Ég átti það til í eina tíð að kaupa mér ýsu í raspi úti í búð. Þetta voru svona fjögur ýsustykki í raspi í bláum bökkum sem seld voru í Krónunni og Bónus og víðar. Þetta var fljóteldað, brugðið á pönnuna og tilbúið á augabragði og það fór ekkert á milli mála að þetta var ýsa í raspi eins og maður vill hafa hana og því bjargaði ég stundum matseldinni á þennan einfalda hátt. Eitt sinn er ég keypti svona tilbúna ýsubita í raspi var allt annað bragð af ýsunni. Bragðið minnti helst á karfa og ef ýsan bragðast eins og karfi, þá er það karfi. Ég var ekki ánægð, frysti það sem ég hafði ekki þegar eldað til athugunar síðar og viku síðar keypti ég aftur „ýsu“ í raspi og aftur var sama óbragðið af „ýsunni“. Í millitíðinni sagði ein vinkona mín frá því að hún hefði fengið karfa sem sagður var ýsa í raspi í Nettó, einnig í svona bláum bökkum.
Ég spurðist fyrir um rannsóknir á fiski, bæði við Matís og Matvælastofnun, en hvorug stofnunin virtist hafa áhuga á að kanna raunveruleikann á svindli fyrir einhvern vesaling úti í bæ og ekki er ég meðlimur í Neytendasamtökunum og hafði því ekki samband við þau, lét mér nægja að kvarta við verslunarstjórann í Krónunni þar sem ég hafði keypt „ýsuna“. Eftir einhverja mánuði henti ég frosnum fiskstykkjunum við tiltekt í frystinum hjá mér, en hefi ekki keypt aftur „ýsu“ í raspi í bláum bökkum.
Í morgun var sagt frá því í útvarpinu að gerð hefði verið könnun meðal veitingastaða. Þar var hlýri orðinn að steinbít, keila að skötusel og ódýrar tegundir af túnfisk orðnar að dýrustu gerðinni. Þetta kom mér ekkert á óvart því þegar reynt er að svindla á okkur sauðsvörtum almúganum sem erum alin upp við sjávarfang er ekki hægt að búast við miklum kvörtunum hjá saklausum ferðamönnum sem eru lítt vanir bragðtilbrigðum hinna ýmsu fisktegunda.
En hver man eftir nautabökunum sem ekkert nautakjöt var í?
Þetta er ekkert einsdæmi á Íslandi. Frægt er svindlið í Evrópu er hrossin gerðust dýrindis nautakjöt og ekki gleymi ég því er ég sá mynd á Facebooksíðu gamalla breskra togarajaxla af þverskornu ýsustykki í plasti í breskri verslun og á miðanum stóð „Skinless and boneless cod fillet“. Því miður gleymdi ég að vista myndina og finn hana ekki aftur.
Ekki veit ég hvernig tekið yrði á svindlinu hjá siðmenntuðum þjóðum, en ljóst samt að mikið var gert úr svindlinu í Evrópu og einhverjir dregnir til ábyrgðar. Á Íslandi var maðurinn með nautabökurnar án nautakjöts sýknaður vegna ónógra sönnunargagna og er almenningur áfram gjörsamlega ráðþrota enda vonast yfirstéttin til þess í lengstu lög að fólk haldi áfram að vera fífl.