þriðjudagur, desember 29, 2015

29. desember 2015 - Dr. Sölvína Konráðs

Ég var að heyra að Dr. Sölvína Konráðs hefði látist á aðfangadag jóla, daginn fyrir 67 ára afmæli sitt, en hún var fædd 25. desember 1948.

Það var haustið 1987 sem ég kynntist Sölvínu. Ég var þá nýlega komin í land eftir að hafa orðið fyrir vinnuslysi um borð í Álafossi, hafði ákveðið að ljúka námi við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð og hafði boðist til að aðstoða við innritun nýnema í námið. Sölvína var þá orðin námsráðgjafi við Menntaskólann við Hamrahlíð, hafði sjálf lokið stúdentsprófi frá öldungadeild MH áður en hún hóf nám í sálfræði. Meðfram störfum sínum sem námsráðgjafi sinnti um leið sálfræðiþjónustu við nemendur og það leið ekki á löngu uns ég bar mín vandamál á borð við hana.

Öfugt við flesta sem ég hafði rætt við áður sýndi hún mér skilning og var til að byrja með ein um slíkt, var ekkert að kveða upp úr með þessa bábilju í mér heldur tók af mér nokkurs konar skýrslu sem hún sendi síðan til Bandaríkjanna þaðan sem svarið kom þess eðlis að ég væri transsexual. Jafnframt kynnti hún sér þennan þátt mannlífsins mjög gaumgæfilega en sendi mig síðan til tveggja geðlækna sem staðfestu fyrir sitt leyti þessa niðurstöðu hennar.

Á þessum tíma var ekkert til í íslensku heilbrigðiskerfi sem bauð upp á einhverskonar stuðning eða úrbætur transfólki til handa. Sölvína hafði samband við heilbrigðisyfirvöld á Norðurlöndunum fyrir mína hönd og niðurstaðan varð sú að ég flutti til Svíþjóðar og lauk þar mínu leiðréttingarferli. Ég hafði reglulega skriflegt samband við Sölvínu meðan á ferlinu stóð í Svíþjóð og hitti hana þá sjaldan ég kom til Íslands.

Eftir að ég flutti heim aftur hitti ég hana sárasjaldan, var í litlu netsambandi við hana og vissi því ekki mikið um stöðu mála. Því kom það mér á óvart að heyra um andlát hennar.

Það má segja að störf Sölvínu höfðu mikil áhrif á líf mitt og óvíst hvernig hefði farið ef hennar hefði ekki notið við. Sömu sögu er að segja um margt transfólk sem leitaði til hennar á síðari stigum og sem hún hjálpaði í gegnum erfiðasta hjallann, kannski erfiðasta hjalla sem nokkur manneskja getur gengið í gegnum. Alltaf var hún tilbúin til að aðstoða okkur.

Með þessum fátæklegu orðum vil ég votta fjölskyldu hennar samúð mína.

laugardagur, desember 26, 2015

26. desember 2015 - Jólahefðir

Alltaf finnst manni jólin vera eins þótt þær taki heilmiklum breytingum í gegnum árin, ekki aðeins með breytingunni frá barni í fullorðinn einstakling heldur einnig á mörgum öðrum sviðum.

Sem barn minnist ég jólanna á sinn hátt, litlujólin í skólanum, jólalögin síðustu dagana fyrir jól með Bing Crosby og Hauki Morthens, gervitréð úr tré skreytt á Þorláksmessu, með 20 ljósa seríu með ljósum sem klemmd voru á jólatréð og voru eftirlíking kerta, pappírsóróar og englahár meðan lesnar voru jólakveðjur fólks sem manni fannst að nennti ekki að senda jólakort, jólakveðjurnar til sjómanna á hafi úti á aðfangadag, útvarpsmessan frá Dómkirkjunni, jólasálmarnir, jólagjafirnar, hryggur eða læri á aðfangadagskvöld og hangikjöt á jóladag, rauð ilmandi epli, bíó á annan dag jóla og enn meiri útvarpskveðjur, nú frá Íslendingum í útlöndum, konfekt og annað sælgæti í miklum mæli. Þá tómleikinn dagana á milli jóla og nýárs áður en næsta hátíð hófst með skrílslátum í miðbænum og flugeldum á miðnætti á gamlárskvöld. Síðan enn meiri tómleiki þótt aðeins slægi á slíkt með álfakóngi og álfadrottningu á Þrettándanum í Mosfellssveitinni.

Svo tóku fullorðinsárin við. Nokkur ár þar sem keypt voru lifandi jólatré með mun fleiri ljósum í ýmsum litum sem kostuðu talsverða vinnu við ryksugun alla daga, mörg jól sem haldin voru á sjó við misjafnar aðstæður, jafnvel mætt heim með jólagjafirnar í febrúar. Ragga Gísla og Dolly Parton tóku við af Hauki og Bing og hamborgarhryggur tók við af lambahryggnum, en hangikjötið hélt sínu og eplin gleymdust. síðar mörg jól erlendis fjarri ættingjunum og oft við vinnu og ekkert var jólatréð og skreytingar allar af skornum skammti. Til að bæta mér upp jólamessuna í Dómkirkjunni er verið var á sjó eignaðist fjölskyldan fyrir löngu jólasálma dómkirkjukórsins á hljómplötu sem ég svo afritaði á kassettu og spilaði um borð ef við vorum fjarri Íslandsströndum.

Í dag er öldin önnur. Tveggja metra gervitréð er sett upp og skreytt með 200 perum í upphafi aðventu. Sömu sögu er að segja um útiskreytingar og jólaóróar frá Georg Jensen hafa tekið við af gömlu pappírsóróunum. Englahárið er gleymt og allskyns virðulegar styttur af íslenskum sem útlendum jólasveinum komnar út um alla íbúð. Klementínur hafa komið í stað eplanna, en malt og appelsín halda enn velli sem og konfektið. Enn eru lesnar jólakveðjur í útvarpinu frá fólki sem nennir ekki að eyða dýrmætum tíma í jólakortaskrif, jólakveðjur til sjómanna á hafi úti heyrast ekki lengur á aðfangadag enda flest eða öll íslensk skip í höfn. Íslendingar erlendis hringja heim í gegnum skype eða með öðrum tölvuforritum Hamborgarhryggurinn er enn á aðfangadagskvöld sem og hangikjöt með uppstúf á jóladag. Borgardætur hafa rutt Röggu Gísla úr vegi og eru í harðri samkeppni við Baggalút, en Dolly heldur enn velli eftir þrjá áratugi og Bing Crosby kominn til baka. Áramótaskaupið er löngu búið að þagga niður í skrílslátum á gamlárskvöld.

Verstu breytingarnar á jólahefðunum finnast mér samt vera jólasálmarnir með messunni í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöld. Stjórnendur útvarpsmessunnar hafa í mörg ár reynt að krydda sálmasönginn með misgóðum trompetleik og í einhver ár dundaði trompetleikarinn sér við einleik á trompet ofan í Heimsumból svo úr varð skelfilegt garg. Núverandi trompetleikarar halda vissulega lagi og prýðilegir hljóðfæraleikarar, en einhvern veginn finnst mér þeir engan veginn passa við jólasálmana og maður óttast alltaf að heyra falska tóna fyrri ára meðan sálmarnir eru leiknir. Þótt vissulega sé gaman að hlusta á góða trompetleikara í jasshljómsveit get ég ekki lengur stungið kassettunni í tækið til að hvíla eyrun við trompetleiknum á tímum spotify og annarrar netmiðlunar á tónlist.

Á jóladagskvöld voru jólatónleikar Sinfóníunnar í sjónvarpinu sem endaði á að barnakór söng Heimsumból ásamt kór Langholtskirkju. Þetta hefði verið mjög fallegur söngur ef stjórnendur þáttarins hefðu ekki fengið sópransöngkonu til að krydda Heimsumból með einsöng sem eyðilagði alveg stemmninguna við hlustun á þennan fallega jólasálm sem sístur allra sálma þarf krydd til að verða fallegastur allra sálma.

fimmtudagur, desember 24, 2015

24. desember 2015 - Jólahugvekja


Ég tók þátt í friðargöngunni á Þorláksmessu að venju. Hefi gert það flest árin eftir að ég flutti heim aftur frá Svíþjóð og einungis sleppt úr þeim árum sem ég hefi verið á vakt. Það er fátt sem hressir betur upp á sálartetrið en fagur sálmasöngur Hamrahlíðarkórsins undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur um leið og gengið er niður Laugaveginn og niður á Austurvöll þar sem flutt er ávarp og endað með því að kórinn syngur Heimsumból. Það er svo skrýtið að um leið og Heimsumból er sungið finn ég fyrir friði jólanna í sálu minni og fyrir bragðið get ég ekki hugsað mér að sleppa friðargöngunni ef mér er þess einhver kostur að mæta.

Þar sem gengið var í rólegheitum niður Laugaveginn fór ég að velta fyrir mér hvort Laugavegur væri ekki að verða rangnefni á þessa gömlu götu sem var lögð seint á nítjándu öld svo auðveldara væri að komast inn að Þvottalaugum í stað þess að klöngrast í gegnum Skuggahverfið, meðfram sjónum og vaða Fúlalæk áður en komið var inn í Laugardal með allan þvottinn á bakinu og síðan til baka sömu leið með hálfblautan og níðþungan, en þveginn þvottinn heim aftur. Væri ekki nær að kalla götuna Puffin Street eða Hotel Street eftir nýmarkaðsvæðingu götunnar í þágu túrismans? Gamla Bakarabrekkan eða Bankastrætið er hvort eð er orðið að einhversskonar Fleece Street eftir að bankarnir hurfu og við tók röð af fataverslunum í þágu túrista. Nú er kominn einhver aragrúi af lundabúðum á Laugaveginn og hótelin spretta upp eins og gorkúlur. Senn hverfur verslunin Vísir og lundabúð tekur við og þá verður verslunin Brynja eins og vin í eyðimörkinni. Ofan á allt vilja hægrisinnaðir alþingismenn ganga enn lengra í þágu túrismans og úthýsa Þjóðskjalasafninu fyrir hótel og verður þess þá skammt að bíða að Héraðsdómur, stjórnarráðið og Arnarhvoll fari sömu leið.

Er ekki kominn tími til að spyrna við fæti?

Ýmislegt fleira fór um huga minn er ég fylgdi friðargöngunni, hitti fjölda ungra og gamalla hernaðarandstæðinga eða eins og Soffía vinkona mín Sigurðardóttir hefur margoft sagt, gamlir kommar halda pólitískt ættarmót tvisvar á ári, við kertafleytinguna við Tjörnina 6 eða 9 ágúst og svo friðargangan á degi heilags Þorláks.

Á degi heilags Gáttaþefs skreytti fyrirtækið Garðlist gullfallegt grenitré sem stendur í garðinum okkar sem eigum hlut í lóðafélaginu. Þrátt fyrir rótgróna óánægju mína með viðskiptaaðferðir umrædds fyrirtækis máttu þeir eiga að þeir stóðu sig með prýði og er almenn ánægja með skreytinguna á trénu. Með þessu og mynd af trénu vil ég óska öllum sem nenna ennþá að lesa bloggið mitt gleðilegra jóla, árs og friðar.  

P.s. Til að sjá myndina í fullri upplausn er bara að klikka á hana.


laugardagur, desember 05, 2015

5. desember 2015 - Gísli Jóhann Viborg Jensson



Við vorum á leið heim í frí með flugi, höfðum verið í siglingum á milli Evrópu og Ameríku án viðkomu á Íslandi og komin þörf fyrir hvíld frá erfiðu skipi sem var einn City-bátanna og bar leiguheitið Laxfoss, Gísli, Atli og ég. Við höfðum farið frá Amsterdam til Glasgow með KLM og biðum nú eftir Flugleiðavél til að koma okkur síðasta spölinn heim. Þar sem við sátum í flugstöðinni í Glasgow hittum við Íslending sem hafði komið með sömu vél og við frá Amsterdam og furðuðum okkur á einkennilegum ferðamáta hans. Af hverju fór hann þessa leið í stað þess að fara heim með Arnarflugsvél sem fór beint til Íslands frá Amsterdam á sama tíma og við? Við höfðum þó afsökun, sem starfsmenn Eimskipafélagsins máttum við ekki fljúga með Arnarflugi á þeim tíma. Þessi maður hafði enga slíka afsökun. Við ræddum aðeins við hann og sögðum honum meðal annars þær gleðifréttir að búið væri að leysa mánaðarverkfall opinberra starfsmanna á Íslandi. Öfugt við þau viðbrögð sem við bjuggumst við virtist maðurinn verða mjög stressaður við þetta. Okkur öllum þóttu viðbrögðin grunsamleg og eftir að hann var farinn frá okkur ræddum við viðbrögð hans aðeins og Gísli sem ávallt var skemmtilega hvatvís tók af skarið og sagði:
„Við hringjum bara heim og látum athuga manninn“
Svo fór hann í næsta símaklefa og hringdi til Íslands. Við flugum svo heim um kvöldið en er við komum inn í gömlu flugstöðina var Brynjólfur Karlsson tollvörður fyrsti maðurinn sem við mættum er inn var komið og heilsaði okkur en þekktum svo fleiri tollverði og starfsmenn frá fíkniefnalögreglunni. Þeir gripu svo hinn grunaða um leið og hann kom inn í flugstöðina og reyndist hann vera með mikið magn fíkniefna meðferðis sem hann hafði ætlað að koma með til landsins í krafti þess að enn væri verkfall hjá Tollgæslunni.

