Eigandi myndar: Einar Örn Jónsson. |
Það urðu einhver læti á vefmiðlum í dag vegna tveggja kvenna sem eru saman á vakt hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Einhverjir tjáðu sig og töldu þetta vera of langt gengið, konur gætu ekki dröslað meðvitundarlausum mönnum úr brennandi húsum og guð má vita hvað. Þeir hinir sömu voru sem betur fer snarlega kveðnir í kútinn. Því miður gleymdi ég að kanna hjá hvaða vefmiðli þetta var, en það kemur ekki að sök.
Ekki efa ég að þessar tvær konur sem eru saman á vakt hafa gengið í gegnum mikla og erfiða þjálfun áður en þær voru settar á vaktir og því tilbúnar í hvað sem er, þar á meðal réttu handtökin við að koma manninum út úr hættulegum aðstæðum og eru því eins hæfar og karlarnir. Reyndar er það eðli kvenna að beita öðrum aðferðum við kraftlyftingar en margir karlar gera og sleppa því við allskyns stoðkerfisvandamál síðar á æfinni eins og margir karlar sem eru sínkt og heilagt með hryggskekkju og bakverki eftir ranga líkamsbeitingu á unga aldri sem eyðilagði í þeim bakið.
Ég mætti einhverju sinni ungri stúlku sem ók átján hjóla vöruflutningabíl. Ég taldi reyndar ekki hjólin undir bílnum og eftirvagninum, enda svo hrifin af því sem ég sá, en stúlkan virtist lítil og pervisin þar sem hún ók þessu risastóra farartæki og fór mjög vel með. Þessi sýn hefði verið óhugsandi fyrir fáeinum áratugum, ekki vegna þess að stúlkan hefði ekki ráðið við bílinn, heldur vegna fordóma í garð kvenna því rétt eins og að konur ráða ekki við að lyfta níðþungu hjóli af vörubíl, þá gildir hið sama um karla og því eru til allskyns tjakkar og annar lyftibúnaður til að spara fólki erfiðið.
Ég rifja upp í huganum þegar verið var að endurnýja safnæð frá borholum í Mosfellsdal að dælustöðinni í Reykjahlíð. Þar var að verki verktaki ofan úr Hvalfirði sem var með bróður sinn og tvær dætur við verkið auk suðumanna. Þegar verið var að moka yfir rörin og laga jarðveginn eftir endurnýjun þeirra sáu dæturnar um verkið og þær léku sér að skurðgröfunum eins og væru þær saumavélar og árangurinn var slíkur að eftir var tekið, ekki aðeins snyrtileg vinnubrögðin heldur og allur frágangur verksins. Það er óhætt að fullyrða fæstir karlar hefðu unnið verkið jafnvel og gullfallegar heimasæturnar frá ónefndum sveitabæ í Hvalfirði.
Stúlkurnar tvær sem eru saman á vakt hjá slökkviliðinu eru heppnar. Þær njóta leiðsagnar frábærra karlkyns félaga sinna þar sem minnst einn hefur hlotið eldskírn í alvarlegum brunum á sjó og er auk þess þrælvanur björgunarsveitarmaður og skemmtilega laus við fordóma og frábær leiðbeinandi.
Ég vonast reyndar til þess að þurfa aldrei á aðstoð þessara ágætu kvenna hjá slökkviliðinu að halda, en ef ég lendi í þeirri slæmu aðstöðu, treysti ég þeim fullkomlega til að koma mér til hjálpar.
0 ummæli:
Skrifa ummæli