Fyrir hartnær fimmtán árum hætti ég að reykja. Í hönd fóru erfiðir mánuðir, en um leið ánægjulegir þar sem ég hafði sagt tóbaksdjöflinum stríð á hendur. Að sex mánuðum liðnum hafði ég losað mig við öll hjálparefni til að venja mig af tóbakinu, nikótínplásturinn, tyggjóið og sogrörið. Ekkert af þessu hefi ég notað síðan og mér leið miklu betur en áður. En það að hætta að reykja hafði einn vondan fylgikvilla í för með sér. Á fyrstu átján mánuðunum eftir að ég hætti að reykja bætti ég á mig 26 kílóum og var nú komin í rúm 93 kg.
Ég tók þessu létt fyrstu árin, hafði þó einhverja tilburði við að reyna að halda í horfinu og hóf að hreyfa mig meira og ganga á fjöll og firnindi en illa gekk að losna við kílóin aftur og ég gekk meira og meira og náði að ganga Fimmvörðuháls og Laugaveg, Selvogsgötu og Síldarbrekkur og nánast öll fjöll í nágrenni Reykjavíkur en lítið breyttist. Ég náði vissulega að komast niður í rúm 80 kg eitt sumarið sem ég gekk sem mest, en um leið og ég settist niður um haustið komu öll kílóin aftur og enn fleiri en fyrr.
Óttinn við sykursýki og annan óþverra fóru að gera vart við sig og um þarsíðustu áramót gaf ég mér þau fyrirheit að ná af mér 15 kílóum fyrir vorið, þ.e. fara úr 95 kg og niður í 80 kg. Þetta tókst mjög vel eða hitt þó heldur því um vorið var ég orðin 97 kg og loforðið löngu farið fyrir bí. Svo skrapp ég á sjóinn og náði af mér 2 kílóum fyrirhafnarlaust enda mikil hlaup upp og niður stiga á nútíma gámaskipi og erfitt að komast alla stigana með öll aukakílóin í farteskinu. Svo átti ég orðið erfitt með að reima skóna sökum mikils framþunga, en verst var þó þegar fólk fór að gera athugasemdir við vaxtarlagið auk þess sem ég var hætt að geta keypt mér falleg föt, fataskápurinn var svartur og mussur í yfirstærð orðnar áberandi og það fór að styttast í árshátíð hjá fyrirtækinu, einungis sex vikur. Ég var löngu búin að kaupa gullfallegan árshátíðarkjól en hann leit hræðilega út er ég var komin í hann enda leit ég út eins og væri ég komin nærri 9 mánuði á leið.
Nokkrir aðilar sem ég þekki höfðu farið í átak, konur og karlar og svo virtist vera sem að allir sem reyndu lágkolvetnakúrinn næðu miklum árangri á stuttum tíma og enginn kvartaði yfir aukaverkunum. Það mætti kannski alveg prófa þessa aðferð fram að árshátíð og ég setti upp exceltöflu og hóf að skrá þyngd og mittismál upp á hvern dag fram að árshátíðinni, ákvað að minnka brauðátið, kartöflurnar og öldrykkjuna.
Þegar ég sté framúr að morgni 1. september 2014 sté ég á viktina og reyndist vera 95,3 kg, þröngt mittismál rétt um 100 cm og þægilegt mittismál 105 cm. Í ísskápnum var til eitthvað af nýju frosnu fransbrauði, pylsur og pylsubrauð og fullt af áleggi og smjöri auk annars matarkyns. Ég fór að borða minna, minnkaði kartöflurnar og brauðið, sneiddi framhjá sælgætishillunum í kjörbúðinni en ávextir, gúrkur og tómatar komu í staðinn. Viku síðar var ég komin niður í 93 kg nánast átakalaust og þetta varð mér hvatning til að halda áfram. Þær fimm vikur sem voru fram að árshátíð fóru fimm kg til viðbótar. Pylsurnar hurfu af matseðlinum og þessar fáu brauðsneiðar sem eftir voru í frystinum voru mér sem hátíðarnammi sem ekki mátti snerta nema á hátíðarstundu.
Þegar kom að árshátíðinni var ég komin niður í 88 kg, þrönga mittismálið komið niður í 94 cm og þægilega mittismálið 98 cm. Það sem betra var, komin í árshátíðarkjólinn var ég einungis eins og komin sex mánuði á leið, vissulega alltof feit ennþá en svo sannarlega á réttri leið og mér sem hvatning um að halda áfram. og ég setti mér markmið, að vera komin niður fyrir 83,3 kg fyrir jól og 75 kg fyrir lok maí.
Nú hljóp í mig einhver spartönsk elja. Kartöflur hurfu gjörsamlega af disknum, brauð sömuleiðis, hrísgrjón og pasta hurfu einnig, en sykurkílóið sem ég átti í skápnum fékk að vera áfram óhreyft og ég hætti að drekka öl nema á hátíðarstundum. Ég stóð mig að því að fá mér ekkert að borða sum kvöld kom kannski glorhungruð heim af dagvakt og lét mér nægja að borða ávexti en sleppa öllu viðbiti og árangurinn lét ekkert á sér standa. Að morgni aðfangadags jóla var ég komin þrjú kíló niður fyrir áætlunina og orðin léttvæg 80,3 kg og þessi tvö kíló sem ég bætti á mig yfir hátíðarnar fóru fljótt og vel af mér á fyrstu dögum janúarmánaðar ársins 2015 enda sparaði ég ekkert við mig í mat og drykk yfir hátíðarnar. Og eitt kíló á viku hélt áfram að fjúka af mér.
Árshátíðarkjóllinn var að verða of stór á mig og ég þurfti að endurnýja fataskápinn að einhverjum hluta. Ég fann nýjan árshátíðarkjól, en ég fór líka í geymsluna og fann talsvert af gömlum fötum sem ég hafði hætt að nota fyrir nærri fimmtán árum sökum þess að ég var orðin of feit. 15. febrúar fékk ég vinkonu mína til að smella af mynd af mér í sömu peysunni og ég var í þegar ég var sem þyngst og munurinn var skelfilegur. Myndirnar setti ég á Facebook og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Ég fékk 1236 læk á þær og á annað hundrað athugasemda. Um morguninn hringdu þrír blaðamenn í mig til að spyrja um árangurinn (ég svaraði einungis þeim fyrsta).
Rúmum tveimur vikum síðar var ég komin niður í lokatakmarkið eða 74,8 kg. Ég ákvað samt að geyma mér árangurinn til 7. mars og tilkynnti þá árangurinn opinberlega á Facebook. Síðan þá hefi ég verið að dunda mér á milli 74 og 76 kg, fór lengst niður í 74,4 kg en hefi vissulega einnig farið í 76, en björninn er unninn. Nú þarf bara að gæta þess að fara ekki upp í þyngd á nýjan leik, enda að koma að páskum og nýjum freistingum og tvö páskaegg þegar fallin fyrir græðgi minni. Ég játa samt að ég er ekki ennþá farin að borða brauð og lítið af kartöflum, en sykurmikil páskaeggin valda mér einungis vanlíðan.
Ég held að þetta verði í lagi svona.
Flott hjá þér
SvaraEyða