föstudagur, nóvember 26, 2010

26. nóvember 2010 - Kosningar nálgast

Ég var á fundi á fimmtudagskvöldið og hitti þá einn ágætan kjósanda sem var óánægður með undirbúning og framkvæmd kosninganna til stjórnlagaþings. Hann þyrfti að vinna alla daga og hefði ekki haft tíma til að undirbúa framboð til stjórnlagaþings, enda væri hann einyrki og fyrirtæki hans stæði og félli með honum nema með margra mánaða fyrirvara.

Ég lýsti yfir skilningi mínum á högum hans þótt ég væri ekki alveg sammála honum að öllu leyti, en um leið rifjaðist upp fyrir mér hve skamman tíma ég hefði haft til undirbúnings frá því mér bárust meðmæli um 40 einstaklinga innum bréfalúguna mína og þar til ég fór með framboðsgögnin niður á Alþingi sólarhring síðar. Var ég þó á vakt helming þess tíma sem ég hafði til stefnu.

Miðað við þetta er ég harla ánægð með þenn stuðning sem ég hefi hlotið, ekki síst fyrir þá sök að einasti kostnaðurinn minn við framboðið eru kaffisopi, tvær vínarbrauðslengjur og nokkrar pönnukökur með sultu og rjóma. Þá hefi ég reynt að vera heiðarleg í framboði mínu, gætt þess að segja þann sannleika sem ég veit bestan og valda engum deilum með framboði mínu.

Sjálf er ég ánægð með stöðu kosninganna fram að þessu. Það hefur verið mjög lítið um persónuníð vegna einstöku framboða þótt aðeins hafi borið á slíku síðustu dagana, en flestir reynt að reka sína kosningabaráttu heiðarlega og með lágmarkskostnaði.

Rétt eins og mestalla kosningabaráttuna er ég að vinna kosningahelgina og mun fátt geta gert til að hafa áhrif á kjósendur síðustu dagana, en trúi því um að leið að hógvær kosningabarátta mín skili sér í setu á stjórnlagaþingi á nýju ári.

-----

Að þora er að tapa fótfestunni um stund, að ekki þora er að tapa sjálfum sér.

þriðjudagur, nóvember 23, 2010

23. nóvember 2010 - Af hverju bauð ég mig fram?

Hægt er að velta fyrir sér hvaða fólk er hæft til setu á stjórnlagaþingi. Sumir leggja megináherslu á lagakunnáttuna, aðrir á reynsluna, enn aðrir á eitthvað allt annað. Sjálf er ég ekki mikið gefin fyrir að stæra mig af afrekum mínum. Þrátt fyrir það er nú nauðsyn á að auglýsa sig fyrir stjórnlagaþing og má þá ekki þegja yfir neinu.

Ég hefi boðið mig fram til stjórnlagaþings og þá aðallega vegna fjölbreyttrar reynslu minnar af samfélaginu. Ég hefi starfað til sjós og lands, hefi beðið dauðans á ögurstundu og átt þá ósk eina að báturinn færi upp en ekki niður eftir brotsjóinn, en hefi einnig verið með í að fylla eitt glæsilegasta nótaskip landsins á mettíma. Ég hefi verið fjölskyldufaðir og kannski amma, um það má deila, allavega hefi ég lifað bæði sem karl og sem kona, hefi kynnst fordómum í sinni verstu mynd en um leið kynnst jákvæðni og stuðningi í sinni bestu mynd. Ég hefi verið lamin vegna þess hver ég er, en einnig hyllt vegna þess hins sama.

Ég hefi verið fyrirlitin á Íslandi fyrir að vera hinsegin eða bara trans og ég hefi fengið viðurkenningu á Íslandi fyrir hið sama, að vera hinsegin og vera trans. Ég hefi þurft að berjast fyrir tilverurétti mínum en ávallt staðið upp aftur. Ég hefi meira að segja setið kúrs í stjórnskipunarrétti hjá Ármanni heitnum Snævarr, yndislegum rektor, Hæstaréttardómara og frábærum kennara.

Ég hefi búið í Reykjavík, Mosfellssveit, Vestmannaeyjum, Bíldudal, Järfälla og Södertälje, verið í Bolungarvík og á Eskifirði komið til hafnar við flestar hafnir landsins, Eyri í Ingólfsfirði, Borgarfirði eystra, Grindavík.

Ég er alin upp á barnaheimili sem hefur verið svartmálað í fjölmiðlum, lent í loftárás í Líbanon, búið í og kynnst kreppunni í Svíþjóð á tíunda áratugnum. Ég hafði áður kynnst kreppum á Íslandi, fiskveiðakreppunni 1967-1969, þegar fjöldi fólks flúði land til Svíþjóðar og Ástralíu, óðaverðbólgunni 1980-1983 þegar verðbólgan fór upp í 80%.

Samt hefi ég átt góða ævi og sé fram á góða elli eftir rúman áratug. Ég held samt að ég geti gefið af mér á stjórnlagaþingi sem einungis mun standa yfir í að hámarki fjóra mánuði.

Því bið ég ykkur öll að setja mig í fyrsta sæti svo ég hafi möguleika á að komast inn og miðla af reynslu minni á stjórnlagaþingi 2011 svo tryggt sé að við fáum betri stjórnarskrá en þá sem við höfum í dag.

sunnudagur, nóvember 21, 2010

21. nóvember 2010 - Enn um tengsl við hagsmunahópa

Fyrir fáeinum dögum fór fram undirskriftasöfnun meðal frambjóðenda til stjórnlagaþings þar sem þeir flykktust um að lýsa sig saklausa að tengslum við hagsmunahópa, sama hvar í flokki þeir stóðu. Þar sem ég reyni að vera trú sannleikanum eins og ég veit hann bestan, treysti ég mér ekki til að skrifa undir þessa undirskriftasöfnun. Ástæðan er einföld. Ég lít á mig sem fulltrúa ýmissa minnihlutahópa í samfélaginu, þá fyrst og fremst hinsegin fólks, homma, lesbía, tvíkynhneigðra, transfólks og intersex fólks, en einnig friðelskandi fólks og baráttufólks fyrir mannréttindum.

Ég viðurkenni þó að enginn hefur enn greitt eina einustu krónu í kosningabaráttu mína. Einn hópur ætlaði að hefja söfnun mér til handa, en ég afþakkaði pent vitandi að meðlimir hópsins þurfa miklu fremur á peningunum sínum að halda en ég. Með því að neita að skrifa undir, lýsi ég því um leið yfir að fólki er velkomið að auglýsa framboð mitt á nánast hvern þann hátt sem það kýs, þó án þess að bendla mig við neikvæð öfl í þjóðfélaginu.

Þegar undirskriftasöfnunin hófst lenti ég í netþrasi við einn meðframbjóðandann en hann hélt því fram að hann væri algjörlega óháður öllum hagsmunahópum, en eftir nokkuð þras okkar á milli viðurkenndi hann að hann væri meðlimur í Blaðamannafélaginu sem er að sjálfsögðu hagsmunafélag.

Ég fullyrti við hann og fullyrði við alla að enginn frambjóðandi er algjörlega óháður. Fólk þarf auðvitað ekki að vera á kafi í öllum hagsmunahópum eins og ég, en ég lít frekar á slíkt sem styrk að hafa tekið þótt í hinum fjölbreyttustu sviðum samfélagsins, hvort heldur er pólitík, frímerkjasöfnun, ættfræðigrúski, mannréttindabaráttu og öðrum félagsmálum.

Ég er löngu búin að setja upp minn lista í kosningum til stjórnlagaþings. Þar set ég sjálfa mig í efsta sæti, en næstur á eftir mér er friðarsinni sem er ekki í sama flokki og ég og aðeins neðar má finna pólitískan andstæðing sem ég þekki ekki persónulega, en er þekktur fyrir afburða þekkingu á stjórnskipun Íslands og annarra landa og sem ég vil sjá á stjórnlagaþingi. Þá er listinn minn ekkert sérstaklega jafnréttissinnaður, reyndar fremur feminiskur þar sem fimmtán konur eru á móti tíu körlum. Um leið er stærstur meirihluti frambjóðenda á listanum mínum fólk sem ég þekki persónulega og nægilega vel til að vinna nýrri stjórnarskrá brautargengi.

