föstudagur, apríl 24, 2015

24. apríl 2015 - Ég er tvítug!




Í dag eru liðin tuttugu ár frá þeim degi er ég gekkst undir aðgerð til leiðréttingar á kyni, annar Íslendingurinn sem það gerir samkvæmt opinberum tölum og sá fyrsti sem tjáir sig opinberlega um málið.

Ég ætla ekki að tjá mig mikið um einstöku atriði í tengslum við aðgerðina enda margoft tjáð mig um hana, stundum nánast í smáatriðum þegar eftir því hefur verið leitað.  Ég var búin að berjast fyrir markmiðum mínum í mörg ár og þarna var komið að ákveðnum endapunkti en um leið nýju upphafi, endurfæðingunni.  Að kvöldi 23. apríl 1995  mætti ég á Karólinska sjúkrahúsið í Solna (Stokkhólmi) og var inni um nóttina og síðan flutt niður á aðgerðarstofu í bítið morguninn eftir þar sem aðgerðin var framkvæmd og vissi svo ekkert af mér fyrr en ég vaknaði á uppvakningunni um eftirmiðdaginn sama dag.  Ég lá svo á spítalanum í ellefu daga eftir aðgerðina en var frá vinnu í tvo mánuði á eftir.


Nokkrum mínútum fyrir aðgerðina
Ýmislegt hefur á daga mína drifið á þessum tveimur áratugum sem liðnir eru, bæði gott og slæmt, en spurningunni sem ég fæ oft um hvort ég sjái eftir þessu risastóra skrefi sem ég tók, verð ég enn og aftur að svara neitandi. Þetta er það jákvæðasta sem fyrir mig hefur komið og bjargaði kannski lífi mínu því allt hafði verið á niðurleið hjá mér árin áður en ég fékk samþykki fyrir því að hefja aðgerðarferlið.  Vissulega lauk erfiðleikunum ekki með aðgerðinni, þvert á móti jukust þeir vegna fordóma einstaklinga sem töldu mig betur dauða en lifandi, þar sem örfáir hafa fundið ástæðu til að lumbra á mér eða að niðurlægja mig á annan hátt, en sem betur fer eru þeir margfalt fleiri sem studdu mig og standa enn með mér og öðrum þeim sem ganga í gegnum aðgerðarferli til leiðréttingar.  Því hafa seinni tíma erfiðleikar verið léttvægir í samanburði við nánast ókleyfa erfiðleikana sem blöstu við mér árin áður en Gunnar Hambert prófessor og yfirlæknir við sjúkrahúsið í Uppsölum opnaði dyrnar fyrir mér í Svíþjóð.

Þegar ég hóf að berjast ákvað ég að taka létt á hlutunum, reyna að beita húmornum á vandamálin og hefur það gengið misjafnlega, oft valdið misskilningi og jafnvel vinslitum á Facebook, en síður í raunheimum, þó einhverjum.  Það sem gildir umfram allt er að vera jákvæð.  Nú er ég til dæmis orðin nógu gömul til að mega versla í Ríkinu og kom við í Heiðrúnu í fyrradag og fékk mér nokkrar öldósir til að neyta í tilefni þess að ég er komin með aldur til að drekka áfengi. Af sama toga voru póstkortin sem ég sendi til fjölskyldunnar í tilefni af breytingunni samanber myndina að ofan og að sjálfsögðu textanum sem ég sendi þeim:


fimmtudagur, apríl 23, 2015

23. apríl 2015 - Hitaveitustörf



Það eru komin 25 ár frá því ég hóf fyrst störf við hitaveitu, í upphafi við Orkuveitu Stokkhólms við kraftvärmeverket í Hässelby, síðar hjá Hitaveitu Reykjavíkur, nú Orkuveitu Reykjavíkur.

Þegar ég flutti til Svíþjóðar byrjaði ég starfsferilinn þar hjá Scania-verksmiðjunum, fyrst við tilkeyrslu og prófun 11 lítra dieselvéla í vörubíla, en eftir skamman tíma í stóru verksmiðjunni var mér boðið að vinna við lokafrágang og prófanir á marine og industri mótorverkstæði fyrirtækisins sem staðsett var annars staðar í Södertälje en stóra verksmiðjan.  Ég var ekki mjög hrifin af verksmiðjuvinnunni í stóru verksmiðjunni. Hópsálarlífið fór illa í mig og mér fannst fáránlegt að sjá menn stilla sér upp við stimpilklukkuna löngu áður en þeir þeir máttu stimpla sig út og virtust að auki gera í því að sleppa sem léttast frá vinnunni með sem mestan bónus og komust stundum upp með slíkt, en sem betur fer ekki alltaf eins og þegar gæðaeftirlitið stóð þá að verki og þeir misstu bónusinn um tíma á eftir.  Þá var ástandið mun skárra í Weda þar sem deildin fyrir marine og industri var niðurkomin og miklu þægilegra vinnuumhverfi.  En það var samt eitthvað sem vantaði auk þess sem launin voru lítið hærri en í stóru verksmiðjunni sem þýddi í reynd launalækkun þar sem sú vinna var öll framkvæmd í dagvinnu, en ekki á vöktum.  Annað vandamál var að ég sem nýlega hafi komin frá Íslandi hafði aldrei komist á sænskunámskeið, enda öll slík yfirfull af innflytjendum úr suðri.

Vorið 1990 fékk ég loks boð um að koma í stöðupróf í sænsku svo hægt væri að ákveða hvar ætti að staðsetja mig á væntanlegu sænskunámskeiði. Ég mætti í prófið og niðurstaðan var sú að ég þyrfti ekki að fara á sænskunámskeið.  Þetta varð mér léttir um sinn þótt ég hefði vissulega þurft á námskeiði að halda, en um leið opnaði þessi niðurstaða mér leiðir inn á allan sænska vinnumarkaðinn.

Fáeinum dögum síðar rakst ég á auglýsingu í Platsjournalen þar sem auglýst var eftir vélfræðingum við tvö orkuver í Stokkhólmi, annars vegar Hässelbyverket sem er í útjaðri Stokkhólms í norðvestri, hinsvegar Farstaverket í suðri. Þótt Farstaverket væri öllu nær Södertälje talsvert sunnan Stokkhólms þar sem ég bjó, var ég ekki alveg yfir mig hrifin. Í Farstaverket var sorpi nefnilega breytt í varma og raforku og ég sá fyrir mér í huganum spikfeitar rottur hlaupandi um sílóin og sótti um vinnu í Hässelbyverket og fékk vinnuna.

Ég sagði upp hjá Scania með löglegum fyrirvara og hætti þar 20. apríl.  Þremur dögum síðar, þann 23. apríl 1990 byrjaði ég hjá Stockholm Energi við Hässelbyverket á kvöldvakt. Eftir tvær kvöldvaktir fór ég í sex daga vaktafrí áður en ég fór á næturvaktir og mér fór að líða eins og blómi í eggi.  Launin voru sæmileg og vinnufélagarnir voru þægilegir og vildu allt fyrir mig gera.  Ef ég gerði mistök fékk ég alla þá aðstoð sem ég þurfti og ef ég sagði einhverja vitleysu voru menn ekkert að kippa sér upp við slíkt. Einustu stóru vandamálin voru þau að ég bjó enn í Södertälje og var rúma tvo tíma á leið til vinnu og aðra tvo frá vinnu, það lagaðist þó þegar ég flutti til Jakobsberg um haustið.  Hitt var að vaktformaðurinn var mikill stuðningsmaður fótboltafélagsins Djurgården sem féll fyrir íslenska  fótboltafélaginu Fram um haustið og Christer yrti ekki á mig í viku eftir tapið, kannski vegna þess að ég fagnaði óþarflega mikið á vaktinni.  Er ég þó venjulega ekki meðal stuðningsmanna Fram.

Rúmlega sex árum síðar sagði ég upp störfum hjá Stockholm Energi og flutti til Íslands. Um það má deila hvort þetta hafi verið stærstu mistök lífs míns, en heimþráin hafði orðið örygginu yfirsterkari. Ég átti fjölskyldu og börn á Íslandi, í Svíþjóð átti ég góða vini og þegar ég stóð frammi fyrir valinu, fjölskyldan og Esjan eða öryggið og vinirnir í Svíþjóð, féll ég fyrir Esjunni.

Ég sótti um hjá Hitaveitu Reykjavíkur og eftir nokkurra mánaða bið fékk ég starfið. Um það má deila hvort það hafi verið til góðs eða ills, en þáverandi starfsmannastjóri Hitaveitunnar og síðar Orkuveitunnar, Skúli Waldorff,  var mér betri en enginn og hefi ég rætt það á öðrum vígstöðvum.  Enn er ég að hjá Orkuveitunni, nú eins og síðustu tólf árin í stjórnstöð Orkuveitunnar. Kannski tekst mér að halda út fram að sjötugu eða lengur í vinnu því þrátt fyrir að Orkveita Reykjavíkur sé ekki í fyrsta sæti hjá mér eftir yndislega tíma hjá Orkuveitu Stokkhólms, er gott að vera hjá Orkuveitunni og góðir félagar alltumkring af öllum kynjum. 

Það er samt skemmtilegt að segja frá því að ein erfiðasta nóttin hjá Orkuveitu Stokkhólms var aðfararnótt 23. apríl 1995, nákvæmlega fimm árum eftir að ég hóf þar störf. Þá um nóttina yfirhitnaði múffa í háspennustreng í fjarvarmagöngum hjá Granholmstoppen og orsakaði bruna og rafmagnsleysi í hluta Stokkhólmsborgar. Ég var alla nóttina á þeysingi á milli Akalla og brunastaðar, aðstoða slökkvilið og að setja inn fleiri kerfi sem höfðu leyst út vegna brunans og ég var gjörsamlega búin á sál og líkama er ég komst heim um morguninn eftir mikla vinnu um nóttina.  Ég var enn dauðþreytt um kvöldið er ég hélt á Karólinska sjúkrahúsið í Solna (Stokkhólmi) þar sem ég gekkst undir aðgerð til leiðréttingar á kyni morguninn eftir.

Mynd: Tommy Pedersen


laugardagur, apríl 11, 2015

11. apríl 2015 - Hjásvæfur



Doppa með kettlingana daginn sem þeir fæddust.
Í dag eru komin tíu ár síðan þær komu í heiminn austur í Hveragerði og hafa verið hluti af heimilislífi mínu frá því átta vikum síðar.  Kötturinn Doppa eignaðist fimm kettlinga nokkru eftir að fósturfjölskylda hennar flutti austur fyrir fjall og Doppa kunni að meta nýfengið frelsið, gaut kettlingunum nokkru síðar og það lagðist þegar á mig sú skylda að taka að mér tvo af kettlingunum.  Til að gæta alls jafnvægis valdi ég fress og læðu sem hrædd við hið ókunna hlutu nöfnin Kolbeinn og Tárhildur er þau komu á framtíðarheimili sitt tæpum átta vikum síðar.  Ekki gat ég hugsað mér að kalla minni kisuna Grenjuskjóðu eins og börnin á fæðingarheimilinu kölluðu Tárhildi, en gælunafnið Væla festist þó fljótlega við hana því hún hefur verið kvartsöm með afbrigðum alla tíð.  Í fyrstu heimsókninni til læknis reyndist svo Kolbeinn kapteinn einnig vera læða og fékk því snarlega nafnið Hrafnhildur enda svört eins og nóttin. 

Tárhildur og Hrafnhildur fyrsta daginn á framtíðarheimilinu.
Hrafnhildur og Tárhildur hafa síðan verið stjórnendur heimilisins, ráða hér öllu og stjórna mér með harðri hendi. Tárhildur hefur að auki ákveðið að rúmið mitt sé einnig rúmið hennar þótt þær hafi eigið herbergi sem þær nota sjaldan. Hrafnhildur er hógværari, velur sér svefnstað eftir hentugleikum, en ávallt þar sem er þægilegt að lúra. Þær eru samt skilningsríkar og í þessi fáu skipti sem ég hefi verið lasin hefur ekki liðið á löngu uns tvær kisur hafa skriðið upp í til mín og lagst sínhvoru megin við mig eins og til að halda á mér hita, eða var það til að sýna mér hlýhug? 

