fimmtudagur, október 28, 2010

28. október 2010 - Um kristniboðsfræðslu í skólum

Það er yndislegt að heyra hve trúmál geta valdið miklu fjaðrafoki í samfélaginu eins og umræðan um hvort banna skuli kristniboð í skólum. Sjálf velti ég þessum þætti tilverunnar fyrir mér, er mjög hlynnt algjöru trúfrelsi og aðskilnaði ríkis og kirkju, en hefi engan áhuga á að láta af trúnni og vil treysta kirkjunni minni fyrir sálu minni á efstu stundu.

Vegna umræðu um að kirkjunnar þjónar væru á kafi í trúboði í skólum, atriði sem ég minnist ekki að hafa verið áberandi í minni æsku, vil ég þó rifja upp eftirfarandi, þá sérstaklega eftir að ég neyddist til að þegja á fundi um kristnidómsfræðslu í skólum á fundi á miðvikudagskvöldið:

Það var minnir mig í tíu ára bekk að kennarinn okkar í Brúarlandsskóla fór á skíði í frítíma sínum, hann datt og fótbrotnaði. Þarna var úr vöndu að ráða. Það voru fáir kennarar við skólann og enginn gat bætt á sig kennslu Birgis og við sátum heima í nokkra daga á meðan reynt var að leysa úr málinu. Loks fékkst prestur sveitarinnar til kennslunnar og kenndi hann okkur í nokkrar vikur uns Birgir Sveinsson var orðinn það hress að hann gat hafið kennslu á ný. Ekki minnist ég þess að séra Bjarni Sigurðsson hafi haft neina tilburði í þá átt að auka við okkur kristinfræðikennsluna þessar vikur sem hann kenndi okkur eða reynt trúboð á annan hátt.

Loks kom okkar uppáhaldskennari aftur til starfa og allir glöddust, kennarar jafnt sem nemendur, ekki síst sjálfur séra Bjarni sem þurfti ekki lengur að mæta í Brúarlandsskóla á Landrovernum sínum á hverjum morgni.

Þessi stutta saga segir ekkert um hvort auka skuli eða draga úr kristnidómsfræðslunni í skólum landsins, miklu fremur hvort ekki beri að banna skíðaíþróttina á vetrum svo komið verði í veg fyrir að vinsælir kennarar slasi sig á skíðum í trássi við samþykki nemendanna!


0 ummæli:







Skrifa ummæli