Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur með að ég var mjög óánægð með
kosningaúrslitin 27. apríl. Þrátt fyrir margt gott sem fráfarandi
ríkisstjórn hafði komið til leiðar tókst henni ekki að kynna það nægilega vel fyrir
þjóðinni auk þess sem nokkur stór mál voru enn óútkljáð sem drógu verulega úr
fylginu við ríkisstjórnarflokkana þá fyrst og fremst Samfylkinguna. Þar fer stjórnarskrármálið fremst sem glutraðist niður
í óheppilegu orðalagi formannsins einungis mánuði eftir að hann hafði tekið við
formennskunni og skapaði þannig grundvöll fyrir enn einu nýju framboði sem kom
engum manni á þing. Formaðurinn verður sjálfur að bera ábyrgð á orðum sínum og
fylgishruninu sem varð í kjölfar orða hans.
Annars fór ég að velta fyrir mér orðum hinna ýmsu forystumanna smáframboðanna
og kvörtunum þeirra yfir 5% markinu til að koma manni á þing. Það var vissulega
heilmikið til í þeim orðum þeirra að 5% markið er erfiður hjalli að klífa, en
um leið má velta því fyrir sér hver staðan hefði verið ef þessi þröskuldur
hefði verið afnuminn. Ég fór að skoða tölurnar miðað við að landið hefði allt
verið eitt kjördæmi og án 5% marksins. Þá hefði málið litið aðeins öðruvísi út.
Sjálfstæðisflokkur hefði þá fengið 18 þingmenn, Framsóknarflokkur 16 þingmenn,
Samfylking 8 þingmenn, VG sjö þingmenn, Björt framtíð 5 þingmenn og „Píratar“ 3
þingmenn. þá hefði Dögun fengið tvo þingmenn, Flokkur heimilanna tvo þingmenn, en
Lýðræðisvaktin og Hægri grænir einn þingmann hvor. Með öðrum orðum, þingmennirnir
hefðu skipst í tíu flokka í stað sex eins og nú er. Slíkt hefði boðið heim
möguleikanum á mörgum einstaklingsframboðum af sama tagi og Sturla Jónsson
reyndi að stofna. Við slíkar aðstæður er ástæða til að hugsa til þeirra
aðstæðna sem voru á tímum Weimar lýðveldisins í Þýskalandi á millistríðsárunum þar
sem margir tugir smáflokka reyndu að koma sér á framfæri, mörgum tókst en að
lokum hrundi Weimar lýðveldið með yfirtöku harðstjórnar nasista.
Það er enginn vafi að ástæða er til að fara í naflaskoðun að afloknum
kosningum. Það þarf að skoða innviðina, félagaskrána, félagsgjöldin, læra af
því sem miður fór og efla baráttuandann. Ég er viss um að fjöldi stuðningsmanna
Bjartrar framtíðar og Lýðræðisvaktarinnar eru á félagaskrá Samfylkingarinnar og
margir þeirra hafa vafalaust tekið þátt í að móta stefnu Samfylkingarinnar og
velja fólk til forystu í vetur til góðs eða ills eftir því hvernig á það er
litið. En umfram allt er ljóst að það er kominn tími til að setjast niður og
tala saman og skoða hvernig hægt er að gera betur.
sunnudagur, apríl 28, 2013
28. apríl 2013 - Að afloknum kosningum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 14:24
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
Naflaskoðun er málið :-)
SvaraEyðakv.AE