sunnudagur, desember 30, 2012

31. desember 2012 - Við áramót


Það þykir góður siður við áramót að horfa yfir farinn veg, læra af honum og reyna að gera betur næst. Ég hefi að sjálfsögðu reynt að gera svo í fjölda ára, en efndirnar vilja stundum fara á allt annan veg en ætla mætti. Reyndar var síðasta ár svo tíðindalítið hjá mér að það er lítið að læra og ég verð því að nota gamla reynslu og mistök til að læra af næsta ár.

Það var ákaflega fátt sem bar fyrir mig á síðasta ári. Ég fór þessar reglulegu gönguferðir tvisvar í viku ef vaktin hamlaði ekki för, reifst reyndar við nágranna í byrjun árs vegna snjómoksturs, en fljótlega náðist samkomulag á milli lóðafélaganna í neðri hluta Hraunbæjar svo málin leystust. Ég hætti svo í stjórn lóðafélagsins á aðalfundi í lok apríl og farið hefur fé betra.  Vafalaust eru nágrannar mínir enn að fagna.


Í febrúar tók ég við formennsku í Ættfræðifélaginu og er enn að naga mig í handarbökin fyrir að hafa tekist það verkefni á hendur. Ég hélt að það væri ekki mikið mál stjórna fundum og deila út verkefnum til strnarmanna, en það reyndist mikill misskilningur af minni hálfu. Heimasíðan komst þó í lag og tókst að halda uppi reglubundinni starfsemi en fátt annað. Það virðist sem að fólk með ættfræðiáhuga láti sér nægja Íslendingabók til að svala áhuga sínum og félögunum hélt áfram að fækka.


Eitthvað lítið fór fyrir pólitíkinni hjá mér. Ég mætti vissulega á fáeina félagsfundi í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík með sænskar kröfur um virkni félagsmanna að leiðarljósi og þar sem rukkað er um félagsgjöld, en fátt annað gerði ég á því sviði. Jú, eitthvað smávegis var ég til aðstoðar í flokksvalinu í haust, en fátt annað gerði ég markvert á því sviði. Kannski verður næsta ár meira spennandi.


Einu hjartans máli lauk á árinu, en það var frumvarpið um réttarstöðu transfólks sem varð að lögum 27. júní. Við samkomu af því tilefni í húsnæði Samtakanna 78 var mér færð dýrindis whiskýflaska sem ég fór með heim og drakk með bestu lyst, reyndar ekki sama kvöld, en mjög fljótlega. Þá var mér veitt mannréttindaviðurkenning Samtakanna 78 ásamt gullmerki samtakanna á opnunarhátíð Hinsegin daga í ágúst. Ekki var hægt að drekka þær viðurkenningar og því á ég hvorutveggja ennþá og á áberandi stað í stofunni  þar sem allir mega sjá.


Þegar kom fram á haustið og allar aukatekjuáætlanir höfðu brugðist ætlaði ég að sleppa því að mæta á  4. þing og aðalfund Transgender Europe sem haldið var í Dublin á Írlandi. Ónei, ekki tókst það. Sem fráfarandi skoðunarmaður reikninga í samtökunum þurfti ég að mæta og gera grein fyrir því af hverju ég neitaði að samþykkja reikninga samtakanna og vildi láta senda þá til löggilts endurskoðanda. Það kom ekki til af góðu því velta samtakanna hafði vaxið úr örfáum evrum á ári í 300.000 evrur á þessum fjórum árum frá því ég hætti í stjórninni og tók að mér að yfirfara reikningana. Enn eitt dæmið um það hve gott er að losna við mig úr stjórnum félaga, enda hætti ég sem skoðunarmaður reikninga á aðalfundinum.  Ég fór svo aftur til útlanda mánuði síðar, en þá á málþing um fordóma og einelti gagnvart transfólki á vinnustöðum sem haldið var í Hollandi. Ég hélt að það væri ekki mikið mál að fá styrk til slíkrar ferðar enda hefur einelti verið talsvert í umræðunni á Íslandi síðasta árið og sendi styrkbeiðnir í allar áttir. Ónei, einelti hefur aldrei verið hjá mér sögðu allir og ég þurfti að bera allan  kostnaðinn sjálf eins og venjulega. Reyndar viðurkenni ég að ég sótti ekki um styrk til umboðsaðila Philips á Íslandi en Philips verksmiðjurnar styrktu sjálft málþingið.


Um setu mína í Siglingaráði fer færri sögum, en einungis þrír fundir voru haldnir á árinu 2012. Á síðasta fundinum mátti loks eygja árangur af hjartans máli Hilmars Snorrasonar sem er útgáfa löglegra íslenskra sjóferðabóka, en það virtist ganga illa þar til málið var gert opinbert og komið á borð fjölmiðla sem gripu málið fegins hendi og gerðu sér mat úr því.


Eins og gefur að skilja varð lítið úr öðrum verkum hjá mér á árinu. Einungis ein löng gönguferð var farin á árinu og það var Selvogsgatan sem ég fór með einum vinnufélaga og vini hans. Reglubundnum gönguferðum um Elliðaárdalinn fór verulega fækkandi þegar leið á árið enda alltof mörgum stundum eytt í Ættfræðifélagið og önnur félagsmálaverkefni. Því kjaga ég nú í spikinu og veit alveg hvað ég þarf að gefa af nýársheitum á morgun.


Af öðrum málefnum er ekkert að frétta. Engin ný barnabörn fæddust á árinu. Einn móðurbróðir minn dó og því er einungis einn eftir af þeirri kynslóð frændfólks míns. Eitthvað var um veikindi en ég tók mér þó einungis einn dag í rúminu vegna ælupestar.

Ég lofa því að næsta ár verður betra.

30. desember 2012 - Allt þetta andans fólk


Hvað skyldu Tiger Woods, Patti Smith, Bjarni Thorarensen, Tracey Ullman og Adda Bára Sigfúsdóttir eiga sameiginlegt með mér. Það er stóra spurningin. Ekki spila ég golf og ekki er ég góð að spá í veðrið. Þá syngja bæði Tracey Ullman og Patti Smith miklu betur en ég. Bjarni Thorarensen var af þessari kúgandi yfirstétt sem ég er svo sannarlega ekki og hugsa hlýtt til áa minna sem voru kúguð mann fram af manni af íslenskum embættismönnum, stórbændum og kóngasleikjum.

Ekki veit ég mikið um pólitískar skoðanir sumra ofantaldra, en bendi á að Adda Bára Sigfúsdóttir greiðir árgjaldið sitt til Samfylkingarfélagsins í Reykjavík með glöðu geði og rétt eins og ég og ég vil trúa því að Patti Smith sé sömuleiðis vinstrisinnuð og friðarsinni. Ég veit ekkert um hin, en af frásögnum að dæma hafa bæði Tiger og Bjarni átt í erfiðleikum í samskiptum sínum við hitt kynið.

Sjálf fór ég mína leið sem ekkert hinna fór og á mér því sögu sem ekkert hinna getur státað af. Þó eigum við öll eitthvað sameiginlegt sem við getum öll verið stolt af sem er .......  .

laugardagur, desember 29, 2012

29. desember 2012 - Gjaldþrota fyrirtæki og einstaklingar


Á dögunum birtist frásögn af manni sem stundaði að fara reglulega á hausinn og taka síðan upp nýja kennitölu. Þetta gerði hann að sögn til að verða samkeppnishæfur við stóru innflytjendurna. Með því að fara reglulega á hausinn komst hann hjá því að greiða ríkinu það sem því bar og þannig tókst honum að selja vörurnar ódýrari og allir græddu nema auðvitað samkeppnisaðilarnir og ríkið.

Ég varð nokkuð hugsi við þetta.  Af hverju er þessi maður ekki kominn í fangelsi? Ef fyrirtækið mitt verður gjaldþrota, slepp ég þá við að greiða ríkinu vörsluskatta eins og virðisaukaskattinn?  Ég spurði lögfræðing sem er ekki sérfræðingur í gjaldþrotameðferðum. Sá taldi svo vera, að ef einhver verður gjaldþrota, fer með vörsluféð eins og aðrar forgangskröfur í búinu.

Með þessu er ég ekki að tala um fyrirtæki og einstaklinga sem verða gjaldþrota vegna þess að eitthvað brást í rekstrinum, tekjurnar urðu minni en ætla mátti eða vegna fjárfestinga sem ekki skiluðu tilætluðum arði, standa skil á sínu á meðan þess er nokkur kostur og skila vörslufénu þangað sem það á heima.

Í réttarríkjum er vörslufé eins og virðisaukaskattur eign ríkisins, ekki fyrirtækisins sem innheimtir hann fyrir hönd ríkisins. Því ber að innheimta hann hvort sem fyrirtækið fer á hausinn eða ekki. Ef peningarnir eru ekki til staðar við gjaldþrot telst stjórnandi fyrirtækisins vera þjófur og fer í fangelsi enda hefur hann þá eytt fjármunum sem hann átti aldrei.

En það má deila um það hvort  Ísland teljist réttarríki ef þessari reglu er ekki framfylgt svo ekki sé talað um nýlega og ótrúlega væga dóma gagnvart forystumönnum Glitnis og þar áður gagnvart fyrrum innherja í Landsbankanum sem seldi öll bréfin sín rétt fyrir hrun.

Ég ætla samt að bíða með að tala um banalýðveldi.


föstudagur, desember 28, 2012

28. desember 2012 - Virk eða fölsk félagsaðild?


Árið 2005 tók ég þátt í stofnun samtaka úti í Evrópu. Fyrstu þrjú árin sat ég í stjórn og stjórnarfundirnir fóru í að byggja upp innviði samtakanna og ákveða hvernig standa skyldi að félagsaðild félagsgjöldum og hversu víðtækt samtökin skyldu starfa. Þau áttu enga peninga, einungis þessar örfáu evrur sem runnu inn í formi félagsgjalda og dugðu vart fyrir meiru en bankakostnaði. Allar ferðir sem ég þurfti að takast á hendur vegna starfa minna fyrir samtökin voru greiddar úr eigin vasa. Um svipað leyti og ég hætti í stjórninni og varð skoðunarmaður reikninga fyrir samtökin fóru peningar að streyma inn, meðlimum jafnt og aðildarfélögum fjölgaði verulega, en auk þess fengu samtökin styrki til starfseminnar frá ríkisstjórnum, Evrópusambandinu og mannréttindasamtökum um allan heim enda ná verkefni samtakanna um allan heim þótt þau séu enn miðuð við Evrópu í grunninn.

Þótt við reyndum að hafa áhrif á ríkisstjórnir um allan heim til hagsbóta fyrir transfólk voru aðalfundir og kosningar um innri málefni samtakanna þó áfram miðaðir við félagsgjöld. Til að fá að greiða atkvæði á aðalfundum samtakanna þurftu félagsmenn að vera skuldlausir og að hafa greitt félagsgjöld árins og sama gilti um aðildarfélögin. Þau þurftu að vera skuldlaus og hafa greitt árgjaldið. Á aðalfundi fáum við ekki atkvæðaseðla nema að hafa reitt fram árgjaldið.  Þetta breytir engu um að við vinnum til hagsbóta fyrir transfólk um allan heim, höldum skrá yfir umbætur í málefnum transfólks í öllum ríkjum og reynum að minna á mannréttindabrot gagnvart transfólki hvort heldur er í Rússlandi eða í Venezuela.

Ég er meðlimur í nokkrum öðrum félögum, verkalýðsfélaginu, Félagi frímerkjasafnara, Samtökum hernaðarandstæðinga, Ættfræðifélaginu, Amnesty International, Trans-Ísland og Samtökunum 78. Í öllum þessum félögum er gerð sú lýðræðislega krafa að greidd séu félagsgjöld. Félagsgjöldin veita mér rétt til að vera virkur félagi, taka þátt í stjórnarkjörum og öðru starfi félaganna, en þau leggja mér líka á herðar þær skyldur að hlýða samþykktum félagsins og að taka þátt í starfinu að svo miklu leyti sem mér er unnt, en umfram allt veita félagsgjöldin mér rétt til að taka þátt í stefnumótun félaganna.

Að vera félagi án félagsgjalda er fölsk félagsaðild. Þess vegna er ég einnig stoltur og greiðandi félagi í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík og þar með Samfylkingunni. Ég tek þátt í starfinu eins og mér er unnt og mun taka þátt í formannskjöri Samfylkingarinnar í janúar næstkomandi. Að sjálfsögðu á einnig að gera sömu kröfu til annarra virkra félaga í Samfylkingunni.


P.s. Til að gerast medlimur í Socialdemokraterna i Svíþjóð þarf að byrja á að greiða inngöngugjald sem er 100 sænskar krónur (2000 íslenskar krónur) og það er um leið fyrsta árs gjaldið, en síðan hækkar það í samræmi við gjöld viðkomandi svæðafélags, en það geta verið frá 150 krónum upp í 300 krónur á ári. (í Linköping 250 kr)


fimmtudagur, desember 27, 2012

27. desember 2012 - Hundrað milljónir

Hundrað milljónir eru miklir peningar. Ég væri mörg ár að safna hundrað milljónum þótt ég legði hverja einustu krónu fyrir á verðtryggðum bankareikningi. Hundrað milljónir gætu gert kraftaverk ef þær væru notaðar til mannúðarstarfa. Samt eru hundrað milljónir svo lítið fé í stórframkvæmdum.


Það var rætt um að reisa nýja og mannhelda girðingu utan um  fangelsið að Litla-Hrauni austur á Eyrarbakka í Árborgarhreppi. Girðingin átti að kosta 160 milljónir en fyrir þá peninga væri hægt að halda úti fleiri manns á vakt um girðinguna allan sólarhringinn í fleiri ár. Já, eða kaupa átta íbúðir í blokk af þeirri gerð sem ég hefi til umráða og telst í eigu minni.

Fyrir hundrað milljónir væri hægt að kaupa fimm íbúðir í blokk af þeirri gerð sem ég á heima í, átta nýja  gæðajeppa af þeirri gerð og ég keyri á eða tuttugu til þrjátíu smábíla. Þá má ekki gleyma ótölulegum fjölda flatskjáa eða tölva.

Ef mig langar til að bora eftir heitu vatni fyrir bæjarfélag úti á landi myndu hundrað milljónirnar duga skammt, myndu vart duga fyrir meiru en undirbúningskostnaði og í sjávarútvegi fengi ég þokkalega trillu fyrir peningana. Þá myndu hundrað milljónirnar varla duga fyrir meiru en teikningum að byggingu stórhýsis.

Ákveðið hefur verið að leggja fram hundrað milljónir til að breyta Perlunni svo hún henti fyrir náttúrugripasýningu. Hundrað milljónir! Er verið að gera grín að okkur? Bara girðingin utan um fangana á Litla-Hrauni kostar 160 milljónir. Nú á að smíða milligólf í Perluna fyrir verulega minni upphæð. Hundrað milljónir duga varla til að laga einangrunina  utan um hitaveitutankana svo  hún henti sýningunni, hvað þá breytingin öll.

Hvenær ætla valdamenn þjóðarinnar að læra að gera raunhæfar áætlanir þar sem ekki er verið að blekkja fólk? Upphæðin, hundrað milljónir í breytingarnar eru hreinn blekkingarleikur til að hefja verkið. Þegar framkvæmdin verður svo komin af stað og peningarnir búnir verður ekki hægt að hætta við og þá mun þurfa fimm hundruð milljónir til viðbótar til að halda áfram við verkið og einhverjar hundruðir milljóna að auki til ljúka verkinu.

Þótt hundrað milljónir séu miklir peningar fyrir fátækt fólk eru þeir smámunir í svona blekkingaleik sem nú á að stofna til svo hægt verði að koma náttúrugripasafni fyrir í hitaveitutönkunum í Perlunni.

mánudagur, desember 24, 2012

24. desember 2012 - Að gera vel við starfsfólk á jólum

Það var einhverntímann seint á sjöunda áratugnum að gamall síðutogari frá Reykjavík hélt til veiða fyrir miðjan desember. Yfirmatsveinninn var ungur maður sem hafði lítt sem ekkert verið til sjós áður og hann var ekki lengi að vinna sér inn prik hjá áhöfninni, veisla upp á hvern dag og ýmislegt góðgæti fann hann í geymslunum til að gleðja strákana. Túrinn átti að vera eins og algengt var á þessum tíma, tvær vikur á fiskiríi með möguleika á siglingu með aflann. Þegar kom að jólum var allt kjötmeti búið um borð og á aðfangadagskvöld jóla neyddist matsveinninn til að bjóða áhöfninni upp á fisk steiktan í raspi og sömuleiðis var ekkert annað í matinn á jóladag en fiskur. Á öðrum degi jóla keyrði skipstjórinn í land, lét setja matsveininn í land og óskaði eftir nýjum.

Það er ekki erfitt að skilja ástæðuna. Menn vilja fá veislu á jólum og áramótum, en eyða ekki veislukostinum á öðrum dögum. Þetta gildir jafnt til sjós og í landi þar sem fólk er að vinna um jól og áramót eins og vaktavinnufólk. Þannig efa ég ekki að gert hafi verið vel við vaktavinnufólk hjá lögreglu og slökkviliði, á sjúkrahúsum og annars staðar þar sem fólk þarf að vinna á vöktum á aðfangadagskvöld jóla án samneytis við fjölskyldu sína. Sjálf man ég vel veislurnar sem boðið var upp á þar sem ég vann í orkuveri í Stokkhólmi í Svíþjóð í vaktavinnu. Rafmagnsveitan gerði einnig vel við sitt vaktavinnufólk sem og Orkuveitan fyrsta áratuginn eftir sameiningu veitufyrirtækjanna á höfuðborgarsvæðinu.

Í dag hringdi ég í vinnufélaga minn sem var á dagvaktinni til heyra hjá honum hvaða veisluföng væru í boði fyrir vaktina. Í framhaldinu ákvað ég að taka með mér nesti að heiman á tólf tíma næturvaktina á aðfangadagskvöld jóla.

mánudagur, desember 10, 2012

10. desember 2012 - Jólalög


Stundum læt ég eins og að ég viti ekkert um tónlist, veit reyndar mjög lítið en jólalögin hafa þó ávallt átt sinn sess í tilfinningum mínum. Þegar ég horfi til baka í tíma verða ekki mörg jólalögin sem standa uppúr í minningunni, en auk jólasálmanna eru það helst Siggi á síðum buxum og Solla á bláum kjól með Hauki Mortens sem standa uppúr. Einhverju sinni gaf Dómkirkjukórinn út hljómplötu með jólasálmum og ég notaði tækifærið og flutti tónlistina yfir á snældu sem ég hafði með mér út á sjó og spilaði gjarnan í borðsalnum meðan jólamáltíðin var snædd einhversstaðar úti í hafi fjarri ástvinum. Þetta var hinsvegar tónlist af því tagi sem maður spilar aðeins á jólum og aldrei annars.

Haustið 1984 var ég að þvælast í Transatlantic siglingum á honum Laxfossi og við komum til Port Elizabeth í NJ í Bandaríkjunum. Ég skrapp í bæinn og náði í nýja snældu með jólalögum sungnum af þeim skötuhjúum Kenny Rogers og Dolly Parton. Þessi snælda bjargaði geðheilsunni þau jólin þar sem við vorum í brælu út af ströndum Kanada. Hún hefur margsinnis verið spiluð fyrir hver jól hjá mér eftir þetta og raunar alveg furðulegt að hún skuli enn vera í lagi eftir 28 ár. Að vísu eignaðist ég disk með sama efni fyrir fáeinum árum sem fær að hljóma mun oftar en snældan, en snældan er samt betri og munar þer mestu að með geisladiskaútgáfunni var Heims um ból fellt út og eitthvað guðlaust einsöngslag með Dollý Parton komið í staðinn. Síðar komu Borgardætur með sinn frábæra jóladisk og þetta tvennt fær að hljóma hjá mér í hvert sinn sem ég set disk undir geislann í desember. Ég heyri eitt og eitt gott jólalag auk þeirra sem áður er getið, en því miður er megnið af þeim jólalögum sem ég heyri slíkt rusl að ég kvíði því að heyra þau aftur. Þar má nefna jólalög eins og Jól alla daga og Hjólajól og eitt sem ég heyrði um daginn með einhverjum söngkvennakór og í textanum var sífellt tönnlast á að „jólin skella á“.

Má ég þá heldur fara með Skafta Ólafssyni í sleðaferð.

Sem gamall sjómaður er lagið Í friði og ró með hljómsveitinni Roðlaust og beinlaust samt eitt af mínum uppáhalds því það segir allt sem segja þarf um kostina við sjómennskuna og segir sögu sem verður að segja varlega opinberlega.