föstudagur, nóvember 12, 2010

12. nóvember 2010 - Kostnaður við framboð

Um daginn var mér boðið að taka þátt í framboðskynningu á vegum Bleika hnefans, aðgerðarhóps róttækra kynvillinga, en Bleiki hnefinn er, ásamt Q, félagi hinsegin stúdenta og Trans-Íslandi helstu stuðningsaðilar mínir auk vina og fjölskyldu. Þegar ég kom á staðinn sá ég söfnunarbauka þar sem ætlast var til að fólk safnaði í púkkið vegna kostnaðar við framboð mitt. Þegar ég hafði lokið kynningu á framboði mínu óskaði ég þess að fólk gæfi frekar í framkvæmdasjóð Samtakanna 78 en í kosningasjóð mér til handa. Ástæðan væri einfaldlega sú að Samtökin 78 þar sem ég er gjaldkeri í stjórn, berjast í bökkum eftir verulegan niðurskurð á fjárframlögum frá opinberum aðilum og því eðlilegast að Samtökin 78 fái að njóta fjárframlaga á fundi sem haldinn er í salarkynnum Samtakanna.

Ég ber fulla virðingu fyrir því fólki sem telur sig þurfa á sérstakri kynningu að halda í tengslum við framboð til stjórnlagaþings. Fjöldi fólks er algjörlega óþekktur flestum og eðlilegt að þeir frambjóðendur sem telja sig vera í þeim hópi kynni sig, t.d. með einföldum kynningum í formi ódyrra auglýsinga. Ef frambjóðendur eyða milljón eða meira í auglýsingar fer maður að efast um heilindin og fer að velta fyrir sér hvaða sérhagsmunasamtök styðja við bakið á frambjóðandanum. Það er einu sinni svo að launin fyrir setu á stjórnlagaþingi eru einungis lélegt þingfararkaup sem er, ef ég man rétt, aðeins 520.000 krónur á mánuði fyrir skatta.

520.000 krónur er mjög áþekkt því sem ég hefi í laun í dag, að vísu með vaktaálagi, yfirvinnu, bakvöktum og fleiri sporslum. Það eru því ekki launin sem ég sækist í, einungis viljinn til að láta gott af mér leiða fyrir framtíð afkomenda minna og annarra Íslendinga framtíðarinnar.

Sjálf hefi ég ekki hugsað mér að eyða miklum peningum í framboð mitt. Það má vera að ég hræri í pönnukökur handa gestum mínum sem álpast í heimsókn og aldrei að vita nema ég lumi á glasi af rauðvíni eða bjór handa þeim hinum sömu hafi þeir áhuga fyrir slíku, en meira verður það ekki. Ef fólk hafnar mér vegna fortíðar minnar, verður svo að vera, en um leið fagna ég því ef hæstvirtir kjósendur minnast verka minna á jákvæðan hátt með því að skrifa númerið 9068 á kjörstað.

Um leið minnist ég ónefnds frambjóðanda sem bauð sig fram í prófkjöri fyrir nokkrum árum og eyddi til þess nærri tíu milljónum króna. Kjósendur höfnuðu honum!


0 ummæli:







Skrifa ummæli