Tárhildur að monta sig á svölunum
Báðar hafa kisurnar fengið flugferðir af svölunum en handriðið er í sex metra hæð.  Ég viðurkenni að í öðru tilfellinu var það sennilega mér að kenna því ég hafði verið nýbúin að lakka svalahandriðið um morguninn og svo fór að rigna áður en ég fór á vaktina um kvöldið.  Tárhildur hefur sennilega stokkið upp á blautt handriðið um kvöldið og ekki varað sig á gljáandi lakkinu því er ég kom heim af vaktinni morguninn eftir mátti heyra óhljóðin í henni við garðdyrnar löngu áður en ég kom að húsinu.  Hrafnhildur fékk einnig flugferð af svölunum en ég uppgötvaði það eftir skamma stund og reyndist hún þá óslösuð í garðinum eins og reyndar Tárhildur einnig þegar hún fór fram af.
Hrafnhildur ættfræðispekúlant
Lengi vel var Hrafnhildur dæmigerð útikisa, fór út snemma á morgnanna og kom inn aftur á kvöldin og nægði þá að hrista lyklakippuna og þá flýtti hún sér heim.  Hún átti það til að týnast, lokaðist eitt sinn niðri í þvottahúsi í næsta húsi og eitt sinn lokaðist hún einhversstaðar inni í tvo daga, en skilaði sér svo heim aftur. Þá gerði hún sig svo heimakomna hjá nýfæddum kettlingum í nágrenninu að húsmóðirin á því heimili sá ástæðu til að hringja í mig og biðja mig að sækja kisu.  Hún hætti hinsvegar að stunda útiveru eftir að hún hafði eitt sinn farið út á þrettándanum eftir að hafa verið innilokuð frá því um jól, en vegna veðurs var lítið um flugelda á gamlárskvöld það árið.  Hún fékk taugaáfall er flugeldaskothríðin var í gangi um kvöldið og skilaði sér ekki heim aftur fyrr en um miðja nótt og hefur síðan verið ákaflega vör um sig utandyra. 


Tárhildur

Þær eiga sér óvini. Sá versti heitir Tómas, fannhvítur fress sem býr á jarðhæðinni, duglegur að sleikja sig upp við mig, en vill gera Hrafnhildi eitthvað sem hún vill ekki veita honum. Hún er fyrir bragðið ákaflega vör um sig gagnvart honum en í þeim tilfellum sem báðar kisurnar mínar eru í garðinum kemur Tárhildur systur sinni til varnar og snýst gegn óvininum af hörku og gefur ekkert eftir þótt hún sé hálfu minni en hann.



En nú eru þær orðnar tíu ára sem er nálægt sextugu í kattaárum, hæfilega rosknar og myndu örugglega fá sér sherrý á kvöldin ef slíkt væri í boði.

Hrafnhildur elskaði kristal þegar hún var ung.

þriðjudagur, apríl 07, 2015

7. apríl 2015 – Nýr Samsung


Eins og gefur að skilja er ég ekkert að tjá mig um síma. Þótt ég eigi einn Samsung Trabant held ég að Samsung samsteypan sé færari í öðru en farsímasmíðum.




Það eru ekki nema tíu dagar síðan ég tjáði mig á síðunni um hin nýju gámaskip þar sem hin stærstu eru nú orðin 19.224 gámaeiningar og ný í smíðum. Um helgina birtust fréttir af samningi OOCL í Hong Kong (Orient Overseas Container Lines) við Samsung um smíði á sex risagámaskipum sem á að afhenda fyrir nóvember 2017.

Nú hafa tölurnar verið gefnar upp og eins og á öðrum nýjum risagámaskipum eru lengd og breidd skipanna óbreytt eða tæplega 400 metrar á lengd og tæpir 60 metrar á breidd, en einungis bætt við dýptina og þar með bætt við enn einni gámahæðinni. Með þessu munu nýju skipin geta lestað 21.100 gámaeiningar (1 gámaeining = einn tuttugu feta gámur).

Það fer að verða spurning um hvenær siglingaleiðirnar verða of grunnar fyrir þessi nýju risagámaskip?

Skipasmíðastöðin Samsung Heavy Industries í Suður-Kóreu hefur reyndar smíðað fleiri risafarkosti og nægir þar að benda á gasvinnsluskipið Prelude FLNG sem enn er í smíðum í sömu skipasmíðastöð en það mun vera stærsti farkostur sem nokkru sinni hefur verið smíðaður, 488 metrar á lengd, 74 metrar á breidd og er 600.000 dwt. Það skip mun einnig verða tilbúið árið 2017 og fer þá á gasvinnslusvæðin vestur af Ástralíu og verður staðsett þar til lengri tíma við vinnslu á náttúrugasi.


laugardagur, apríl 04, 2015

4. apríl 2015 - Mosfellskirkja



Um daginn var ég á ferð í bænum og rakst á gamlan æskufélaga úr Mosfellsdalnum og og áttum við gott samtal saman. Bjarki Bjarnason bókmenntafræðingur og prestssonur frá Mosfelli er litlu yngri en ég, en Þórunn heitin systir hans var bekkjarsystir mín í barnaskóla að Brúarlandi og síðar í Varmárskóla.  Bjarki benti mér á að nú um páskana væri komin hálf öld frá því Mosfellskirkja hin nýja var vígð og skömmu síðar voru fyrstu fjögur börnin fermd í kirkjunni, öll jafnaldrar mínir og fyrrum bekkjarfélagar.  Fimmta bekkjarsystkinið úr Mosfellsdalnum, dóttir Nóbelsskáldsins var ekki fermd í Mosfellskirkju enda alin upp að kaþólskum sið. Sjálf hafði ég yfirgefið Mosfellssveitina nokkru áður og fermst haustið 1964 í Laugarneskirkju í Reykjavík.

Mosfellskirkja er ákaflega merkileg kirkja með mikla sögu þótt ekki sé hún gömul á mælikvarða kirkna. Hún er eiginlega reist utan um gamla kirkjuklukku, klukkuna sem var í gömlu Mosfellskirkju en sem var rifin á nítjándu öld og efniviðurinn notaður á öðrum vettvangi, en það tókst að bjarga klukkunni og eru til sögur af því er hún var falin í fjóshaugnum á Hrísbrú svo ekki yrði hún brædd niður til annarra nota.  Skemmtilegustu frásögnina af þessu er að finna í uppáhaldsbókinni minni, Innansveitarkróniku Halldórs Laxness en þar segir frá Stefáni Þorlákssyni (1895-1959) hreppstjóra í Mosfellssveit ásamt Guðrúnu vinnukonu að Hrísbrú og fleiri góðum manneskjum.  Þótt ég hafi einungis dvalið í Mosfellsdalnum í innan við fimm ár, eða frá sjö til tólf ára aldurs hefi ég ávallt litið á Mosfellssveitina sem mínar æskustöðvar í „harðri samkeppni“ við hinn vígða prest sveitarinnar Bjarna Sigurðsson, föður áðurnefndra Bjarka og Þórunnar og þriggja systkina þeirra.

Ég get ekki sagt að kynni mín og Stefáns Þorlákssonar hreppstjóra í Reykjadal hafi verið mikil, en mætti þessum svipmikla manni stöku sinnum þessa fáu mánuði sem hann átti eftir ólifaða eftir að ég kom í Mosfellsdalinn í apríl 1959 en það var ljóst að allir sem til hans þekktu, báru mikla virðingu fyrir honum.  Í samræmi við erfðaskrá Stefáns var í framhaldinu hafist handa við kirkjubyggingu að Mosfelli og var ný kirkja vígð þann 4. apríl 1965 og tvö börn skírð sama dag, en nokkru síðar gengu fyrstu fermingarbörnin til altaris.

Mosfellskirkja fékk svo nýjan kirkjugarð þegar kom að þúsaldamótum, en fyrstur manna sem borinn var til grafar þar eftir vígslu garðsins var vinur minn Andrés Ólafsson (1938-1999) garðyrkjubóndi að Laugabóli í Mosfellsdal, en hann fæddist, lifði og dó í dalnum góða.  Það var vissulega ekki eftirsóknarvert fyrir ungan mann eins og Adda að verða fyrstur til grafar, en enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Sjálf get ég vel hugsað mér að aska mín verði lögð til hinstu hvílu í kirkjugarðinum að Mosfelli eftir minn dag, en það er vonandi langur tími til síðasta dags hvað mig snertir.

Með þessu hvet ég alla til að lesa Innansveitarkróniku sem upphaflega var gefin út 1970 í minningu manns sem trúði varlega á almættið, en ánafnaði kirkjunni öllu sínu eftir sinn dag.