr formaður Samfylkingarinnar gaf út föstudaginn 1. mars 2013 að ekki væri hægt að koma stjórnarskrárfrumvarpinu í gegnum Alþingi á því þingi sem var að ljúka og bauð þannig þáverandi stjórnarandstöðu sáttarhönd. Um leið hrundi fylgið af Samfylkingunni og hún hefur ekki átt sér viðreisnar von eftir það sem sést á því að tveimur árum eftir kosningarnar 2013 er hún ennþá að hjakka í 15-17% fylgi þrátt fyrir mjög óvinsæla ríkisstjórn. Sjálf hefi ég verið lítt virk í Samfylkingunni síðan þá.

Nýlega var blásið til landsfundar og sem meðlimur í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík fékk ég boð um að sitja landsfundinn sem fulltrúi Reykjavíkurfélagsins enda hefi ég verið greiðandi félagi í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík frá því ég gekk í Samfylkinguna.  Að auki greiddi ég nýlega eitthvert frjálst gjald til flokksins sem nýlega er búið að taka upp. Ég var samt í vafa. Þessa sömu daga og landsfundurinn átti að standa átti ég að vera á næturvakt í vinnunni, gat lent á þyrluæfingu á föstudeginum og þurfti að mæta á aðalfund Samtakanna 78 á laugardeginum sem var skyldumæting fyrir mig sem formann kjörnefndar.  Ég afboðaði mætingu á landsfundinn af þessum ástæðum nokkrum dögum fyrir landsfundinn til Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Það voru kannski mistök, en jafnframt vissi ég sem var að mæting á landsfundi hefur löngum verið mun minni en heimildir standa til þannig að ég reiknaði með að geta hoppað inn ef eitthvað óvænt kæmi uppá.

Kvöldið áður en landsfundurinn hófst kom eitthvað óvænt upp á.  Ég hafði strax samband við fólk innan Samfylkingarinnar og óskaði þess að vera sett inn aftur og var mér tjáð að nóg væri að greiða landsfundargjaldið og mæta svo á landsfundinn. Þetta gerði ég, greiddi gjaldið og mætti svo seinnihluta föstudags á Hótel Sögu. Þar var mér mætt með ítrustu hörku, nánast hroka og neitað um að sitja fundinn sem landsfundarfulltrúi, en þess í stað rétt eyðublað þar sem ég gat sótt um endurgreiðslu á landsfundargjaldi.

Þegar ég gekk út úr Hótel Sögu leið mér eins og pólitískum munaðarleysingja.

Ég hefi ekki tekið ákvörðun um næstu skref í þessum málum, hvort ég eigi að sitja hjá, þegja og vera sæt eða eitthvað annað.  Það er þó ljóst að ekkert hefur breyst hjá Samfylkingunni síðan ég hætti að starfa þar fyrir tveimur árum.  Kannski að gamlir bloggpistlar séu að segja til sín í dag.  Ekki veit ég.
   
http://velstyran.blogspot.com/2013/03/3-mars-2013-skjota-sig-i-fotinn.html

http://velstyran.blogspot.com/2013/03/4-mars-2013-einkennileg-vibrog.html
 

2 ummæli:

  1. Zorglegt.

    Ég er nú maur zem gúterar ávallt ávalur einhverjar meiníngar zem aðrir hafa á pólitík, þó þær rekizt eitthvað á við mínar perzónulega.

    Ég nuddazt frekar frekur í mínum, það er enda meira gaman.

    Znorlákur ven minn kallar þetta lið bara 'Zamfól'.

    Hann er óvitlauz þó ófríður zé...

    SvaraEyða
  2. Uppgjöf er ekki rétta lausnin. Þú ert ekki ein.

    SvaraEyða