Um daginn var vitnað í bókina Burt með draslið á Facebooksíðu bókaútgáfunnar
Sölku. Upp fyrir mér rifjaðist að ég hafði eignast bókina fyrir fáeinum árum.
Ég hafði flett í gegnum hana og lagt hana frá mér og búmms, hún var horfin í draslið
á heimilinu. Síðan eru liðin nokkur ár sem fyrr segir og ég hefi ekkert saknað
hennar fyrr en nú.
Eftir áminninguna á Facebook fór ég að athuga hvort ég fyndi bókina heima og
mikið rétt. Það tók mig einungis skamman tíma að finna hana þar sem hún var í
þriðju skúffu að ofan í hillusamstæðunni sem ég hafði fengið eftir andlát
foreldranna, einmitt í skúffunni sem átti að geyma drasl sem ég tímdi ekki að
henda og þar fann ég í sama vettvangi talsvert af gögnum sem ég taldi mig hafa
glatað eða gleymt. Lagði síðan bókina frá mér á stofuborð þar sem hún yrði
örugglega fyrir augum mínum næst þegar næði gæfist.
Um hádegið í dag kom slíkt næði. Ég hafði lokið helstu morgunverkum á heimilinu
og lagað hádegismat fyrir mig og kettina og ákvað síðan að kíkja í bókina. Ég
hafði ekki lesið margar blaðsíður þegar ég kom að kafla sem setti mig út af
laginu:
Skjalasafnið
á borðstofuborðinu
Áður en ég hvarf frá draslaralífi mínu montaði ég mig af því að við værum
afslöppuð fjölskylda sem vildi frekar borða óformlegar máltíðir í eldhúsinu en
í borðstofunni. Sannleikurinn var sá að á borðstofuborðinu voru svo háir
staflar af pappírum, bókum og dóti að það hefði tekið mig óratíma að tæma það. (tilvitnun lýkur)
Ég leit í áttina að borðstofunni. Eins og venjulega var borðstofuborðið
yfirfullt af pappírum, bókum og allskyns dóti sem ég hafði ekki komið í verk að
ganga frá. Ég leit til baka á diskinn sem ég hafði nýlega lokið við að borða af
á litla stofuborðinu og ég gaf mér ekki tíma til að halda áfram að lesa í
bókinni.
Nokkrum klukkutímum síðar hafði mér tekist að ganga frá öllum pappírum sem
höfðu verið á borðstofuborðinu, gengið frá uppþvottinum inni í skáp, hreinsað
eldavélina svo að hún skein af hreinlæti, hreinsað gufugleypirinn að utan og
innan og þrifið eitthvað af hillum og skápum í eldhúsinu og var þó talsvert
eftir enn í eldhúsi og borðstofu er ég þurfti að fara á vaktina.
Mig grunar að ég muni hafa nóg að gera næstu dagana auk þess að lesa betur í
þessari merkilegu bók.
miðvikudagur, apríl 10, 2013
10. apríl 2013 - Burt með draslið
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 22:52
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
Nice Blog !
SvaraEyðawomen
health