miðvikudagur, apríl 27, 2016

27. apríl 2016 - Sænskt frumvarp til laga um skaðabætur til transfólks




Að kvöldi 26. apríl bárust mér fréttir þess efnis að sænska ríkisstjórnin hefði samþykkt að leggja fram lagafrumvarp til greiðslu skaðabóta til þess transfólks sem hefði verið þvingað í ófrjósemisaðgerðir á árunum 1972 til 2013. Þetta eru um 800 manneskjur sem lentu í þessu þar á meðal ég sjálf og minnst tvær íslenskar manneskjur að auki, önnur þeirra látin fyrir fáeinum árum.

Þegar óskir um þessar skaðabætur komu fyrst til umræðu var ég dálítið efins, ég hafði jú fengið það sem ég óskaði mér, að vísu ekki eins og ég hafði óskað mér, en endanleg niðurstaða var engu að síður hin sama. En svo fór ég að velta þessu fyrir mér og á endanum samþykkti ég að vera með í hugsanlegri málshöfðun gegn sænska ríkinu og ástæðurnar eru margar.

Málshöfðunin gegn sænska ríkinu er ekki einvörðungu vegna þvingaðra ófrjósemisaðgerða heldur er hún miklu djúpstæðari en svo. Hún er miklu frekar spurning um mannréttindi. Lítum nú aðeins á lögin frá 1972 sem þessar ófrjósemisaðgerðir byggðust á, það er lög um ändrad könstillhörighet i vissa fall eins og það hét. Þar var skýrt tekið fram að lögin gildu einungis um „ugift svensk medborgare som fyllt arton år, är steriliserad eller som av annan anledning saknar fortplantningsförmåga.“ (lögin giltu um ógiftan, sænskan ríkisborgara eldri en átján ára sem hefur gengist undir ófrjósemisaðgerð eða er ófrjór af öðrum ástæðum). Þetta var svosem allt gott og blessað, en lögunum var framfylgt til hins ítrasta. Þannig voru lögin túlkuð á þá leið að bannað væri að frysta egg eða sæði úr viðkomandi persónu.

Þó var kannski meðferðarferillinn helsta niðurlægingin og mannréttindabrotið. Allt frá 1972 til aldamótanna síðustu var meðferðarferillinn mjög strangur og það voru mörg atriði sem gátu komið í veg fyrir að viðkomandi kæmist alla leið í kynleiðréttingu. Þar voru talin upp atriði á borð við geðsjúkdóma, sálræna kvilla, alkóhólisma og eiturlyfjafíkn, afbrotaferil, samkynhneigð (sic!), neikvæða fjölskyldu, slæma afkomumöguleika, óheppilega líkamsbyggingu, sjúkdóma og fleira sem talið var hindrun fyrir því að viðkomandi gæti lifað eðlilegu lífi eftir kynleiðréttingu. Til að komast alla leið þurfti maður því að vera nokkurs konar ofurmenni eða ofurkvendi til sálar og líkama og þegar allt hafði verið margprófað og sannað að viðkomandi væri ekki með neinn geðsjúkdóm eða aðra kvilla sem taldir eru að ofan og síðan eftir fleiri ára reynslutíma fékk viðkomandi úrskurð um geðsjúkdóminn transsexualisma.

Eins og gefur að skilja komust einungis örfáir einstaklingar í gegnum nálarauga kerfisins á árunum 1972 til aldamóta, þetta fimm til fimmtán á ári þótt umsóknirnar á hverju ári væru oft margir tugir. Þannig var ég í hópi ellefu einstaklinga sem komust í gegn árið 1995 og þá eftir áralanga baráttu, viðtöl við fleiri geðlækna og sálfræðinga og aðra sérfræðinga, allskyns próf og mælingar og vottorð (eins gott að ég var með tandurhreint sakavottorð eftir langa farmennsku) og loks mætingu fyrir hálfgerðum fjölskipuðum dómstól sem úrskurðaði um hæfi mitt til áframhaldsins, þ.e. að ég væri nógu heilbrigð til að það mætti úrskurða mig geðveika skv  geðveikisstaðlinum F64.0. Jafnvel þar var sérstaklega tekið fram að ekki fengist samþykki fyrr en að framkvæmdri ófrjósemisaðgerð.

