sunnudagur, nóvember 08, 2015

8. nóvember 2015 - Gengið á húsþökum



Fyrir nokkrum árum voru forráðamenn byggingafyrirtækis dæmdir fyrir vítavert kæruleysi eftir að byggingaverkamaður hjá þeim féll niður af stillans í nokkurri hæð og lét lífið. Eftir slysið héldu þeir því fram að ekki væri alltaf hægt að koma í veg fyrir banaslys. Öryggismál voru samt talin vera í lamasessi á vinnustaðum samanber banaslysið.

Ég var að horfa á auglýsingu frá Íbúðalánasjóði þar sem ung stúlka gengur á hælaskóm eftir þakmænum og situr á  þakskeggi tilbúin að hoppa. Ekki veit ég hvað þessar aðfarir eiga að tákna, en þær eru ekki góð auglýsing fyrir íbúðamarkaðinn, kannski er hún að minna okkur á hrunið þegar menn fóru framúr sér og það var hátt fall og dýrt fyrir íslensku þjóðina.

Það er kannski ekki ris og fall byggingariðnaðarins sem er mér efst í huga við að sjá þessa auglýsingu heldur öryggismálin. Það eru mörg dæmi þess að byggingaverkamenn hafi fallið ofan af þaki og mörg eru dauðaslysin í byggingariðnaði á Íslandi sem og annars staðar. Í Danmörku með sinn mikla kaupskipaflota eru banaslys tengd kaupskipum orðin færri en í byggingariðnaði. Ég veit ekki tölurnar hér heima þar sem engin kaupskip eru eftir undir íslenskum fána að frátöldum fáum ferjum og hvalaskoðunarbátum, en ég veit nokkur alvarleg slys í byggingariðnaði hér á landi á undanförnum áratugum.
 
Það hefur mikið átak verið gert til að bæta öryggismálin um borð í skipum og í tengslum við sjómennsku. Talsvert hefur einnig verið gert til að bæta öryggismálin í byggingariðnaði, en hvort það sé nægjanlegt skal ég ekki fullyrða. Það er hinsvegar víða pottur brotinn í þeim efnum hvort sem það er sök verktakans eða verkamannsins. Sjái ég til manna spígsporandi á húsþökum án þess að vera í öryggislínu geri ég miskunnarlaust athugasemdir við slíkt hafi ég tækifæri til slíks, enda á slíkt ekki að þekkjast í nútímasamfélagi þar sem reglan skal vera að allir komist heilir heim að afloknum vinnudegi. Þetta á jafnt við um það sem ber við augu sem og myndir af slíku sem sjást á samfélagsmiðlum. Svo birtir Íbúðalánasjóður auglýsingu þar sem ung stúlka á hælaskóm vappar lausbeisluð um á húsþökum, reynir að halda jafnvægi á húsmæni og situr á ystu nöf.

Með þessum orðum hvet ég Íbúðalánasjóð til þess að draga þessa hræðilegu auglýsingu sína hið snarasta til baka. Hún er Íbúðalánasjóði og framleiðendum auglýsingarinnar til skammar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli