föstudagur, desember 23, 2016

23. desember 2016 - Jólatré



Ég fór að velta fyrir mér af hverju svo margt fólk setur upp jólatréð á Þorláksmessu. Þegar ég var að alast upp var jólatréð skreytt á Þorláksmessu. Þetta var fyrir daga skötuhlaðborða og það var einungis ein útvarpsstöð sem sendi út kveðjur til fólks í landi á Þorláksmessukvöld, en sjómenn fengu sínar kveðjur eftir hádegi á aðfangadag jóla og kveðjur frá Íslendingum erlendis voru fluttar í útvarpi á annan dag jóla. Svo datt pabbi í það eftir að hafa skreytt jólatréð og þar með lauk jólagleðinni, stundum, þó ekki alltaf.

Sjálf var ég ekki með jólatré í mörg ár eftir að ég skildi við þáverandi maka fyrir meira en þremur áratugum. Er ég flutti í núverandi íbúð fyrir tólf árum síðan kom ég við í Garðheimum og keypti stórt og mikið gervitré og setti upp og skreytti snemma á aðventunni. Það fékk að vera uppi fram í miðjan janúar, eða framyfir sænsku jólalokahátíðina Tjugondedag Knut, þ.e. 13. Janúar. Síðan þá hefi ég haldið þessum sið, að skreyta jólatréð í byrjun aðventu og framyfir miðjan janúar. Sama saga gildir um önnur jólaljós, svalalýsingar og þess háttar. Byrja að fækka þeim um miðjan janúar.

Af hverju ekki?

Hér á ég alla jólaóróana frá Georg Jensen. Af hverju má ekki láta þá njóta sín tvo mánuði ársins í stað þrettán daga? Sömu sögu er að segja um neyðarjólasveinana, þ.e. neyðarkalla björgunarsveitanna sem fá að hanga á heimilinu jafnlengi.

Í svartasta skammdeginu er jólalýsingin nauðsynleg. Af hverju ekki að reyna að njóta hennar eins og kostur er?

sunnudagur, nóvember 13, 2016

13. nóvember 2016 - Um björgunarskip



Ég er ekki sátt.

Það eru að verða fjögur ár síðan ég bauðst til að fara á þyrluæfingu með Slysavarnaskóla sjómanna sem vélstjóri á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni. Viku síðar þurfti ég að fara aftur og þá ein vélstjóri þar sem sá sem hafði farið með vikuna á undan var upptekinn. Sú ferð var ekkert verri og og ég hefi farið margar ferðirnar eftir það, ekki aðeins á æfingar með Slysavarnaskólanum, en einnig á aðrar æfingar, útköll á sjó, verkefni á hafi úti, aðstoð við báta. Meira að segja farið langleiðina til Grænlands á þessum ræfilslega bát og langt út fyrir það svæði sem okkur er ætlað, allt fyrir málstaðinn.

Á æfingum með Slysavarnaskóla sjómanna hefi ég tekið virkan þátt í þjálfun íslenskra sjómanna við raunaðstæður, hent þeim í sjóinn við misjafnar aðstæður með bros á vör og tekið á móti þeim þar sem flestir þeirra koma til baka með bros á vör eftir að hafa fengið ómetanlega reynslu af sjóbjörgun sem fylgir þeim til framtíðar í störfum þeirra til sjós.

Auk þess að vera vélstjóri á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni hefi ég einnig tekið þátt í fjáröflun fyrir björgunarsveitina Ársæl og Slysavarnafélagið Landsbjörgu, selt flugelda og neyðarkalla og gengið vel. Allt hefur þetta verið gert í sjálfboðavinnu og ég hefi notið þess að gera gagn, farið í eitt og eitt útkall á minni bátum, en ávallt neitað öllum útköllum til fjalla, læt yngra fólkinu um slíkt.

En nú er ástandið orðið slíkt að ég veit ekki hvort ég geti tekið þátt öllu lengur í sjóbjörgunarstarfi og þyrluæfingum. Fyrir alllöngu var okkur tilkynnt að búið væri að segja björgunarsveitinni Ársæli upp sjóbúðinni, bátaskýlinu í gamla Slysavarnarfélagshúsinu að Grandagarði 14. Þar hékk lengi björgunarskip í davíðum en þegar bátakostur var endurnýjaður var skýlinu lokað og útbúin flotbryggja neðan við húsið sem síðan hefur verið aðsetur björgunarskipa Slysavarnarfélagsins og síðar Landsbjargar. Við höfum fengið að halda skýlinu sem sjóbúð, en eftir að húsið var selt einkaaðilum sitjum við upp með ótryggan leigusamning og nú hefur okkur verið sagt upp húsnæðinu og eigum að yfirgefa húsnæðið um áramót.

Einhverjar þreifingar hafa átt sér stað milli björgunarsveitarinnar Ársæls og Faxaflóahafna og Faxaflóahafnir hafa boðið okkur afnot af timburskúr sem er áfastur við vigtarhús við Grandagarð 12. Skúrinn er hinsvegar aðeins 10-12 fermetrar, rétt nægilega stór fyrir geymslu sjógalla og lítið meira, ekkert salerni, engin aðstaða til að skola galla, til geymslu hlífðarfatnaðar eða varahluta. Engin bílastæði sem þarf að nota við útköll. Þetta er engan veginn ásættanlegt fyrir sjóbjörgunarsveit. Sum okkar höfum lagt fram hugmyndir  um flutning sjóbjörgunarsveitarinnar inn að Skarfabakka hjá Viðeyjarferjunni en slíkt má stjórn félagsins ekki heyra nefnt, það þarf að sameina starf félagsins, ekki sundra. Ég skil það þótt ég sé ósammála.

Ég er að verða 65 ára gömul og þvagblaðran farin að segja til sín. Ég þarf að komast á salerni mun oftar en áður var. Slíkt fylgir aldrinum og kuldi eykur á vandræðin.

Það er stöðugt verið að bæta við bátum í ferðaþjónustu. Hvalaskoðun, lundaskoðun. Viðeyjarferðir. Ef eitthvað gerist í framtíðinni, verður skip tilbúið til að sinna skyndiútköllum til aðstoðar við þessa báta?
Ég er ekki sátt.


Mig langar til að geta haldið sjálfboðastarfinu áfram, en ég er ekki viss um að ég geti tekið þátt í starfinu eftir áramótin. Svo virðist sem að græðgisvæðing ferðamennskunnar sé að koma í veg fyrir að ég geti tekið þátt í starfi björgunarsveitarinnar Ársæls í framtíðinni sem vélstjóri á björgunarskipinu Ásgrími S. Björnssyni. Ég á mér þó enn þá von að Landhelgisgæslan og aðrir stuðningsaðilar finni lausn sem allir geta sætt sig við. Annars er ég hætt og finn mér önnur áhugamál.

Uppfært klukkan 17.00
Búið að fresta uppsögn okkar frá sjóbúðinni um einhverja mánuði.

laugardagur, október 08, 2016

8. október 2016 - Handlang



Ég var að horfa út um glugga heima hjá mér í morgun og sá hvar fólk var að bera búslóðina sína í flutningabíl fyrir utan eitt húsið nærri mér. Það er að sjálfsögðu alveg ótækt að fólk vilji yfirgefa mig og þægilega nærveru mína sem nágranna, en þar sem viðkomandi tilheyrðu öðru lóðarfélagi en mínu gat ég ekki annað en óskað þeim velfarnaðar á ókunnum slóðum í huganum.

Það var þó annað mér þótti ótækt. Fyrst sá ég mann bera kassa út í bíl og hljóp svo inn og svo kom annar maður með kassa í bílinn og hljóp svo inn og svo kom þriðji maðurinn með kassa og hljóp svo inn og svo kom fjórði maðurinn með kassa og hljóp svo inn og svo kom fyrsti maðurinn með kassa og hljóp svo inn og svo áfram koll af kolli. Skelfing eru þetta kjánaleg vinnubrögð hugsaði ég og hló í huganum að óþarfa erfiði mannanna,en rifjaði svo upp í huganum er ég flutti hingað og sömu vinnubrögð voru viðhöfð. Af gömlum vana ætlaði ég að notast við handlang en enginn tók mark á slíku og enginn tók við og ég þurfti að hlaupa með sérhvern kassa alla leið sem og þeir sem aðstoðuðu mig við flutninginn gerðu hið sama, hlupu með sérhvern kassa upp um tvær hæðir og síðan niður aftur eftir næsta kassa og báru upp tvær hæðir. Þegar allir kassarnir voru komnir ásamt öllum húsgögnum voru allir burðarmennirnir uppgefnir af þreytu. Þvílíkur kjánaskapur, en ég hafði að einu leyti afsökun, var illa haldin af flensu á flutningadeginum og því ekki hörð á skipulaginu og lét öðrum um að skipuleggja vinnuna

Hvenær lagðist handlang af á Íslandi? Í minningunni var ávallt notast við handlang þegar fleiri manns voru til staðar við flutninga, sá sem neðstur var rétti þeim sem var fyrir ofan kassann og svo koll af kolli uns kassinn var kominn á sinn stað og þá var næsti kassi kominn langleiðina upp og fólkið þurfti ekki að hlaupa fleiri hæðir í tilgangsleysi til að sækja kassa sem voru úti í bíl, heldur létu manninn fyrir neðan rétta sér kassann og komu honum áfram til mannsins sem beið fyrir ofan.

Er þetta kannski enn eitt dæmið um að Íslendingar eru hættir að kunna að vinna skipulega? Er nema von að illa er komið fyrir þessari þjóð þegar einfaldasta flutningatækni er orðin óþekkt fyrirbæri og kjánaskapur.

föstudagur, ágúst 12, 2016

12. ágúst 2016 - Um loftskeytamenn og sendisveina



Ég man þá tíð þegar ekkert fyriræki þóttist fyrirtæki með öðrum fyrirtækjum nema að sendisveinn á unglingsaldri á reiðhjóli sæi um ýmis léttari aðföng,  sá um að skreppa í bankann og jafnvel að sækja pantaða nælonsokka fyrir skrifstofustúlkurnar sem þurftu að vera huggulegar til fara í vinnunni en máttu ekki yfirgefa vinnustaðinn fyrir slíkan munað.

Ég man einnig þá tíð þegar ekkert skip þóttist skip með skipum nema að loftskeytamaður væri um borð. Hann hamaðist á morselyklinum daginn út og daginn inn og taka á móti skeytum og sinna nauðsynlegum símtölum áhafnarmeðlima við land sem og að gefa upp aflatölur til annarra togara eða skrá veðurlýsingar á Ameríkuskipum og senda í land.

Hvað eiga þessar tvær stéttir sameiginlegt? Jú svarið er einfalt, það er nánast búið að útrýma þeim. Síðasti loftskeytamaðurinn sem ég var með til sjós var hann Andrés sem kom um borð í hann Álafoss eftir að skipið var lengt árið 1985 og fór þar með yfir þau stærðarmörk þar sem ekki var krafist loftskeytamanns. Það má svo deila um það af hverju mestur hluti af lestarrými skipsins var skráður sem opið rými til að minnka brúttórúmlestatölu skipsins. Síðar var svo loftskeytamaðurinn endanlega afskráður og þekkist vart lengur á öðrum skipum en stærstu skemmtiferðaskipum.

Sendisveinninn fékk álíka útreið. Þegar ég byrjaði hjá Hitaveitunni fyrir tveimur áratugum var Elli sendill. Öfugt við sendla fyrri tíma var hann á bíl og að nálgast eftirlaunaaldur og hann sá um aðföng og bankaerindi og ýmislegt annað sem sendlum er uppálagt að gera. Um svipað leyti og Orkuveitan flutti á Bæjarhálsinn komst Ellert á aldur og enginn ráðinn í hans stað. Tölvutæknin hafði gert hann óþarfan að mestu.

Ég rifja upp tímann þegar ég var sendill hjá Ræsi hf frá tólf ára og til fjórtán ára aldurs þegar öll almennileg fyrirtæki voru með sendla á reiðhjóli, hálfan daginn á veturna, allan daginn á sumrin og í skólaleyfum. Einhverntímann ca 1965 taldist mér til að ég væri með tvær milljónir króna í reiðufé í hliðartöskunni minni, einkennistösku sendisveinsins og það voru nokkur bílverð þess tíma geymd í töskunni góðu, kannski verð 15-20 Volkswagen bifreiða sem þá kostuðu rúmlega 100 þúsund krónur stykkið. Það þurfti að tæma pósthólfið á pósthúsinu daglega, fara með bréf í póst og afgreiða póstkröfur og aðrar póstsendingar og allt gert af reiðhjóli. Ég sé í anda fólk senda tólf til þrettán  ára barn í bankann með margar milljónir í töskunni í dag. Gleymdu því! Eða þegar setið var fyrir bankastjóranum fyrir hönd forstjórans. Þetta var samt góður tími og ég sakna hans að vissu leyti.

Öll þessi ævintýri æskunnar rifjuðust upp fyrir mér þegar ég var á vaktinni og þurfti nauðsynlega að skreppa út í bæ með nauðsynleg skjöl vegna bílasölu og enginn til að leysa mig af þar sem ég má ekki yfirgefa vinnustaðinn á vaktinni. Sem betur fer bjargaði deildarstjórinn mér með því að hann þurfti að fá sér göngutúr í hádeginu og tók skjölin með sér til Frumherja og lét skrá þau. Ég er honum þakklát fyrir greiðann en samt saknaði ég sendisveinsins góða sem var í öllum stærri fyrirtækjum á árum áður.

