Það var fyrir rúmum áratug eða um svipað leyti og Orkuveita
Reykjavíkur flutti í nýju aðalstöðvarnar við Bæjarháls að Karl Karlsson,
vélfræðingur í stjórnstöð Orkuveitunnar og áður Hitaveitunnar allt frá því um
miðjan áttunda áratug síðustu aldar gekk á fund stjórnenda lífeyrissjóðsins sem reiknuðu út fyrir Karli hvað hann fengi í eftirlaun ef hann hætti að vinna
við 67 ára aldur. Karl sá að hann gæti lifað góðu lífi með þessi eftirlaun,
sagði upp og hætti 30 apríl 2003.
Það er ekki nóg að einhver hætti að vinna, það verður að vinna verkin áfram, ég
sótti um starf Karls og byrjaði formlega í stjórnstöðinni 1. maí 2003. Ég var
ekkert óvön starfinu, hafði leyst af reglulega á vöktunum frá því 1997 á milli
þess að vera í vinnu úti á vettvangi og í borholueftirliti og því flestum
hnútum kunnug á hitaveituvöktunum. Það var því einfaldast að ég fengi starf
Karls þar sem ekki þurfti að þjálfa nýjan starfsmann til verka sem talið er geta
tekið fleiri mánuði áður en viðkomandi telst fullfær um að vera einn á vöktum.
Síðan eru liðin tíu ár og enn hangi ég á vöktunum eins og Fúll á móti, ávallt
kvartandi og kveinandi í hvert sinn sem einhver breyting verður eða nýjum
verkefnum bætt á stjórnstöðina. Einhver verður líka að vera Fúll á móti og því
ekki ég sem hefi nú starfað lengst samfellt í stjórnstöðinni af þeim sem þar starfa þótt
hvorki sé ég með mesta starfsreynslu hjá Hitaveitunni/Orkuveitunni né elst í
árum.
Það hafa líka verið miklar breytingar á starfinu á þessum áratug. Frá því ég byrjaði
hjá Hitaveitunni og þar til ég fékk fast starf í stjórnstöðinni hafði smám
saman verið bætt við verkefnum því auk heitavatnsframleiðslu frá hitaveitusvæðum í
Reykjavík, Mosfellssveit og Nesjavöllum, hafði rafmagnsframleiðsla bæst við á
Nesjavöllum og síðan eftirlit með kerfum Vatnsveitunnar.
Í dag erum við með fjargæslu á hitaveitukerfum allt frá Hvolsvelli til
Stykkishólms þó að Suðurnesjum og Árborg undanskildum, vatnsveitum á mörgum þessara
sömu svæða, fráveitu á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi og gæslu tveggja
stórra orkuvera, á Nesjavöllum og Hellisheiði. Auk þessa eru rafdreifikerfi á
höfuðborgarsvæðinu og Akranesi vöktuð frá stjórnstöð en þau eru ekki í höndum
okkar vélfræðinganna heldur sérfræðinga í rafdreifikerfum. Þá höfum við verið með svo gott vaktkerfi
síðan 2006 að við getum auðveldlega séð hverjir verða á vaktinni um jólin 2016
og gert ráðstafanir vegna sumarleyfa eða einstöku viðburða mörg ár fram í tímann.
Á þessum tíu árum hefur vissulega ýmislegt gengið á, alvarlegar bilanir, minni
uppákomur og eitt og eitt óhapp, en með því að sömu sex persónurnar sinna
störfum í stjórnstöð vatns ár eftir ár hefur tekist að halda uppákomum, óhöppum
og kostnaði í lágmarki til stórsparnaðar fyrir viðskiptavini Orkuveitunnar.
Karl vinur minn Karlsson hefur nú notið tíu ára á eftirlaunum, orðinn
ekkjumaður og farinn að hægja á sér enda orðinn 77 ára gamall. Megi hann njóta
elliáranna sem lengst og best. Vonandi
verð ég jafnhress er ég fer á eftirlaun eftir innan við áratug og Kalli var er
hann hætti.
þriðjudagur, apríl 30, 2013
30. apríl 2013 - Tíu ár
sunnudagur, apríl 28, 2013
28. apríl 2013 - Að afloknum kosningum
Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með að ég var mjög óánægð með
kosningaúrslitin 27. apríl. Þrátt fyrir margt gott sem fráfarandi
ríkisstjórn hafði komið til leiðar tókst henni ekki að kynna það nægilega vel fyrir
þjóðinni auk þess sem nokkur stór mál voru enn óútkljáð sem drógu verulega úr
fylginu við ríkisstjórnarflokkana þá fyrst og fremst Samfylkinguna. Þar fer stjórnarskrármálið fremst sem glutraðist niður
í óheppilegu orðalagi formannsins einungis mánuði eftir að hann hafði tekið við
formennskunni og skapaði þannig grundvöll fyrir enn einu nýju framboði sem kom
engum manni á þing. Formaðurinn verður sjálfur að bera ábyrgð á orðum sínum og
fylgishruninu sem varð í kjölfar orða hans.
Annars fór ég að velta fyrir mér orðum hinna ýmsu forystumanna smáframboðanna
og kvörtunum þeirra yfir 5% markinu til að koma manni á þing. Það var vissulega
heilmikið til í þeim orðum þeirra að 5% markið er erfiður hjalli að klífa, en
um leið má velta því fyrir sér hver staðan hefði verið ef þessi þröskuldur
hefði verið afnuminn. Ég fór að skoða tölurnar miðað við að landið hefði allt
verið eitt kjördæmi og án 5% marksins. Þá hefði málið litið aðeins öðruvísi út.
Sjálfstæðisflokkur hefði þá fengið 18 þingmenn, Framsóknarflokkur 16 þingmenn,
Samfylking 8 þingmenn, VG sjö þingmenn, Björt framtíð 5 þingmenn og „Píratar“ 3
þingmenn. þá hefði Dögun fengið tvo þingmenn, Flokkur heimilanna tvo þingmenn, en
Lýðræðisvaktin og Hægri grænir einn þingmann hvor. Með öðrum orðum, þingmennirnir
hefðu skipst í tíu flokka í stað sex eins og nú er. Slíkt hefði boðið heim
möguleikanum á mörgum einstaklingsframboðum af sama tagi og Sturla Jónsson
reyndi að stofna. Við slíkar aðstæður er ástæða til að hugsa til þeirra
aðstæðna sem voru á tímum Weimar lýðveldisins í Þýskalandi á millistríðsárunum þar
sem margir tugir smáflokka reyndu að koma sér á framfæri, mörgum tókst en að
lokum hrundi Weimar lýðveldið með yfirtöku harðstjórnar nasista.
Það er enginn vafi að ástæða er til að fara í naflaskoðun að afloknum
kosningum. Það þarf að skoða innviðina, félagaskrána, félagsgjöldin, læra af
því sem miður fór og efla baráttuandann. Ég er viss um að fjöldi stuðningsmanna
Bjartrar framtíðar og Lýðræðisvaktarinnar eru á félagaskrá Samfylkingarinnar og
margir þeirra hafa vafalaust tekið þátt í að móta stefnu Samfylkingarinnar og
velja fólk til forystu í vetur til góðs eða ills eftir því hvernig á það er
litið. En umfram allt er ljóst að það er kominn tími til að setjast niður og
tala saman og skoða hvernig hægt er að gera betur.
miðvikudagur, apríl 10, 2013
10. apríl 2013 - Burt með draslið
Um daginn var vitnað í bókina Burt með draslið á Facebooksíðu bókaútgáfunnar
Sölku. Upp fyrir mér rifjaðist að ég hafði eignast bókina fyrir fáeinum árum.
Ég hafði flett í gegnum hana og lagt hana frá mér og búmms, hún var horfin í draslið
á heimilinu. Síðan eru liðin nokkur ár sem fyrr segir og ég hefi ekkert saknað
hennar fyrr en nú.
Eftir áminninguna á Facebook fór ég að athuga hvort ég fyndi bókina heima og
mikið rétt. Það tók mig einungis skamman tíma að finna hana þar sem hún var í
þriðju skúffu að ofan í hillusamstæðunni sem ég hafði fengið eftir andlát
foreldranna, einmitt í skúffunni sem átti að geyma drasl sem ég tímdi ekki að
henda og þar fann ég í sama vettvangi talsvert af gögnum sem ég taldi mig hafa
glatað eða gleymt. Lagði síðan bókina frá mér á stofuborð þar sem hún yrði
örugglega fyrir augum mínum næst þegar næði gæfist.
Um hádegið í dag kom slíkt næði. Ég hafði lokið helstu morgunverkum á heimilinu
og lagað hádegismat fyrir mig og kettina og ákvað síðan að kíkja í bókina. Ég
hafði ekki lesið margar blaðsíður þegar ég kom að kafla sem setti mig út af
laginu:
Skjalasafnið
á borðstofuborðinu
Áður en ég hvarf frá draslaralífi mínu montaði ég mig af því að við værum
afslöppuð fjölskylda sem vildi frekar borða óformlegar máltíðir í eldhúsinu en
í borðstofunni. Sannleikurinn var sá að á borðstofuborðinu voru svo háir
staflar af pappírum, bókum og dóti að það hefði tekið mig óratíma að tæma það. (tilvitnun lýkur)
Ég leit í áttina að borðstofunni. Eins og venjulega var borðstofuborðið
yfirfullt af pappírum, bókum og allskyns dóti sem ég hafði ekki komið í verk að
ganga frá. Ég leit til baka á diskinn sem ég hafði nýlega lokið við að borða af
á litla stofuborðinu og ég gaf mér ekki tíma til að halda áfram að lesa í
bókinni.
Nokkrum klukkutímum síðar hafði mér tekist að ganga frá öllum pappírum sem
höfðu verið á borðstofuborðinu, gengið frá uppþvottinum inni í skáp, hreinsað
eldavélina svo að hún skein af hreinlæti, hreinsað gufugleypirinn að utan og
innan og þrifið eitthvað af hillum og skápum í eldhúsinu og var þó talsvert
eftir enn í eldhúsi og borðstofu er ég þurfti að fara á vaktina.
Mig grunar að ég muni hafa nóg að gera næstu dagana auk þess að lesa betur í
þessari merkilegu bók.