laugardagur, mars 28, 2015

28. mars 2015 - Gamlar konur?



Ég man ekki árið en það eru ekki mörg ár síðan systur minni var sagt upp störfum hjá Byr sparisjóði. Hún hafði byrjað störf hjá Sparisjóði Kópavogs á áttunda áratug síðustu aldar og ég held að hún hafi ávallt staðið sig vel. Allavega fékk ég aldrei athugasemdir á störf hennar en var aldrei mikill viðskiptavinur Sparisjóðs Kópavogs en löngum hjá Sparisjóð vélstjóra sem og hjá Sparisjóð Vestmannaeyja á áttunda áratug síðustu aldar. 

Þegar Orkuveitan flutti í nýjar höfuðstöðvar við Bæjarháls 1 2002-2003 fékk Sparisjóður vélstjóra inni í höfuðstöðvunum með afgreiðslu og þangað komu nokkrar stúlkur komnar yfir fimmtugt, semsagt á mínum aldri sem náði fimmtugu árinu fyrr.  Þær voru vanar ýmsum umkvörtunum, kunnu sitt fag og leiðbeindu mér og öðrum eins og stórar systur og gáfu góð ráð. Þegar Sparisjóður vélstjóra breyttist í Byr með sameiningu við Sparisjóð Kópavogs og Sparisjóð Hafnarfjarðar tóku nýir herrar völdin og ákváðu að yngja upp, sögðu upp öllum konum yfir fimmtugt og réðu kornungar stúlkur til starfa sem vissu ekkert í sinn haust og það leið ekki á löngu uns Byr fór á hausinn.  Með þessu ætla ég ekki að mótmæla stúlkunum ungu, þær voru ekki vandamálið heldur starfsmannastefna Byrs sem og stefnan að öðru leyti, en með uppsögnum eldri kvenna hvarf mannauður úr fyrirtækinu.

Systir mín sem hafði starfað hjá Sparisjóð Kópavogs í áratugi var skyndilega orðin verðlaus á markaði þótt hana vantaði tvö ár í sextugt þegar henni var sagt upp störfum.  Hún fékk hvergi vinnu á árum gróðærisins og í dag er hún heima rétt eins og stúlkurnar sem störfuðu hjá afgreiðslu SPV við Bæjarháls. Það breytir ekki þeirri staðreynd að hún er yngri en núverandi ritstjóri Morgunblaðsins sem talinn er ábyrgur fyrir hruninu, fyrst sem alþingismaður og forsætisráðherra og afnam regluverkið og síðan sem Seðlabankastjóri þegar allt fór til fjandans og síðan ritstjóri frá 2009.  Systir mín verður að sætta sig við orðinn hlut og á enga möguleika í lífinu lengur og á þess kost einan að hlakka til þess dags er hún verður löggilt gamalmenni á hausti komanda.

Eldri konur eru ekki vandamál í samfélaginu, þvert á móti, þær eru kostur og þær eru hlunnindi þeim sem á eftir þeim koma. Þær eru fyrirmyndin sem ungar stúlkur verða að hafa. Þær vinna sína vinnu, þurfa ekki að hlaupa heim þegar börnin fá flensu eins og þær sem yngri eru. Ég horfi á móður mína sem fyrirmynd. Hún starfaði á Hrafnistu þegar sú stofnun var ný, síðar við saltfiskverkun Bæjarútgerðar Reykjavíku þar til hún var nærri sjötugu og varð að hætta vegna alvarlegra veikinda.  Hún kvartaði aldrei, stóð sína plikt og gerði betur en ungar stúlkur nútímans.  Við systkinin dáðumst að atorku hennar og reyndum að feta í fótspor hennar eins og systir mín sem var rekin úr starfi þegar stjórnendur ákváðu að yngja upp í Sparisjóðnum.

Sem betur fer er ég í góðu starfi hjá fyrirtæki sem ber virðingu fyrir starfsfólki sínu þótt margir fyrrum starfsmenn séu ósáttir eftir fjöldauppsagnir fyrri ára.

1 ummæli: