Það var fyrir rúmum áratug eða um svipað leyti og Orkuveita
Reykjavíkur flutti í nýju aðalstöðvarnar við Bæjarháls að Karl Karlsson,
vélfræðingur í stjórnstöð Orkuveitunnar og áður Hitaveitunnar allt frá því um
miðjan áttunda áratug síðustu aldar gekk á fund stjórnenda lífeyrissjóðsins sem reiknuðu út fyrir Karli hvað hann fengi í eftirlaun ef hann hætti að vinna
við 67 ára aldur. Karl sá að hann gæti lifað góðu lífi með þessi eftirlaun,
sagði upp og hætti 30 apríl 2003.
Það er ekki nóg að einhver hætti að vinna, það verður að vinna verkin áfram, ég
sótti um starf Karls og byrjaði formlega í stjórnstöðinni 1. maí 2003. Ég var
ekkert óvön starfinu, hafði leyst af reglulega á vöktunum frá því 1997 á milli
þess að vera í vinnu úti á vettvangi og í borholueftirliti og því flestum
hnútum kunnug á hitaveituvöktunum. Það var því einfaldast að ég fengi starf
Karls þar sem ekki þurfti að þjálfa nýjan starfsmann til verka sem talið er geta
tekið fleiri mánuði áður en viðkomandi telst fullfær um að vera einn á vöktum.
Síðan eru liðin tíu ár og enn hangi ég á vöktunum eins og Fúll á móti, ávallt
kvartandi og kveinandi í hvert sinn sem einhver breyting verður eða nýjum
verkefnum bætt á stjórnstöðina. Einhver verður líka að vera Fúll á móti og því
ekki ég sem hefi nú starfað lengst samfellt í stjórnstöðinni af þeim sem þar starfa þótt
hvorki sé ég með mesta starfsreynslu hjá Hitaveitunni/Orkuveitunni né elst í
árum.
Það hafa líka verið miklar breytingar á starfinu á þessum áratug. Frá því ég byrjaði
hjá Hitaveitunni og þar til ég fékk fast starf í stjórnstöðinni hafði smám
saman verið bætt við verkefnum því auk heitavatnsframleiðslu frá hitaveitusvæðum í
Reykjavík, Mosfellssveit og Nesjavöllum, hafði rafmagnsframleiðsla bæst við á
Nesjavöllum og síðan eftirlit með kerfum Vatnsveitunnar.
Í dag erum við með fjargæslu á hitaveitukerfum allt frá Hvolsvelli til
Stykkishólms þó að Suðurnesjum og Árborg undanskildum, vatnsveitum á mörgum þessara
sömu svæða, fráveitu á höfuðborgarsvæðinu og á Vesturlandi og gæslu tveggja
stórra orkuvera, á Nesjavöllum og Hellisheiði. Auk þessa eru rafdreifikerfi á
höfuðborgarsvæðinu og Akranesi vöktuð frá stjórnstöð en þau eru ekki í höndum
okkar vélfræðinganna heldur sérfræðinga í rafdreifikerfum. Þá höfum við verið með svo gott vaktkerfi
síðan 2006 að við getum auðveldlega séð hverjir verða á vaktinni um jólin 2016
og gert ráðstafanir vegna sumarleyfa eða einstöku viðburða mörg ár fram í tímann.
Á þessum tíu árum hefur vissulega ýmislegt gengið á, alvarlegar bilanir, minni
uppákomur og eitt og eitt óhapp, en með því að sömu sex persónurnar sinna
störfum í stjórnstöð vatns ár eftir ár hefur tekist að halda uppákomum, óhöppum
og kostnaði í lágmarki til stórsparnaðar fyrir viðskiptavini Orkuveitunnar.
Karl vinur minn Karlsson hefur nú notið tíu ára á eftirlaunum, orðinn
ekkjumaður og farinn að hægja á sér enda orðinn 77 ára gamall. Megi hann njóta
elliáranna sem lengst og best. Vonandi
verð ég jafnhress er ég fer á eftirlaun eftir innan við áratug og Kalli var er
hann hætti.
þriðjudagur, apríl 30, 2013
30. apríl 2013 - Tíu ár
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:19
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli