föstudagur, nóvember 12, 2010

12. nóvember 2010 - Um vald forseta Íslands

Þegar forseti Íslands neitaði að undirrita fjölmiðlalögin árið 2004 þótti mér það miður. Það var þörf á fjölmiðlalögum, en þáverandi valdhafar töldu sig þurfa að ná sér niður á ákveðnum einstaklingum sem hegðuðu sér ekki í samræmi við vilja valdhafanna, en forsetinn þurfti á sama hátt að þakka þessum sömu einstaklingum fyrir veittan stuðning við sig og ná sér niður á andstæðingum sínum sem sátu í ríkisstjórn.

Með því að aðhafast ekkert í breytingu á stjórnarskránni eftir höfnun forseta á fjölmiðlalögunum viðurkenndu þáverandi stjórnarherrar tilvist 26. greinar stjórnarskrárinnar. Það var miður. Nú hefur lítill stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi farið fram á það við forseta Íslands að hann skipi utanþingsstjórn, vald sem er honum er óheimilt nema með samþykki þeirrar ríkisstjórnar sem hann á að reka úr embætti.

Með óskinni um utanþingsstjórn er í reynd verið að óska þess að forsetaræðið verði fest í sessi enn frekar en orðið er og þá styttist leiðin enn frekar í áttina að fáræði fáeinna einstaklinga eða eins forseta. Þessi leið hugnast mér alls ekki og er mér frekar ógeðfelld. Ég held að ég vilji frekar flytja af landi brott en að sjá slíkt gerast á Íslandi á 21. öldinni. Hvað sem segja má um núverandi ríkisstjórn, hefur hún meirihluta Alþingis á bakvið sig og hlaut til þess meirihluta atkvæða í síðustu alþingiskosningum fyrir einu og hálfu ári síðan. Það er ekki hægt að segja sömu sögu um forseta Íslands sem fékk aðeins stuðning um 40% kosningabærra aðila í síðustu forsetakosningum árið 2004, þótt hann hafi vissulega hlotið yfirburðakosningu sé litið til greiddra atkvæða.

Ég er ekki viss um að afnema beri forsetaembættið. Margt er það sem forseti Íslands getur gert á meðan hann eða hún er sameiningartákn fyrir þjóðina, sameiningartákn með þeim hætti sem fyrri forsetar lögðu sig fram um að sinna af hógværð og virðingu.

Það má svo velta fyrir sér hvort það sé ekki frekar hlutverk forseta Alþingis að undirrita lög og stofna til stjórnarmyndanna!


0 ummæli:







Skrifa ummæli