21. nóvember 2010 - Um friðarmál

Ég minnist dapra marsdaga árið 2003. Forsætis- og utanríkisráðherra höfðu tilkynnt um stuðning Íslands við innrás Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Írak og Samtök hernaðarandstæðinga tóku þátt í mótmælum framan við stjórnarráðið gegn innrásinni. Ég tók þátt í mótmælunum eftir því sem ég hafði tíma, en því miður varð ég oft að láta mér nægja stuðning í anda vegna vinnu minnar.

Þetta var ekki fyrsta skiptið sem ég tók þátt í mótmælum gegn hernaði. Löngu áður hafði ég gengið Keflavíkurgöngur, eina Straumsvíkurgöngu en einnig tekið þátt í mótmælum við fleiri tilfelli á áttunda áratug síðustu aldar (eitt sinn mætt skuggalegum náunga að nafni Richard Milhous Nixon á Skólavörðustígnum þar sem við vorum að bera skilti frá Iðnaðarmannahúsinu við Hallveigarstíg að Grettisgötu 3).

Friðarbarátta er svo nátengd mannréttindabaráttu að vart verður skilið á milli. Sem mannréttindasinni er ég einnig friðarsinni og á enga ósk heitari en þá að öll vopn verði eldi að bráð og friður og kærleikur ríki um heim allan. Um leið geri ég mér grein fyrir því að slík von er einungis draumur í hjarta. Við verðum þó að styðja þessa von.

Því hefi ég sett í kosningastefnu mína ákvæði um að Íslandi verði bannað að taka þátt, sem og að styðja innrásir í önnur ríki og bann við herskyldu á Íslandi, kannski fjarlæg krafa en raunhæf. Loks að Ísland verði lýst kjarnorkuvopnalaust land.

Er hægt að fara fram á minna?

laugardagur, nóvember 20, 2010

20. nóvember 2010 - Af hverju eitt kjördæmi?

Skipting landsins í kjördæmi á sér stað í einangrun sveitarfélaga og sýslurnar miðuðust oft við stórfljót sem einangruðu heilu sveitirnar. Því áttu t.d. Rangárvallasýsla lítið sameiginlegt með Árnessýslu vestan Þjórsár og sömuleiðis átti borgarskipulagið í Reykjavík lítið sameiginlegt með landbúnaðinum í Þingeyjarsýslum hinum megin á landinu. Þegar ég var að alast upp þótti eðlilegt að vera tíu tíma frá Reykjavík til Akureyrar þótt sumum tækist að fara þessa leið á átta tímum og einstöku ofurhugar á sex tímum

Eftir því sem leið á tuttugustu öldina bötnuðu samgöngur. Zoëgabeygjurnar hurfu fyrir betri brúm og síðar malbikuðum þjóðvegum og um leið eyddust mörk sýslanna og kjördæmin tóku við, sex að tölu. Smám saman hefur Alþingi orðið að láta í minni pokann fyrir flutningi fólks á suðvesturhornið með því að þrjú kjördæmi með talsverðan meirihluta þjóðarinnar eru á höfuðborgarsvæðinu, en hin þrjú eru stundum kölluð landsbyggðarkjördæmi.

Sumir alþingismenn telja sig vera þingmenn fyrir landsbyggðina og vinna ötullega fyrir sín kjördæmi á meðan aðrir vinna fyrir þjóðina alla. Þannig getur Kristján Möller ekki talist minn þingmaður sem landsbyggðarþingmaður á meðan Steingrímur J. Sigfússon er með áherslu sína á allt landið þótt hann sé ekki með sömu áherslur og ég í veigamiklum málum. Þá má velta fyrir sér hvort verslunarmenn á Akureyri eigi ekki meira sameiginlegt með verslunarmönnum í Reykjavík en bændum á Austurlandi, en á sama hátt hvort sjómenn í Reykjavík eigi ekki meira sameiginlegt með sjómönnum á Neskaupstað en kennurum á Egilsstöðum.

