föstudagur, apríl 15, 2016

15. apríl 2016 - Um Samtökin 78


Að undanförnu hefi ég beðið með að greiða félagsgjaldið mitt til Samtakanna 78 fyrir árið 2016. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem ég ætla ekki að nefna hér, en ég hefi orðið vör við nokkra óánægju með starf Samtakanna að undanförnu, en sjálf ekki tekið þátt í starfinu að neinu leyti í heilt ár.

Þegar ég bjó í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar kom ég oft inn á veitingastaðinn/krána Hjärterdam (Hjartadrottningin) sem þá var við Polhemsgatan á Kungsholmen í Stokkhólmi, örskammt frá höfuðstöðvum lögreglunnar í Stokkhólmi. Þessi staður var mjög vinsæll meðal samkynhneigðra og transfólks, enda var eigandinn Madame Kerstin sjálf gömul transkona og hafði farið í gegnum leiðréttingarferli á kyni löngu áður en ég kom til Svíþjóðar árið 1989. Þarna leyfði fólk sér ýmislegt sem ekki var talið eðlilegt á öðrum veitingastöðum og sem ég mun ekki upplýsa um á þessum vettvangi.

Eitt af einkennum staðarins var að ef fólk pantaði sér mat að kvöldi til en lauk ekki við matinn sinn, var því refsað í pyntingarklefanum sem var á bakvið. Vegna þessa þorði ég aldrei að borða á staðnum þótt ég kæmi þangað oft og skemmti mér hið besta innan um menn í furðufatnaði eða lögreglumenn á frívakt sem sumir virtust stunda staðinn af ákefð, en Madame Kerstin var auk þess að vera stjórnandi pyntinga á staðnum mjög virk í gleðigöngum Stokkhólmsborgar þar sem hún fór jafnan fyrir nokkrum fylgjendum sínum í járnum. Okkur varð vel til vina og aldrei fékk ég að kenna á svipuhöggum hennar en hafði gaman af er hún rassskellti gestina sem ekki luku við matinn sinn.

Einn örlítinn afkimi stórborgarinnar flutti löngu eftir veru mína í Svíþjóð í kjallaraholu í Gamla stan. Madame Kerstin lést svo sumarið 2011 úr alnæmi og enn er opin minningarsíða um hana á Facebook þar sem fólk tjáir sig um þessa ágætu manneskju sem var þrátt fyrir allt ósköp blíð og nærgætin við það fólk sem ekki kærði sig um hörkuna sem fylgdi BDSM.

Vegna þess hve margt samkynhneigt fólk sem og transfólk virtust vera með snertingu af BDSM blæti miðað við reynslu mína í Svíþjóð, átti ég mjög erfitt með að gera upp hug minn gagnvart BDSM félaginu, taldi það vissulega eiga álíka mikið erindi í Samtökin 78 og Félag frímerkjasafnara eða Ættfræðifélagið, en samt var þarna ákveðin tenging á milli. Ég hélt mig því til hlés, skipti mér ekki af aðalfundinum, en var erlendis þegar félagsfundur var haldinn nokkru síðar þar sem innganga BDSM-félagsins var endanlega staðfest. Ég var ekki hrifin af þessari afgreiðslu mála, hefði viljað halda aukaaðalfund frekar en félagsfund.

Nú hefur innganga BDSM verið staðfest og fjöldi fólks gengið úr Samtökunum 78. Ég hefi velt þessu talsvert fyrir mér og hvaða afstöðu mér beri að taka, en þrátt fyrir óánægju mína með þessa afgreiðslu mála get ég ekki séð neina betri lausn með klofningi Samtakanna 78 í tvö eða fleiri félög og í minningu Madame Kerstin greiddi ég félagsgjöldin mín í dag.

Svo á framkvæmdastýra Samtakanna 78 afmæli í dag!  


0 ummæli:







Skrifa ummæli