Ég er hlynnt þrígreiningu ríkisvaldsins, skiptingu þess í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Ísland hefur ekki fylgt þessu nema að litlu leyti á undanförnum árum. Hér hefur framkvæmdavaldið ráðið yfir löggjafarvaldinu og ráðið dómarana sem síðan verða óvenjuvilhallir framkvæmdavaldinu í málum sem varða framkvæmdavaldið. Auk þess hefur forseti Íslands byrjað að láta til sín taka á undanförnum árum og leikið fjórða valdið, þvert á hefðir lýðveldisins.
Með framboði mínu til stjórnlagaþings er ég ekki að leggja fram tilbúnar tillögur um það hvernig stjórnarskráin eigi að vera í smáatriðum. Til þess er verið að velja á stjórnlagaþingið. Það er þó ljóst að ég verð seint hlynnt núverandi stjórnarskrá og tel að skerpa eigi á þrígreiningunnni í nýrri stjórnarskrá. Þar vil ég sjá að framkvæmdavaldinu, þ.e. ríkisstjórninni verði hlíft við því að þurfa að skipa dómara sem hefur verið mjög gagnrýniverður þáttur stjórnsýslunnar á undanförnum árum.
Í fljótu bragði tel ég eðlilegast að dómstólaráð sem í dag kveður úr um hæfni dómara, velji þessa hina sömu dómara en að slíkt val skuli jafnframt vera háð samþykki meirihluta Alþingis.
fimmtudagur, nóvember 11, 2010
11. nóvember 2010 – Um skipan í dómstóla
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:00
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli