miðvikudagur, nóvember 23, 2011

23. nóvember 2011 - Rúblur


Ég álpaðist til að horfa á Kastljósið á Rúffinu í kvöld og sá þá viðtal við Ingimar Hauk Ingimarsson arkitekt sem tók þátt í að stofna bjórverksmiðju austur í Rússlandi og sem nú heldur því fram í sögu sinni að Björgólfsfeðgar hafi stolið verksmiðjunni af sér. Mér hefur enn ekki unnist tími til að lesa nýútkomna söguna og get því ekki tekið afstöðu til staðhæfinga hans að sinni. Læt öðrum um slíkt þótt ýmsar grunsemdir hafi vaknað með mér við áhorf Kastljóssins.

Annað vakti þó athygli mína við að horfa á Kastljósið en það var merki framleiðslunnar sem sýnt var í mynd, þ.e. ölflöskur merktar Boukarev (á rússnesku). Ég kannaðist strax við merkið á ölflöskunum, ekki fyrir það að hafa neytt þessa eðaldrykkjar í miklum mæli heldur sökum þess að ég fann einhverju sinni lítið grænt hulstur í póstkassanum heima hjá mér og var það merkt umræddri ölframleiðslu austur í Rússíá. Þetta var fáeinum dögum eftir að  íslenska efnahagskerfið hrundi og ég hafði séð ástæðu til að blogga um óðaverðbólgu.

Sá sem setti umrætt hulstur í póstkassann minn hefur enn ekki gefið sig fram og því má segja að málið sé enn óupplýst, en hulstrið er vel geymt í fjárhirslum mínum ásamt rúblunum.

http://velstyran.blogspot.com/2008/10/16-oktber-2008-rblur.html

http://velstyran.blogspot.com/2008/10/13-oktber-2008-hugleiingar-um-averblgu.html


0 ummæli:







Skrifa ummæli