Meðan á þessu stóð mátti ég ekki hegða mér eins og ég vildi. Ég varð að ganga um í pilsi eða kjól hvernig sem veður var. Það var ekki sama hvernig pilsið var, mátti ekki vera of stutt og ekki of þröngt og ég varð að ljúga því við læknana að ég væri tilbúin að hoppa í rúmið með næsta karli sem fyrst eftir aðgerð þótt ég ætti langa sögu að baki sem gagnkynhneigður karl..

Sem betur fer voru yngri læknar að koma til starfa á þessum tíma en gömlu íhaldskurfarnir sem höfðu mótað reglurnar að hætta eða fara á eftirlaun og hinir yngri öllu jákvæðari þó með jákvæðum undantekningum meðal hinna eldri eins og Gunnar Hambert í Uppsölum og Bengt Jansson í Huddinge sem fóru á eftirlaun fljótlega eftir að ég hafði lokið aðgerðarferlinu.

Þegar ég hugleiddi ferlið allt sem ég þurfti að ganga í gegnum, þá niðurlægingu sem ég þurfti sífellt að samþykkja oft að óþörfu gat ég ekki annað en samþykkt að taka þátt í málshöfðuninni gegn sænska ríkinu.





föstudagur, apríl 22, 2016

23. apríl 2016 - Greyfriars Bobby




Ég á tvær kisur sem eru ekki á því að hlýða mér alla daga. Þvert á móti eru þær duglegar við að sýna mér hver það er sem ræður á heimilinu og þær ætlast til að ég sitji og standi að þeirra vilja. Í gær tók önnur þeirra upp á því að skríða inn í fataskáp um leið og ég opnaði hann og míga þar yfir skó sem virtust vera í óreiðu þar inni. Ég stoppaði hana snarlega af og sýndi henni hver það er sem ræður á heimilinu og eitthvað virtist hún hafa lært að skammast sín því hún hefur hlýtt mér eins og lamb í dag.

Ekki veit ég hvað kattarskömminni kom til að míga inni í fataskáp. Skömmu áður hafði ég hreinsað sandkassa þeirra systra og þær fengu að auki aukreitis kattanammi í tilefni sumarkomu. Kannski eru þær bara svona ofdekraðar? Allavega er ástæða til að hugleiða eðli húsdýra og mótmæli þeirra ef þeim finnst þau fara á mis við eitthvað í lífinu.


Um daginn heyrði ég sögu af hundi:

Ég var í Edinborg í Skotlandi að heimsækja son minn og fjölskyldu hans og að sjálfsögðu kom ég við hjá leiði Greyfriars Bobby.  Greyfriars Bobby var hundur. Ég kann ekki sögu hans í smáatriðum né hverrar tegundar hann var, en eigandi hans var John Grey, lögregluþjónn í Edinborg. John Grey lést árið 1858 þegar Greyfriars Bobby var einungis tveggja ára gamall. Reynt var að flæma hundinn í burtu frá gröf eigandans við jarðarförina en það tókst ekki. Hann settist að hjá gröf húsbónda síns og neitaði að fara í burtu. Kráareigandi í nágrenni kirkjugarðsins sá aumur á honum og gaf honum að éta og síðan beið hundurinn húsbónda síns. Hann þurfti að bíða lengi.

Eftir fjórtán ára bið eftir húsbónda sínum dó hundurinn Greyfriars Bobby. Ekki var leyfilegt að grafa hann í kirkjugarði húsbóndans og því var hann jarðsettur við innganginn að kirkjugarðinum. Enn í dag hvíla þeir félagar nærri hvorum öðrum, en ekki saman, en vafalaust eru þeir saman á himnum. Kráin hvar eigandinn gaf Greyfriars Bobby að éta í fjórtán ár ber í dag nafn hundsins og er það vel.

Kisurnar mínar eru ellefu ára gamlar og þær munu ekki eiga mörg ár eftir af þessu jarðlífi. Mér kæmi hinsvegar ekki á óvart að hitta þær aftur á efsta degi, í sjálfu Himnaríki.  

laugardagur, apríl 16, 2016

16. apríl 2016 - Brauðmolastefnan



Ég var á ferð í Skotlandi og norðurhluta Englands um daginn og mér brá að sjá alla þessa betlara, ekki aðeins í Edinborg, heldur einnig í Newcastle. Þetta virtust ekki vera innfluttir betlarar frá Balkanskaga heldur hreinlega fólk sem hefur orðið undir í lífinu í konungsríkinu.

Mér var hugsað til fátæktarinnar í Grimsby eftir að fiskiðnaðurinn hrundi þar eftir að íslenska landhelgin lokaðist um miðjan áttunda áratuginn. Atvinnuleysið jókst mikið og maður fann fyrir miklum biturleika og vonleysi meðal íbúanna, ekki ósvipað og á Íslandi í hruninu fyrir fáeinum árum, en ekki fann ég fyrir neinni heift í garð Íslendinga og aldrei sá ég fólk betla fyrir mat sínum, en hafa ber í huga að Margaret Thatcher varð ekki forsætisráðherra fyrr en 1979.

Nákvæmlega!
Þegar ég spurði innfædda um þennan mikla fjölda betlara voru allir sem ég ræddi við sammála um að þetta væru afleiðingarnar af stjórnarstefnu Margaretar Thatcher og síðar John Major þegar velferðarkerfið var afnumið að miklu leyti á níunda áratugnum og brauðmolakenningin varð að veruleika á Bretlandseyjum og ástandið lagaðist lítt eða ekkert við að hægri „kratinn“ Tony Blair tók við af John Major árið 1997. Ekki veit ég hvernig ástandið er í Grimsby í dag hvað velferðarmál snertir. Ég hefi ekki spurt og enginn hefur sagt mér neitt, en væntanlega mun ég komast að því er ég kem næst til Grimsby á þessu ári eða næsta, en Grimsby á ávallt ákveðinn sess í hjarta mér eftir öll þau skipti sem ég tók þátt í að sigla með fisk þangað  frá 1967 til 1980.

Eitt mega Bretarnir þó eiga. Þeir börðust hatrammlega gegn öllum áætlunum Thatchers um að rústa heilbrigðisþjónustunni og tókst að vinna þar varnarsigur. Vegna þessa fá sonur minn og fjölskylda hans sem búsett eru í Skotlandi fulla og góða heilbrigðisþjónustu sem er að mestu eða öllu leyti ókeypis.

Hvernig er staðan á Íslandi 2016? Ríkisstjórnin er komin á veg með að rústa menntakerfinu, m.a. með afnámi fullorðinsfræðslunnar að hluta, heilbrigðiskerfið er þegar í molum og almenningur þarf að greiða himinháar upphæðir fyrir læknisþjónustu og lyf. Húsnæðiskerfið er í rúst og nánast vonlaust fyrir fólk með meðaltekjur að kaupa sér þak yfir höfuðið. Búið er að skerða atvinnuleysisbætur og við heyrum stöðugar hótanir ráðamanna um niðurskurð velferðarkerfisins að öðru leyti, t.d. í geðheilbrigðismálum.

Er nema von að ungt fólk telji sig ekki lengur velkomið á Íslandi, heldur telur sig betur komið með búsetu erlendis, jafnvel á Bretlandseyjum þar sem brauðmolastefnan hefur ríkt í þrjá áratugi?

föstudagur, apríl 15, 2016

15. apríl 2016 - Um Samtökin 78


Að undanförnu hefi ég beðið með að greiða félagsgjaldið mitt til Samtakanna 78 fyrir árið 2016. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem ég ætla ekki að nefna hér, en ég hefi orðið vör við nokkra óánægju með starf Samtakanna að undanförnu, en sjálf ekki tekið þátt í starfinu að neinu leyti í heilt ár.

Þegar ég bjó í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar kom ég oft inn á veitingastaðinn/krána Hjärterdam (Hjartadrottningin) sem þá var við Polhemsgatan á Kungsholmen í Stokkhólmi, örskammt frá höfuðstöðvum lögreglunnar í Stokkhólmi. Þessi staður var mjög vinsæll meðal samkynhneigðra og transfólks, enda var eigandinn Madame Kerstin sjálf gömul transkona og hafði farið í gegnum leiðréttingarferli á kyni löngu áður en ég kom til Svíþjóðar árið 1989. Þarna leyfði fólk sér ýmislegt sem ekki var talið eðlilegt á öðrum veitingastöðum og sem ég mun ekki upplýsa um á þessum vettvangi.

Eitt af einkennum staðarins var að ef fólk pantaði sér mat að kvöldi til en lauk ekki við matinn sinn, var því refsað í pyntingarklefanum sem var á bakvið. Vegna þessa þorði ég aldrei að borða á staðnum þótt ég kæmi þangað oft og skemmti mér hið besta innan um menn í furðufatnaði eða lögreglumenn á frívakt sem sumir virtust stunda staðinn af ákefð, en Madame Kerstin var auk þess að vera stjórnandi pyntinga á staðnum mjög virk í gleðigöngum Stokkhólmsborgar þar sem hún fór jafnan fyrir nokkrum fylgjendum sínum í járnum. Okkur varð vel til vina og aldrei fékk ég að kenna á svipuhöggum hennar en hafði gaman af er hún rassskellti gestina sem ekki luku við matinn sinn.

Einn örlítinn afkimi stórborgarinnar flutti löngu eftir veru mína í Svíþjóð í kjallaraholu í Gamla stan. Madame Kerstin lést svo sumarið 2011 úr alnæmi og enn er opin minningarsíða um hana á Facebook þar sem fólk tjáir sig um þessa ágætu manneskju sem var þrátt fyrir allt ósköp blíð og nærgætin við það fólk sem ekki kærði sig um hörkuna sem fylgdi BDSM.

Vegna þess hve margt samkynhneigt fólk sem og transfólk virtust vera með snertingu af BDSM blæti miðað við reynslu mína í Svíþjóð, átti ég mjög erfitt með að gera upp hug minn gagnvart BDSM félaginu, taldi það vissulega eiga álíka mikið erindi í Samtökin 78 og Félag frímerkjasafnara eða Ættfræðifélagið, en samt var þarna ákveðin tenging á milli. Ég hélt mig því til hlés, skipti mér ekki af aðalfundinum, en var erlendis þegar félagsfundur var haldinn nokkru síðar þar sem innganga BDSM-félagsins var endanlega staðfest. Ég var ekki hrifin af þessari afgreiðslu mála, hefði viljað halda aukaaðalfund frekar en félagsfund.

Nú hefur innganga BDSM verið staðfest og fjöldi fólks gengið úr Samtökunum 78. Ég hefi velt þessu talsvert fyrir mér og hvaða afstöðu mér beri að taka, en þrátt fyrir óánægju mína með þessa afgreiðslu mála get ég ekki séð neina betri lausn með klofningi Samtakanna 78 í tvö eða fleiri félög og í minningu Madame Kerstin greiddi ég félagsgjöldin mín í dag.

Svo á framkvæmdastýra Samtakanna 78 afmæli í dag!