Ekki veit ég hvort símtal Gísla hafi orðið til þess að maðurinn var handtekinn, en við gengum í gegnum tollhliðið án athugasemda undir vökulum augum tollvarða. Hinsvegar voru snör og fumlaus viðbrögð hans dæmigerð fyrir persónuna Gísla Jóhann Viborg Jensson.

Ég kynntist Gísla nokkrum mánuðum áður er við vorum send út til London að sækja skipið City of Hartlepool sem Eimskip hafði tekið á þurrleigu undir heitinu Laxfoss. Hann var góður viðkynnum og þótt við værum andstæðingar í pólitík reyndist hann samt með skemmtilegustu skipsfélögum sem ég hefi siglt með. Ég hafði áður siglt með bræðrum hans á öðrum skipum Eimskipafélagsins, en hann bar af þeim og mörgum öðrum, skarpgreindur og viðræðugóður og ekki var kímnigáfa hans verri er við sigldum saman á erfiðu skipi á erfiðustu siglingaleið í heimi. Alltaf sá hann jákvæðu hlutina í lífinu og hló að erfiðleikunum.

Eftir veruna á Laxfossi urðum við aftur skipsfélagar á Álafossi. Það var svo í mars 1987 er við komum til Hamborgar að Gísli var kallaður í símann. Hálftíma síðar kom hann svo grátandi niður í vélarúm, sagði okkur að yngri dóttir sín hefði dáið þar sem hún var tengd við nýrnavél á Landspítalanum og að hann væri á leið heim með næstu vél. Við sigldum svo saman í nokkra mánuði eftir þetta þar til ég þurfti að yfirgefa skipið vegna slyss um haustið 1987 og hætti til sjós að aðalstarfi.

Ég hitti Gísla sjaldan eftir þetta. Ég flutti til Svíþjóðar en hann hætti til sjós og réði sig til ÍTR. Það var helst að við hittumst þar sem hagsmunir okkar lágu saman en lífeyrissjóður Eimskipafélagsins fór mjög illa út úr hruninu 2008 og hittumst við á fundum vegna þess. Ég vissi því ekkert af veikindum hans fyrr en einn gamall skipsfélagi lét vita af andláti hans, en Gísli Jensson lést á líknardeild daginn fyrir 66 ára afmælið sitt. Útför hans fór fram frá Grafarvogskirkju 4. desember 2015. Hans verður sárt saknað.

Elsa eiginkona hans og Anna María eldri dóttir þeirra sem og barnabörn eiga mína samúð.


fimmtudagur, nóvember 12, 2015

12. nóvember 2015 - Kennitöluflakk


17. janúar 2014 hélt Eimskipafélag Íslands upp á 100 ára afmæli sitt. Var það gert með slíkum sóma að eftir var tekið og sjálf eignaðist ég bókapakka með sögu Eimskipa og skipa þess auk listarverkabókar með hjálp góðrar vinkonu minnar sem þá starfaði hjá félaginu, því sjálf hefi ég ekki verið í föstu starfi hjá félaginu síðan 1989 þótt ég hafi leyst af á skipum félagsins auk Herjólfs öðru hverju í gegnum árin.

Vissulega kvörtuðu margir yfir 100 ára afmælinu, aðallega menn sem aldrei höfðu starfað hjá félaginu. Þetta væri sko ekkert 100 ára afmæli, nær væri að tala um fimm ára afmæli enda félagið búið að skipta um kennitölu og því alls ekki sama félagið og forðum daga. 

Það er vissulega rétt að skipt var um kennitölu, að gróðapungar þeir sem notuðu gott orðspor félagsins til að blóðmjólka félagið komu því nánast á hausinn svo það þurfti að endurreisa það með nýjum kennitölum. Ekki ætla ég að véfengja það, en starfsfólkið hélt áfram að vinna á sama vinnustað undir sama nafni og ekkert breyttist og sömu skipin héldu áfram að sigla undir sömu nöfnum með sömu áhöfnum. Það var bara einhver kennitala sem breyttist. Stærstur hluti starfsfólksins vissi ekki einu um breytinguna á kennitölunni.

Ég er löngu hætt í föstu starfi hjá Eimskipafélaginu þótt ég hafi vissulega leyst af á skipum félagsins á undanförnum árum og líkað vel, enda margir gamlir skipsfélagar enn á skipum félagsins og þetta er nánast eins og ættarmót gamalla skipsfélaga að skreppa túr á skipunum.

Árið 1996 flutti ég til Íslands frá Svíþjóð og hóf störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur. Ég get ekki með nokkru móti munað kennitölu Hitaveitunnar, en hún byrjaði með Laugaveitunni 1930, var formlega stofnuð með Reykjaveitunni 1943 eða síðar, var það kannski formlega 1948?, enda byrjaði ég ekki fyrr en haustið 1996. Ég er enn á sama vinnustað og þó. Samkvæmt kröfum gagnrýnenda Eimskipafélagsins er ég á þriðja vinnustaðnum frá 1996 því ég vinn nú undir þriðju kennitölunni frá því ég byrjaði. Fyrst var það Hitaveita Reykjavíkur, tveimur árum síðar varð það Orkuveita Reykjavíkur og nú heitir vinnustaðurinn minn Veitur ohf. Svo skörp voru skilin á milli Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna ohf, að ég vissi ekki af nýja nafninu fyrr en löngu síðar og enn síðar af nýju kennitölunni. Þó vinn ég enn á sama vinnustað og ég hóf störf haustið 1996, sama fólkið, sömu dælustöðvarnar, sömu borholurnar.

Árið 1989 hætti ég hjá Eimskipafélagi Íslands og flutti til Svíþjóðar og fékk nýja kennitölu. Nokkrum árum síðar breytti ég um kynskráningu í sænskri þjóðskrá og þar með fékk ég enn eina kennitöluna. Síðar flutti ég aftur til Íslands og hóf störf hjá Hitaveitunni og fékk ég aftur gömlu kennitöluna mína.

Ef einhver heldur því fram að ég sé 63 ára, get ég sannað að slíkt sé rangt. Ég fékk nýja kennitölu 24. apríl 1995 svo vitnað sé í fólk sem telur Eimskip vera nýtt félag.



sunnudagur, nóvember 08, 2015

8. nóvember 2015 - Gengið á húsþökum



Fyrir nokkrum árum voru forráðamenn byggingafyrirtækis dæmdir fyrir vítavert kæruleysi eftir að byggingaverkamaður hjá þeim féll niður af stillans í nokkurri hæð og lét lífið. Eftir slysið héldu þeir því fram að ekki væri alltaf hægt að koma í veg fyrir banaslys. Öryggismál voru samt talin vera í lamasessi á vinnustaðum samanber banaslysið.

Ég var að horfa á auglýsingu frá Íbúðalánasjóði þar sem ung stúlka gengur á hælaskóm eftir þakmænum og situr á  þakskeggi tilbúin að hoppa. Ekki veit ég hvað þessar aðfarir eiga að tákna, en þær eru ekki góð auglýsing fyrir íbúðamarkaðinn, kannski er hún að minna okkur á hrunið þegar menn fóru framúr sér og það var hátt fall og dýrt fyrir íslensku þjóðina.

Það er kannski ekki ris og fall byggingariðnaðarins sem er mér efst í huga við að sjá þessa auglýsingu heldur öryggismálin. Það eru mörg dæmi þess að byggingaverkamenn hafi fallið ofan af þaki og mörg eru dauðaslysin í byggingariðnaði á Íslandi sem og annars staðar. Í Danmörku með sinn mikla kaupskipaflota eru banaslys tengd kaupskipum orðin færri en í byggingariðnaði. Ég veit ekki tölurnar hér heima þar sem engin kaupskip eru eftir undir íslenskum fána að frátöldum fáum ferjum og hvalaskoðunarbátum, en ég veit nokkur alvarleg slys í byggingariðnaði hér á landi á undanförnum áratugum.
 
Það hefur mikið átak verið gert til að bæta öryggismálin um borð í skipum og í tengslum við sjómennsku. Talsvert hefur einnig verið gert til að bæta öryggismálin í byggingariðnaði, en hvort það sé nægjanlegt skal ég ekki fullyrða. Það er hinsvegar víða pottur brotinn í þeim efnum hvort sem það er sök verktakans eða verkamannsins. Sjái ég til manna spígsporandi á húsþökum án þess að vera í öryggislínu geri ég miskunnarlaust athugasemdir við slíkt hafi ég tækifæri til slíks, enda á slíkt ekki að þekkjast í nútímasamfélagi þar sem reglan skal vera að allir komist heilir heim að afloknum vinnudegi. Þetta á jafnt við um það sem ber við augu sem og myndir af slíku sem sjást á samfélagsmiðlum. Svo birtir Íbúðalánasjóður auglýsingu þar sem ung stúlka á hælaskóm vappar lausbeisluð um á húsþökum, reynir að halda jafnvægi á húsmæni og situr á ystu nöf.

Með þessum orðum hvet ég Íbúðalánasjóð til þess að draga þessa hræðilegu auglýsingu sína hið snarasta til baka. Hún er Íbúðalánasjóði og framleiðendum auglýsingarinnar til skammar.