mánudagur, júní 13, 2011

13. júní 2011 - Cyndi Lauper

Ég álpaðist á tónleika á sunnudagskvöldið. Þetta voru engir venjulegir tónleikar með Eagles eða Roger Waters, heldur var nú snillingurinn Cyndi Lauper komin til Íslands og söng fyrir mörlandann. Auðvitað mætti ég og átti sæti á fimmta bekk.

Ég viðurkenni að aldrei hefi ég komist jafnnær stórstjörnu og þetta kvöld í Hörpu þar sem Cyndi stóð upp á sætinu fyrir framan mig, söng fyrir fjöldann og ég beið þess að hún dytti í fangið á mér. Það varð aldrei af slíku því miður, en Cyndi var frábær.

Eftir þetta kvöld þakka ég enn og aftur fyrir að Harpa er risin. Um leið fagna ég stórhuga fólki sem nú er úthrópað sem glæpamenn fyrir að hafa stuðlað að byggingu Hörpu. Harpa er stórkostlegt stórhýsi umhverfis tónlistina og sem býður okkur hinum möguleika á að sjá og heyra listamenn á borð við Cyndi Lauper.

Hverjum hefði dottið til hugar að fyrrum kaffistofa Togaraafgreiðslunnar ætti eftir að verða að stórkostlegasta mannvirki Íslandssögunnar á 21. öld með hjálp Björgólfs Guðmundssonar?


0 ummæli:







Skrifa ummæli