mánudagur, október 18, 2010

18. október 2010 - Framboð til Stjórnlagaþings

Ég, Anna Kristín Kristjánsdóttir, fædd 30. desember 1951 í Reykjavík, lýsi hér með yfir framboði mínu til stjórnlagaþings. Ég hefi þegar afhent nauðsynleg gögn til Landskjörstjórnar með 50 meðmælendum.

Með framboði mínu legg ég megináherslu á mannréttindi öllum til handa í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og þá sérstaklega í samræmi við baráttu minnihlutahópa fyrir réttindum sínum og að ekki megi leiða í lög mismunun gegn þessum sömu hópum. Sömuleiðis legg ég áherslu á friðarmálefni, að tryggt verði í stjórnarskrá að herskyldu megi aldrei leiða í lög né að Ísland taki þátt í hernaði á hendur öðrum þjóðum. Þá tel ég að virkja beri trúfrelsið með aðskilnaði ríkis og kirkju og kirkjan gerð sjálfstæð gagnvart ríkinu.

Ég vil aðskilnað lagavalds, framkvæmdavalds og dómsvalds á Íslandi. Þannig verði óheimilt að sami aðili sitji samtímis á Alþingi og í ríkisstjórn og að dómstólar starfi sjálfstætt og án afskipta framkvæmdavaldsins. Ísland verði eitt kjördæmi þar sem alþingismenn vinni með hag allrar þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ég vil að Stjórnlagaþing finni ásættanlega lausn í náttúruverndarmálum Íslands sem hægt verði að festa í stjórnarskrá og miðað skuli við í störfum laga- og framkvæmdavalds.

Ég mun tjá mig frekar á næstu vikum um þessi málefni og önnur sem kunna að koma til umræðu í tengslum við kosningar til stjórnlagaþings.

-----

Ég er fædd í Reykjavík og ólst þar upp að hluta, en átti einnig góða æsku að barnaheimilinu að Reykjahlíð í Mosfellsdal þar sem ég dvaldi frá sjö til tólf ára aldurs. Ég fór til sjós á togara þegar ég var fjórtán ára og varð sjómennska hlutskipti mitt næstu áratugina á eftir, sem vélstjóri frá 1974. Ég settist á skólabekk í Vélskóla Íslands haustið 1972 og lauk þaðan námi vorið 1977 eftir að hafa tekið mér eins árs leyfi frá námi er ég tók þátt í að stofna fjölskyldu ásamt þáverandi maka.

Árið 1984 gekk ég í gegnum hjónaskilnað. Ári síðar settist ég enn á ný á skólabekk í öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð jafnframt því sem ég lauk sveinsprófi í vélvirkjun. Árið 1987 hætti ég til sjós, lauk stúdentsprófi 1988 og tók ágætan kúrs í stjórnskipunarrétti hjá Ármanni Snævarr og almennri lögfræði veturinn á eftir, en lét tilfinningar mínar stjórna lífi mínu árin á eftir, flutti til Svíþjóðar 1989, starfaði eitt ár við vélaprófanir hjá Scania í Södertälje, en fékk þá starf hjá Orkuveitu Stokkhólmsborgar þar sem ég starfaði næstu sex árin á eftir sem vélfræðingur við kraftvarmaverið í Hässelby í Stokkhólmi. Á þessum tíma gekk ég í gegnum erfiðustu lífsreynslu lífs míns, að koma opinberlega út úr skápnum sem transmanneskja og síðan að ganga í gegnum erfiðar aðgerðir til leiðréttingar á kynferði mínu.

Ég flutti heim aftur 1996, átti í nokkrum erfiðleikum með að fá vinnu á Íslandi, kannski vegna fordóma, en með hjálp góðs fólks á Eskifirði ákvað ég að dvelja um kyrrt á Íslandi um sinn, en fékk svo vinnu hjá Hitaveitu Reykjavíkur þá um haustið og er enn hjá arftaka Hitaveitunnar, Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem ég starfa sem vélfræðingur í stjórnstöð OR.

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur starfa ég við hjarta Reykjavíkur, fylgist með flæði heits og kalds vatns um hverfi borgarinnar og nágrannasveitarfélaga, en einnig með því sem Reykvíkingar og nærsveitungar skila frá sér, fráveitunni, auk framleiðslu á rafmagni á Nesjavöllum og Hellisheiði.

-----

Meðal helstu félagsmálastarfa minna er eftirfarandi auk starfa nemendafélaga:
Í skólanefnd Vélskóla Íslands 1976-1977
Í stjórn Íslendingafélagsins í Stokkhólmi 1990-1993
Í menningarnefnd Landssambands Íslendingafélaga í Svíþjóð 1991-1994
Formaður Föreningen Benjamin í Svíþjóð 1994-1996 (félag transsexual fólks í Svíþjóð)
Í stjórn Ættfræðifélagsins 2002-2006
Í stjórn Transgender Europe 2005-2008 (Evrópsku transgendersamtökin)
Í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík frá 2009
Fulltrúi VM í Siglingaráði frá 2009
Í trúnaðarráði Samtakanna 78 frá 2009, í stjórn Samtakanna frá 2010
Auk þessa er ég virk í Íslandsdeild Amnesty International, tók þátt í stofnun félagsins Trans-Ísland árið 2007 og hefi haldið fjölda fyrirlestra um transgender bæði heima og erlendis og kynnt þau mál í viðtölum og blaðagreinum.

-----

Að þora er að missa fótfestuna um stund, að ekki þora er að tapa sjálfum sér.


0 ummæli:







Skrifa ummæli