Það var einhverntímann seint á sjöunda áratugnum að gamall síðutogari frá Reykjavík hélt til veiða fyrir miðjan desember. Yfirmatsveinninn var ungur maður sem hafði lítt sem ekkert verið til sjós áður og hann var ekki lengi að vinna sér inn prik hjá áhöfninni, veisla upp á hvern dag og ýmislegt góðgæti fann hann í geymslunum til að gleðja strákana. Túrinn átti að vera eins og algengt var á þessum tíma, tvær vikur á fiskiríi með möguleika á siglingu með aflann. Þegar kom að jólum var allt kjötmeti búið um borð og á aðfangadagskvöld jóla neyddist matsveinninn til að bjóða áhöfninni upp á fisk steiktan í raspi og sömuleiðis var ekkert annað í matinn á jóladag en fiskur. Á öðrum degi jóla keyrði skipstjórinn í land, lét setja matsveininn í land og óskaði eftir nýjum.
Það er ekki erfitt að skilja ástæðuna. Menn vilja fá veislu á jólum og áramótum, en eyða ekki veislukostinum á öðrum dögum. Þetta gildir jafnt til sjós og í landi þar sem fólk er að vinna um jól og áramót eins og vaktavinnufólk. Þannig efa ég ekki að gert hafi verið vel við vaktavinnufólk hjá lögreglu og slökkviliði, á sjúkrahúsum og annars staðar þar sem fólk þarf að vinna á vöktum á aðfangadagskvöld jóla án samneytis við fjölskyldu sína. Sjálf man ég vel veislurnar sem boðið var upp á þar sem ég vann í orkuveri í Stokkhólmi í Svíþjóð í vaktavinnu. Rafmagnsveitan gerði einnig vel við sitt vaktavinnufólk sem og Orkuveitan fyrsta áratuginn eftir sameiningu veitufyrirtækjanna á höfuðborgarsvæðinu.
Í dag hringdi ég í vinnufélaga minn sem var á dagvaktinni til heyra hjá honum hvaða veisluföng væru í boði fyrir vaktina. Í framhaldinu ákvað ég að taka með mér nesti að heiman á tólf tíma næturvaktina á aðfangadagskvöld jóla.
mánudagur, desember 24, 2012
24. desember 2012 - Að gera vel við starfsfólk á jólum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 20:44
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli