Undanfarna daga hafa nokkrar manneskjur komið að máli við mig og skorað á mig að bjóða mig fram til þátttöku í Stjórnlagaþingi. Ég hefi ekki tekið mikið mark á þessum áskorunum, enda veit ég um nokkra frábæra frambjóðendur sem hafa gefið kost á sér til fremur erfiðs þinghalds þar sem tekist verður á um grundvallarbreytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands þar sem gamla stjórnarskráin sem að grunni til er frá 1874 á Íslandi og enn eldri í Danmörku og er að mörgu leyti barn síns tíma.
Ég hefi aldrei farið í grafgötur um áhuga minn fyrir stjórnarskrá Íslands, en tel um leið mikilvægt að þættir eins og barátta fyrir friði, hógværri náttúruvernd og mannréttindum til allra þjóðfélagsþegna eigi að vera bundnir í stjórnarskrá, þar með talin réttindi til fæðis og húsnæðis, auk sjálfsagðra þátta eins og aðskilnaði löggjafarvalds og framkvæmdavalds svo ekki sé talað um sjálfstæði dómstóla og virku trúfrelsi sem er vart til staðar í núverandi stjórnarskrá, en sjálf er ég meðlimur í þjóðkirkjunni og hefi ekki hugsað mér að yfirgefa hana þótt hún verði skilin frá ríkisvaldinu.
Í stað þess að gefa kost á nokkurri umræðu um hugsanlegt framboð mitt, hefi ég stutt eitt framboð með undirskrift minni, vitandi að umræddur frambjóðandi er mikill friðarsinni og um leið feministi og róttækur jafnaðarmaður. Samtímis erum við ekki flokksystkin í stjórnmálum. Ég vil ekki nefna frambjóðandann á þessari stundu.
Meðal helstu þátta sem ég tel vera andstæð framboði mínu er tímaleysi. Ég er í of mörgum stjórnum og nefndum félagasamtaka og ég hefi ekki haft þann tíma sem ég þarf til að ljúka mikilvægum skrifum sem ég þarf að ljúka sem fyrst. Samtímis kitlar hugmyndin um Stjórnlagaþing áhuga minn, ekki síst vegna þess hve mikilvægt það er að raddir hinsegin fólks fái að heyrast á Stjórnlagaþingi, þar á meðal okkar sem teljumst vera trans eða intersex. Ég fór því að endurskoða fyrri ákvörðun þegar mér bárust áskorun frá virkum hópum hinsegin fólks til væntanlegs framboðs míns.
Ef einhver kemur með áskorun undirritaða af 40 einstaklingum á meðmælalista skal ég bjóða mig fram af fullri alvöru með bleikt bros á vör. En það verður líka að vera tilbúið og skilað inn til viðeigandi yfirvalda fyrir hádegi þann 18. október 2010.
Ritað á 35 ára afmæli útfærslu fiskveiðilögsögu Íslands í 200 sjómílur.
föstudagur, október 15, 2010
15. október 2010 - Stjórnlagaþing
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:12
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli