Á dögunum birtist frásögn af manni sem stundaði að fara reglulega á hausinn og
taka síðan upp nýja kennitölu. Þetta gerði hann að sögn til að verða
samkeppnishæfur við stóru innflytjendurna. Með því að fara reglulega á hausinn
komst hann hjá því að greiða ríkinu það sem því bar og þannig tókst honum að
selja vörurnar ódýrari og allir græddu nema auðvitað samkeppnisaðilarnir og
ríkið.
Ég varð nokkuð hugsi við þetta. Af
hverju er þessi maður ekki kominn í fangelsi? Ef fyrirtækið mitt verður
gjaldþrota, slepp ég þá við að greiða ríkinu vörsluskatta eins og virðisaukaskattinn?
Ég spurði lögfræðing sem er ekki
sérfræðingur í gjaldþrotameðferðum. Sá taldi svo vera, að ef einhver verður
gjaldþrota, fer með vörsluféð eins og aðrar forgangskröfur í búinu.
Með þessu er ég ekki að tala um fyrirtæki og einstaklinga sem verða gjaldþrota
vegna þess að eitthvað brást í rekstrinum, tekjurnar urðu minni en ætla mátti
eða vegna fjárfestinga sem ekki skiluðu tilætluðum arði, standa skil á sínu á
meðan þess er nokkur kostur og skila vörslufénu þangað sem það á heima.
Í réttarríkjum er vörslufé eins og virðisaukaskattur eign ríkisins, ekki
fyrirtækisins sem innheimtir hann fyrir hönd ríkisins. Því ber að innheimta
hann hvort sem fyrirtækið fer á hausinn eða ekki. Ef peningarnir eru ekki til
staðar við gjaldþrot telst stjórnandi fyrirtækisins vera þjófur og fer í
fangelsi enda hefur hann þá eytt fjármunum sem hann átti aldrei.
En það má deila um það hvort Ísland
teljist réttarríki ef þessari reglu er ekki framfylgt svo ekki sé talað um
nýlega og ótrúlega væga dóma gagnvart forystumönnum Glitnis og þar áður
gagnvart fyrrum innherja í Landsbankanum sem seldi öll bréfin sín rétt fyrir
hrun.
Ég ætla samt að bíða með að tala um banalýðveldi.
laugardagur, desember 29, 2012
29. desember 2012 - Gjaldþrota fyrirtæki og einstaklingar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 15:59
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli