Enn einu sinni hefur sérstakur saksóknari slegið til gegn útrásarvíkingum sem svo hafa verið kallaðir, framkvæmt húsleit hjá einhverjum og haldlagt gögn auk sem sem einhverjir hafa verið handteknir og teknir til yfirheyrslu.
Það eru komin full þrjú ár frá hruninu og embætti sérstaks saksóknara hefur verið til næstum allan þennan tíma, var sett á laggirnar í forsætisráðherratíð Geirs Haarde og Ólafur Þór Hauksson skipaður í embætti sérstaks saksóknara fyrir lok þeirra ríkisstjórnar. Síðan þá hefur ekkert skeð af viti, enginn þeirra sem rændu þjóðarauðnum hafa verið ákærðir né dæmdir, ENGINN! Til þess að friða almenning tekur hann einn og tvo, stingur þeim inn í tvo til þrjá daga og sleppir síðan lausum og svo skeður ekkert meira fyrr en almenningur fer að ókyrrast að nýju og þá er einn eða tveir teknir í yfirheyrslur og jafnvel látnir sofa í varðhaldi eina eða tvær nætur og síðan sleppt. Svo skeður ekkert meir.
Mál þeirra ræningja sem rændu þjóðina eru að fyrnast, engin ákæra hefur verið gefin út og enginn hefur verið dæmdur. Meðan á öllu þessu stendur minnkar traust mitt til sérstaks saksóknara. Það þýðir ekki lengur að kalla einn og einn til yfirheyrslu og láta sofa í fangaklefa yfir nótt. Það þarf aðgerðir og það þarf réttarhöld gegn gerendum hrunsins. Vonandi er hann ekki að svæfa málin með aðgerðarleysi sínu.
Því miður þarf sérstakur saksóknari að taka til hendinni og ljúka málum, ekki bara einu eða tveimur, áður en ég öðlast traust til hans á ný.
miðvikudagur, nóvember 30, 2011
30. nóvember 2011 - Embætti sérstaks saksóknara
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 17:59
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli