mánudagur, janúar 29, 2018

29. janúar 2018 - Þór Elísson 1929-2018




Ég ætlaði að mæta í útför eins uppáhalds skipstjóranna minna í dag, en ég var kölluð út á aukavakt og varð af útförinni. Það breytir ekki því að Þór Elísson var annar uppáhaldsskipstjórinn minn, næstur á eftir móðurbróður mínum Pétri Þorbjörnssyni. Þeir voru vinir og skipsfélagar og báðir frábærir félagar sem gott er að minnast.

Það var haustið 1980. Ég var nýkomin um borð í Bakkafoss aftur eftir nokkurra ára fjarveru og flestir í áhöfn skipsins voru mér nýir. Skipstjóri skipsins var nú Þór Elísson og yfirstýrimaður Ragnar Valdimarsson. Við vorum í höfn í Portsmouth í Virginíufylki í Bandaríkjunum og ég hafði verið í bænum ásamt nokkrum skipsfélögum, en ég hafði bíl til umráða þegar verið var í höfn í Portsmouth/Norfolk. Þegar ég kem niður að hafnarsvæðinu biður lögreglumaðurinn í hafnarhliðinu mig um að koma með aðeins inn í vaktskúrinn sem ég gerði. Þar sat þá skipstjórinn okkar og bað mig að koma með sér upp í bæ til að leysa úr vandræðum sem einhverjir úr áhöfninni höfðu komið sér í. Hann var nokkuð hreyfur af öli og vildi fá einhvern edrú til að fylgja sér til höfuðstöðva lögreglunnar í Norfolk. Það var alveg sjálfsagt ég skilaði félögum mínum um borð og við Þór Elísson héldum af stað til Norfolk.

Á leiðinni útskýrði Þór fyrir mér hvað væri í gangi. Fjórir ungir áhafnarmeðlimir skipsins höfðu verið handteknir og settir í steininn vegna ósæmilegrar hegðunar í miðborg Norfolk, en sá fimmti, messaguttinn taldist undir lögaldri og samkvæmt reglum í fylkinu taldist hann of ungur til að hægt væri að hneppa hann í varðhald án þess að tilkynna slíkt til foreldra eða lögráðamanna og því þurfti lögráðamaður piltsins að sækja hann. Skipstjóri skipsins væri í þessu tilfelli talinn vera lögráðamaður hans og því þurfti að sækja piltinn til höfuðstöðva lögreglunnar í Norfolk. Það gekk fljótt og vel að finna höfuðstöðvar lögreglunnar í Norfolk og fórum ég og Þór skipstjóri síðan með hjálp vakthafandi lögreglumanna inn á réttu deildina í þessari miklu byggingu þar sem pilturinn var í gæslu þar sem við hittum fyrir vakthafandi vaktstjóra.

Eftir að hafa heilsað varðstjóranum hóf okkar maður, ákveðinn í bragði að tilkynna að hann væri hingað kominn til að leysa úr haldi fimm unga stráka frá sér sem lögreglan hefði í haldi. Varðstjórinn mótmælti og neitaði að láta fleiri af hendi en messaguttann, nema ef skipstjórinn vildi reiða fram tryggingafé til að fá hina fjóra lausa. Hinir fjórir þyrftu að mæta fyrir dómara um morguninn. Ekki man ég hvert tryggingaféð átti að vera en það var alltof hátt til að skipstjórinn væri með það handbært. Þór reyndi samt hvað hann gat til að fá drengina lausa og stríddi varðstjóranum góðlátlega í leiðinni. Við fengum að heyra að brot strákanna hefði verið heimsókn í ólöglegt hóruhús.
„Þú verður þá að sjá til þess að þeir fái lista yfir löglegu hóruhúsin þegar við komum hingað næst!“

Við fengum messaguttann afhentan, kornungan strák sem var í sinni fyrstu ferð til sjós. Hinir fjórir fengu allir að dúsa í dýflissunni um nóttina. Á leiðinni til baka til skips reyndi skipstjórinn að ræða við messaguttann. „Hvað voruð þið að gera af ykkur? Hvað voruð þið að þvælast inn í mitt svertingjahverfi um hánótt? Er ekki til nóg af stelpum á Íslandi?“ Spurningarnar dundu á stráknum sem hummaði allar spurningarnar af sér og svaraði litlu og fálega. „Og mundu það að ef þú svarar mér ekki hvað gerðist áttu skilið að verða rekinn!“ Alveg sama sagan.

Við komum um borð, skipstjórinn skipaði messanum að fara í koju og þeir myndu ræða betur saman í fyrramálið. Ég og Þór fórum upp í setustofu skipstjóra og fengum okkur sinnhvorn bjórinn og skyndilega fór hinn reiði skipstjóri að hlæja eins og asni:
„Mikið djöfull var þetta gott hjá stráknum, hann á eftir að spjara sig í lífinu. Að segja ekki orð um félaga sína er gulls ígildi. Ég skal sko segja þér það, að ef hann hefði byrjað að romsa upp úr sér öllu um hina, þá hefði ég rekið hann!“

Morguninn eftir var skipverjunum fjórum sleppt úr haldi eftir að hafa verið dæmdir til greiðslu lægstu sektar til málamynda fyrir brot sín og urðu ævintýrin ekki fleiri í þessari ferð. Messaguttinn sigldi með okkur í nokkra mánuði eftir þetta og var ávallt í miklu uppáhaldi hjá Þór skipstjóra eftir að hann sannaði þagmælsku sína með óvægnum hætti nóttina forðum. Hann hætti þó fljótlega til sjós og hóf að starfa í landi þar sem hann lést síðar í vinnuslysi.

Ég þekkti ekki Þór Elísson áður en ég kom aftur um borð í Bakkafoss haustið 1980, en þá sigldi ég með honum í rúmt ár og síðar einnig á öðrum skipum Eimskipafélagsins, Af reynslunni get ég fullyrt að Þór Elísson var einn viðkunnanlegasti og vinsælasti skipstjórinn sem ég hefi verið með til sjós að öðrum skipstjórum ólöstuðum og ég man ekki til þess að hann hefði rekið nokkurn mann án ærinnar ástæðu.

Megi minning Þórs Elíssonar skipstjóra lifa með okkur til æviloka.

þriðjudagur, janúar 16, 2018

16. janúar 2018 - Sorgardagur?




Sextándi janúar er vissulega sorgardagur. Á þessum degi árið 1995 fórust 14 manns í snjóflóði í Súðavík og á þessum sama degi árið 2018 var sonur Gurríar vinkonu minnar borinn til grafar eftir að hafa farist í bílslysi tæpum tveimur vikum fyrr.

Ég man að þegar sagt var frá snjóflóðunum í Súðavík í fréttum var ég á vaktinni í Hässelbyverket, orkuveri í úthverfi Stokkhólms og einhvernveginn fannst mér það svo fjarlægt eftir nokkurra ára búsetu í Svíþjóð, en þegar nöfn fólksins sem fórst voru birt, rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði átt nokkur samtöl við eitt fórnarlambið áður en ég flutti, en ég hafði verið málkunnug Bellu Vestfjörð áður en ég flutti til Svíþjóðar 1989 sem um leið gaf hörmungum andlit, en Bella var eitt fjórtán fórnarlamba snjóflóðsins í Súðavík. Snjóflóðið á Flateyri innan við ári síðar var öllu nálægara enda náðu sænskir fjölmiðlar strax sambandi við Hildi vinkonu mína sem var nýlega flutt til Flateyrar frá Stokkhólmi.  

23 árum síðar var ég við útför ungs manns sem hafði farist í umferðarslysi tæpum tveimur vikum fyrr, en Einar Þór Einarsson var sonur Guðríðar Haraldsdóttur sem skráði sögu mína síðastliðið ár. Sama dag var tilkynnt um tvær viðurkenningar sem mér hlotnuðust, annars vegar sem persónu ársins 2017 á veftímaritinu GayIceland.is, en síðar sama dag fékk ég einnig 2. verðlaun í ljósmyndasamkeppni sjómanna, mynd sem ég hafði vissulega tekið en mávur stal fókusnum er ég ætlaði að mynda Goðafoss á leið til hafnar í Reykjavík frá Grundartanga. Já, vissulega er ég hætt til sjós, en má halda titlinum sem fyrrverandi sjómaður og sem vélstjóri á björgunarskipi í frítímanum.

Því má segja að 16. janúar sé dagur góðs og ills, bæði dagur sorgar og dagur fagnaðar rétt eins og aðrir dagar ársins, en samt dagur sem vert er að minnast.     

mánudagur, janúar 08, 2018

8. janúar 2018 - Um herinn á Miðnesheiði

Ég er friðarsinni. Ég er mjög andvíg öllum hernaðarátökum og tel að slíkar deilur eigi að leysa við samningaborðið en aldrei með hernaði. Sem friðarsinni er ég einnig óvirkur meðlimur í Samtökum hernaðarandstæðinga sem ég styð þó í hjarta mínu þótt virknin felist einvörðungu í að greiða ársgjaldið og mæta við kertafleytinguna 6. eða 9. ágúst ár hvert og svo við friðargönguna á Þorláksmessu. Ég neyðist þó til að skrópa fyrir næstu jól þar sem ég verð á vakt þegar friðargangan verður farin.

Tvennt er þó til að rækta efa í hjarta mínu. Annað er þyrlubjörgunarsveit herstöðvar bandaríska sjóhersins sem lengi var starfrækt hjá herliðinu á Keflavíkurflugvelli. Þyrlubjörgunarsveitin vann mörg frábær afrek þegar hún var með aðsetur hér á landi og hún var stolt herstöðvarinnar. Nokkrum árum áður en herinn hélt á brott með allt sitt hafurtask auðnaðist mér að heimsækja þyrlubjörgunarsveitina og mér til undrunar fékk ég að valsa um að vild með góðri leiðsögn hermanna sveitarinnar sem vildu allt fyrir okkur gera og voru ósparir á að sýna okkur nýjustu og flottustu tæknina í björgunarstörfum í sínum fimm þyrlum sem staðsettar voru á Keflavíkurflugvelli, en ég var þarna sem meðlimur í öryggisnefnd Orkuveitu Reykjavíkur.

Hitt dæmið um jákvæð áhrif hersins á Keflavíkurflugvelli er mun eldra og kannski viðkvæmara. Sem barn að aldri á barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellssveit komu hermenn frá Keflavíkurherstöðinni í heimsókn á hverju hausti nokkru fyrir jólin, færðu heimilinu gjafir og börnin fengu sömuleiðis persónulegar gjafir frá hernum og það voru gjafir af dýrari gerðinni, reiðhjól, snjósleðar, járnbrautarlest á teinum, skip knúin áfram af rafhlöðum og fleira sem margt er mér gleymt í dag. Í einn dag léku ungir hermenn við okkur börnin, sögðu okkur frá uppvaxtarstöðvum sínum vestur í Ameríkuhreppi og færðu okkur sælgæti og gjafir. Mig minnir þó að þessum heimsóknum hafi verið hætt fljótlega eftir 1960. Allavega man ég ekki eftir þeim á síðari hluta þess tíma sem ég dvaldi á barnaheimilinu, en góðar voru heimsóknirnar.

Það má svo deila um það hvort þessar heimsóknir á barnaheimilið hafi verið hluti af heilaþvotti, en fyrir börnin voru þær til gleði og þeim var fagnað.

Baráttan fyrir friði er ekki barátta gegn hermönnunum sem slíkum enda eru þeir einungis verkfæri yfirmanna sinna og pólitískra stjórnenda og sem persónur hafa þeir margir gengið langt í að bjarga mannslífum, stundum mun lengra en krafist er af þeim.

Þessi hugleiðing kom upp í hugann þegar ég sá fyrsta hlutann af þættinum um herstöðina á Miðnesheiði sem var í sjónvarpinu á sunnudagskvöldið.



föstudagur, janúar 05, 2018

5. janúar 2018 - Umferðarslys


Ég var einu sinni á ferð norður í land. Þegar ég ók framhjá Hreðavatnsskála var smáhlykkur á veginum og skyndilega var ég komin á rangan vegarhelming, en það kom enginn vörubíll á móti og mér tókst með lagni að sveigja inn á réttan vegarhelming og halda för minni áfram. Eitt örlítið augnablik sem hefði getað kostað lífið hefði bíll komið á móti mér.

Ég fékk viðvörun og allt fór vel. Það hefur ekki alltaf farið svona vel. Ungur piltur lést eftir að bílstjórinn sem kom á móti sá piltinn gera eitthvað annað en að horfa fram á veginn, stilla útvarpið eða eitthvað álíka. (Hann var ekki að tala í símann).

Um daginn lést vinur minn í umferðarslysi á Kjalarnesi. Hann var á fertugsaldri og enginn glanni í umferðinni. Ég veit ekki hvað gerðist annað en samkvæmt fyrstu fréttum fór hann yfir á rangan vegarhelming og það varð hans síðasta augnablik í lífinu. Eftir situr móðir hans og syrgir einkason sinn.

Það er ávallt erfitt að tjá sig um dauðsföll í nálægðinni, en um leið er nauðsyn að vekja athygli á augnablikunum sem valda dauða, símtölum eða svefni undir stýri. Einum vinnufélaga mínum tókst með naumindum að forðast stórslys er maður sem hafði sofnað undir stýri fór utan í hliðina á hans bíl og vaknaði við brak og bresti og náði að stöðva bíl sinn áður en illa fór. Sjálf var ég einu sinni akandi á eftir bíl þar sem bílstjórinn var að tala í síma og missti stjórn á bílnum sem lenti utan í bílnum við hliðina.

Er ekki kominn tími til að gera eitthvað í málinu?