Það situr enn í mér slæmska síðan Halldór E. Sigurðsson var samgönguráðherra og allar leiðir lágu til Borgarness. Á þeim tíma var þjóðvegur númer 1 lagður í gegnum Borgarnes í stað þess að liggja meðfram Borgarnesi meðfylgjandi alvarlegri slysahættu fyrir börn í Borgarnesi, einungis til að kaupmenn í Borgarnesi fengju örlítinn skerf af ferðamannaumferðinni á leið norður í land.

Ég vil að alþingismenn séu þingmenn fyrir allt landið, ekki bara sín kjördæmi. Því vil ég eitt kjördæmi sem tryggir að þingmenn vinni fyrir allt landið en ekki einungis hreppsfélagið heima.

föstudagur, nóvember 12, 2010

12. nóvember 2010 - Kostnaður við framboð

Um daginn var mér boðið að taka þátt í framboðskynningu á vegum Bleika hnefans, aðgerðarhóps róttækra kynvillinga, en Bleiki hnefinn er, ásamt Q, félagi hinsegin stúdenta og Trans-Íslandi helstu stuðningsaðilar mínir auk vina og fjölskyldu. Þegar ég kom á staðinn sá ég söfnunarbauka þar sem ætlast var til að fólk safnaði í púkkið vegna kostnaðar við framboð mitt. Þegar ég hafði lokið kynningu á framboði mínu óskaði ég þess að fólk gæfi frekar í framkvæmdasjóð Samtakanna 78 en í kosningasjóð mér til handa. Ástæðan væri einfaldlega sú að Samtökin 78 þar sem ég er gjaldkeri í stjórn, berjast í bökkum eftir verulegan niðurskurð á fjárframlögum frá opinberum aðilum og því eðlilegast að Samtökin 78 fái að njóta fjárframlaga á fundi sem haldinn er í salarkynnum Samtakanna.

Ég ber fulla virðingu fyrir því fólki sem telur sig þurfa á sérstakri kynningu að halda í tengslum við framboð til stjórnlagaþings. Fjöldi fólks er algjörlega óþekktur flestum og eðlilegt að þeir frambjóðendur sem telja sig vera í þeim hópi kynni sig, t.d. með einföldum kynningum í formi ódyrra auglýsinga. Ef frambjóðendur eyða milljón eða meira í auglýsingar fer maður að efast um heilindin og fer að velta fyrir sér hvaða sérhagsmunasamtök styðja við bakið á frambjóðandanum. Það er einu sinni svo að launin fyrir setu á stjórnlagaþingi eru einungis lélegt þingfararkaup sem er, ef ég man rétt, aðeins 520.000 krónur á mánuði fyrir skatta.

520.000 krónur er mjög áþekkt því sem ég hefi í laun í dag, að vísu með vaktaálagi, yfirvinnu, bakvöktum og fleiri sporslum. Það eru því ekki launin sem ég sækist í, einungis viljinn til að láta gott af mér leiða fyrir framtíð afkomenda minna og annarra Íslendinga framtíðarinnar.

Sjálf hefi ég ekki hugsað mér að eyða miklum peningum í framboð mitt. Það má vera að ég hræri í pönnukökur handa gestum mínum sem álpast í heimsókn og aldrei að vita nema ég lumi á glasi af rauðvíni eða bjór handa þeim hinum sömu hafi þeir áhuga fyrir slíku, en meira verður það ekki. Ef fólk hafnar mér vegna fortíðar minnar, verður svo að vera, en um leið fagna ég því ef hæstvirtir kjósendur minnast verka minna á jákvæðan hátt með því að skrifa númerið 9068 á kjörstað.

Um leið minnist ég ónefnds frambjóðanda sem bauð sig fram í prófkjöri fyrir nokkrum árum og eyddi til þess nærri tíu milljónum króna. Kjósendur höfnuðu honum!