Heimur versnandi fer, eða hvað?
Eru fleiri stéttir sem fólk man að búið er að útrýma?

mánudagur, ágúst 01, 2016

1. ágúst 2016 - Takk Ólafur Ragnar Grímsson


Já, takk Ólafur Ragnar Grímsson fyrir þín tuttugu ár á forsetastól. Við hittumst einungis einu sinni, þá við jarðarför náins frænda þíns Ólafs Þórðar Friðrikssonar Hjartar bókasafnsfræðings og góðs vinar míns. Við vorum sjaldnast sammála þótt við værum lengi í sama flokki. Þegar þú varst kosinn formaður Alþýðubandalagsins kaus ég að draga mig í hlé og hætti störfum fyrir þann ágæta flokk.

Síðar flutti ég til Svíþjóðar og sinnti ekki borgaralegum skyldum mínum við Ísland í nokkur ár, en þegar ég kom til baka varstu í framboði til forseta Íslands. Þú fékkst ekki mitt atkvæði en vannst samt. Ég varð að sætta mig við úrslitin og reyndi að sættast við þig eftir það. Það var ekki alltaf auðvelt, en andstaða sameiginlegs andstæðings okkar sem sat á stól forsætisráðherra á þeim tíma hjálpaði mér til að sætta mig við þig á þessum mikilvæga forsetastól. Það var samt ekki auðvelt að sjá Framsóknarmann undir fölsku flaggi á forsetastól.

Ég var samt ekki alltaf ósammála þér. Ég neyddist til að greiða þér atkvæði mitt árið 2004, skömmu eftir að þú neitaðir fjölmiðlalögunum staðfestingar, ekki vegna þess að ég væri hrifin af frumkvæði þínu, heldur því að þú varst að berjast við óhæfa mótframbjóðendur og þar sem ég sat í kjörstjórn átti ég erfitt með hægrisinnuðu kjósendurna sem hötuðu þig eins og pestina, en urðu síðar þinn besti stuðningur.

Síðar gerðir þú þér dælt við útrásarræningja, ekki aðeins rússneska oligarka heldur og íslenska glæpamenn sem sumir hafa fengið sína dóma en alls ekki allir sem settu Ísland á hausinn.

Svo kom hrunið og Icesave og allur sá pakki. Þú samþykktir fyrstu Icesave lögin. Það var ekki mikil skynsemi í því, en Bretar og Hollendingar höfnuðu samkomulaginu og því komst sá samningur aldrei í framkvæmd. Svo komu Icesave 2 og Icesave 3 sem þú hafnaðir hvorutveggja. Var það vel? Það lítur vel út á pappírunum en hvernig kemur það út fyrir okkur vesalingana sem skuldum lán í bönkum.  Við erum enn að borga himinháa grunnvexti af húsnæðislánunum okkar auk verðtryggingarinnar. Er það kannski afleiðing af því að þú neitaðir að undirrita lögin sem þjóðin síðan hafnaði í atkvæðagreiðslu? Ég veit ekki en það veit ég að ég er að greiða himinháa vexti af húsnæðisláninu mínu auk verðtryggingar. Hið einasta sem ég get þakkað fyrir er að ég gætti þess að reisa mér ekki hurðarás um öxl á sínum tíma og því komst ég yfir þetta. En ég spyr, eiga okurvextirnir sem ég greiði af húsnæðisláninu mínu orsök í höfnun á þriðja og síðasta Icesave saminingnum?

Nú ert þú búinn að kveðja okkur með drottningarviðtali þar sem þú hældir sjálfum þér út í eitt. Um leið og þú ferð á eftirlaun mun Guðni Thorlacius Jóhannesson taka við keflinu. Ég fagna honum í embætti forseta Íslands um leið og ég kveð þig af forsetastóli.

Ég er kannski ekki alveg laus við þig. Mér þykir pínulítið vænt um þig eftir öll þessi ár og ekki er síðra að vita að það eru einungis 60 metrar frá borholu MG-6 að húsinu þínu í Mosfellsbæ og því möguleiki á því að við munum eiga samskipti í framtíðinni í gegnum vinnuna mína.

Takk Ólafur Ragnar Grímsson fyrir störf þín á forsetastóli í tvo áratugi, góð og kannski slæm, um leið og ég fagna nýjum forseta Íslands, Guðna Thorlacius Jóhannessyni.