laugardagur, nóvember 26, 2011

26. nóvember 2011 – Endurgerð gamalla húsa

Fyrir nokkru kom sú hugmynd fram hjá blaðafulltrúa Icelandair að byggja repliku af gamalli dómkirkju í Skálholti, væntanlega þeirri sem var í Skálholti á undan þeirri sem Brynjólfur biskup lét reisa árið 1650. Þegar er risin að nokkru Þorláksbúð sem Árni Johnsen og félagar standa fyrir við hlið núverandi Skálholtskirkju. Ef allir sem vilja reisa replikur af gömlum kofum sem voru í Skálholti í gegnum aldirnar mun brátt hætta að sjást í núverandi kirkju fyrir öllum eftirlíkingunum af gömlum kofum umhverfis hana. Þá má ekki gleyma að Baggalútsmenn vilja eitt stykki miðaldaflugvöll að Skálholti, en það strandar á því að þegar er einn miðaldaflugvöllur í miðborg Reykjavíkur sem menn reyna að ríghalda í þótt hann sé best geymdur annars staðar.

Í Reykjavík eru annars nokkur góð dæmi um eftirlíkingar gamalla húsa sem stóðu þar sem nýju húsin eru, hornið á Austurstræti og Lækjargötu og hluti Aðalstrætis. Einhverjir vildu kannski bæta húsunum við Laugaveg 4-6 á þennan lista, en þau hús eru sennilega dýrustu hús Reykjavíkur miðað við stærð og gagnið sem af þeim er.

Þetta er kannski framtíðin, bygging nýgamalla húsa. Ég sé í anda hús Eðvarðs Sigurðssonar formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar sem stóð við Suðurgötu og fjöldi torfbæja sem má gjarnan reisa í Reykjavík í stað steinkumbaldanna. Það væri nú ekki amalegt að hafa eins og einn torfbæ tómthúsmanns við Laugaveginn svo túrhestarnir geti virt fyrir sér húsfreyju af gamla skólanum tæma næturgagnið á hauginn á bakvið hús, kynnst reykmettuðu hlóðareldhúsinu og að sjálfsögðu yrðu ein eða tvær beljur látnar hita upp baðstofuna með nærveru sinni í stað nútíma hitaveitu. Að sjálfsögðu er hægt að gera meira, reisa eins og eitt braggahverfi í Reykjavík í virðingarskyni við minningarnar.

Húsið þar sem ég fæddist í Reykjavík var rifið í kringum 1970 og síðar byggður banki á lóðinni. Nú eru fleiri bankar komnir á lóðina meira og minna gjaldþrota. Er ekki kominn tími til að rífa eitthvað af þessum bönkum og byggja repliku af fæðingarstaðnum mínum í staðinn? Einnig get ég vel hugsað mér að ættaróðalið á Arnarhóli verði endurreist í stað styttunnar af einhverjum Ingólfi sem sagður var hafa verið fyrsti landnámsmaðurinn (Ég er víst af Arnarhólsætt ef skoðaðar eru gamlar Reykjavíkurættir).

Eða eigum við ekki bara að hætta að byggja eftirlíkingar af löngu horfnum húsum sem flest hver voru best geymd í minningunni og sum dæmi um ömurlega fátækt íslensku þjóðarinnar?

Þetta voru svona vangaveltur á laugardagskvöldi!


0 ummæli:







Skrifa ummæli