12. nóvember 2010 - Um vald forseta Íslands

Þegar forseti Íslands neitaði að undirrita fjölmiðlalögin árið 2004 þótti mér það miður. Það var þörf á fjölmiðlalögum, en þáverandi valdhafar töldu sig þurfa að ná sér niður á ákveðnum einstaklingum sem hegðuðu sér ekki í samræmi við vilja valdhafanna, en forsetinn þurfti á sama hátt að þakka þessum sömu einstaklingum fyrir veittan stuðning við sig og ná sér niður á andstæðingum sínum sem sátu í ríkisstjórn.

Með því að aðhafast ekkert í breytingu á stjórnarskránni eftir höfnun forseta á fjölmiðlalögunum viðurkenndu þáverandi stjórnarherrar tilvist 26. greinar stjórnarskrárinnar. Það var miður. Nú hefur lítill stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi farið fram á það við forseta Íslands að hann skipi utanþingsstjórn, vald sem er honum er óheimilt nema með samþykki þeirrar ríkisstjórnar sem hann á að reka úr embætti.

Með óskinni um utanþingsstjórn er í reynd verið að óska þess að forsetaræðið verði fest í sessi enn frekar en orðið er og þá styttist leiðin enn frekar í áttina að fáræði fáeinna einstaklinga eða eins forseta. Þessi leið hugnast mér alls ekki og er mér frekar ógeðfelld. Ég held að ég vilji frekar flytja af landi brott en að sjá slíkt gerast á Íslandi á 21. öldinni. Hvað sem segja má um núverandi ríkisstjórn, hefur hún meirihluta Alþingis á bakvið sig og hlaut til þess meirihluta atkvæða í síðustu alþingiskosningum fyrir einu og hálfu ári síðan. Það er ekki hægt að segja sömu sögu um forseta Íslands sem fékk aðeins stuðning um 40% kosningabærra aðila í síðustu forsetakosningum árið 2004, þótt hann hafi vissulega hlotið yfirburðakosningu sé litið til greiddra atkvæða.

Ég er ekki viss um að afnema beri forsetaembættið. Margt er það sem forseti Íslands getur gert á meðan hann eða hún er sameiningartákn fyrir þjóðina, sameiningartákn með þeim hætti sem fyrri forsetar lögðu sig fram um að sinna af hógværð og virðingu.

Það má svo velta fyrir sér hvort það sé ekki frekar hlutverk forseta Alþingis að undirrita lög og stofna til stjórnarmyndanna!

fimmtudagur, nóvember 11, 2010

11. nóvember 2010 – Um skipan í dómstóla

Ég er hlynnt þrígreiningu ríkisvaldsins, skiptingu þess í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Ísland hefur ekki fylgt þessu nema að litlu leyti á undanförnum árum. Hér hefur framkvæmdavaldið ráðið yfir löggjafarvaldinu og ráðið dómarana sem síðan verða óvenjuvilhallir framkvæmdavaldinu í málum sem varða framkvæmdavaldið. Auk þess hefur forseti Íslands byrjað að láta til sín taka á undanförnum árum og leikið fjórða valdið, þvert á hefðir lýðveldisins.

Með framboði mínu til stjórnlagaþings er ég ekki að leggja fram tilbúnar tillögur um það hvernig stjórnarskráin eigi að vera í smáatriðum. Til þess er verið að velja á stjórnlagaþingið. Það er þó ljóst að ég verð seint hlynnt núverandi stjórnarskrá og tel að skerpa eigi á þrígreiningunnni í nýrri stjórnarskrá. Þar vil ég sjá að framkvæmdavaldinu, þ.e. ríkisstjórninni verði hlíft við því að þurfa að skipa dómara sem hefur verið mjög gagnrýniverður þáttur stjórnsýslunnar á undanförnum árum.

Í fljótu bragði tel ég eðlilegast að dómstólaráð sem í dag kveður úr um hæfni dómara, velji þessa hina sömu dómara en að slíkt val skuli jafnframt vera háð samþykki meirihluta Alþingis.

laugardagur, nóvember 06, 2010

6. nóvember 2010 - Um trúmál

Góð vinkona mín og samstarfskona til fleiri ára spurði mig um afstöðu mína til trúmála. Ég svaraði samkvæmt sannfæringu minni, að ég væri kristin og meðlimur í þjóðkirkjunni, en um leið væri ég hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju. Þessi afstaða mín varð til þess að hún tilkynnti mér að hún ætlaði ekki að styðja við framboð mitt til stjórnlagaþings.

Ég ber fulla virðingu fyrir afstöðu vinkonu minnar. Hún þekkir betur til sjóslysa og baráttunnar gegn þeim en flest annað fólk, án þess þó að hafa sjálf lent í slíku. Hún veit mætavel hve trúin getur verið sterk á örlagastundu þegar vonin virðist úti og ekkert eftir nema svartnætti síðustu andartaka lífsins áður en dauðinn veitir okkur síðustu líknarverkin á hafi úti fjarri ástvinum okkar. Ég hefi sömuleiðis kynnst slíku, séð fullorðna karlmenn gráta og biðja til guðs í örvæntingu sinni þegar öllu virtist lokið.

Meðal annars vegna þessarar reynslu minnar er ég kristin og get vart hugsað mér að fara yfir í annað trúfélag en hina evangelísku þjóðkirkju Íslendinga. Mér dettur hinsvegar ekki til hugar að þvinga trúarskoðunum mínum á annað fólk. Þetta var mín upplifun og mín reynsla sem ég upplifði og ég ætla að eiga hana með sjálfri mér og mínum nánustu. Mér dettur ekki til hugar að krefjast þess að aðrir Íslendingar deili þessari reynslu minni með mér. Þeirra er að eiga sína eigin trúarreynslu eða trúleysi án afskipta minna.

Þess vegna vil ég sjá aðskilnað ríkis og kirkju á Íslandi.

fimmtudagur, nóvember 04, 2010

4. nóvember 2010 –Um mannréttindaákvæði stjórnarskrár Íslands

Í 65 grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir svo:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Allt er þetta gott og gilt, en er þetta nóg?

Í stjórnskipunarlögunum frá 1995 er ekki einu orði minnst á kynhneigð eða kynvitund. Einungis ári síðar tókst að vinna mikilvægasta réttindamáli samkynhneigðra það mikinn stuðning að lög voru samþykkt um staðfesta samvist samkynhneigðra. Síðar tókst að leiða í lög ákvæði um ættleiðinar samkynhneigðra og síðastliðið vor voru loksins samþykkt ein hjúskaparlög, þrátt fyrir harða andstöðu nokkurra presta þjóðkirkjunnar þótt mikill meirihluti væri þeim samþykkur. Enn er ekki til lagakrókur um réttindi transfólks eða intersexfólks og ekkert í stjórnarkrá sem ýtir á slíka lagasetningu, ekki frekar en réttindi samkynhneigðra.

Réttindi samkynhneigðra eru ákaflega brothætt í lögum. Það er ekkert í stjórnarskrá sem verndar þau og reynslan frá Þýskalandi millistríðsáranna segir okkur að á þeim róstursömu tímum sem nú eru í íslensku samfélagi vilja minnihlutahópar gjarnan verða undir í slíkum átökum. Því er nauðsynlegt að tryggja slík réttindi svo fljótt sem orðið er.

Ég hefi aldrei reynt að draga dul á að stuðningur minn til stjórnlagaþings er að miklu leyti kominn frá hinsegin fólki sem hefur lengi þurft að berjast við veraldlegt sem geistlegt vald til að ná fram réttindum sínum. Ég mun að sjálfsögðu halda merkjum þeirra á lofti með kröfunni um umbætur í mannréttindakafla stjórnarskrár þar sem réttindi hinsegin fólks verði tryggð með að mannréttindaákvæðin nái einnig til kynhneigðar og kynvitundar.